Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:48:00 (3111)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegur forseti. Nokkuð sérkennileg staða er hér uppi þar sem hæstv. utanrrh. hefur tiltekna skoðun á þeim málum sem verið er að ræða. Í framhaldi af því spyrja menn gjarnan: Já, en ríkisstjórnin? Þeir eiga þá við alla hina ráðherrana og tala um ríkisstjórnina eins og hún sé nefnd eða fjölskipað stjórnvald. Staðreyndin er auðvitað sú að utanrrh. er ríkisstjórnin í utanríkismálum og það getur enginn frá honum tekið nema meiri hluti Alþingis með vantrausti, sem kannski kemur að einn góðan veðurdag, um það veit ég ekki neitt.
    Aðalatriðið er þó það að Alþingi taki afstöðu í málinu og ég held að vegna þeirra viðhorfa sem hæstv. utanrrh. hefur í þessu máli sé óhjákvæmilegt fyrir Alþingi, sem aðila að hinu norræna þingmannasamstarfi, að taka af skarið. Það getur gerst með þrennu móti. Í fyrsta lagi með samþykkt þingsályktunartillögu um málið. Í öðru lagi með því að fulltrúar okkar í Norðurlandaráði geri sérstaka samþykkt um þetta mál. Ég vil spyrja: Hefur þetta verið rætt í þeim hópi og eru þar uppi hugmyndir um að gera sérstaka samþykkt um málið í framhaldi af umfjöllun forsætisnefndarinnar og þessarar umræðu sem fram fer hér? Í þriðja lagi er auðvitað sá möguleiki að utanrmn. geri sérstaka samþykkt um þetta mál. Ég tel að það sé algerlega óhjákvæmilegt að eitt af þessu þrennu gerist og helst þó það að Alþingi Íslendinga taki af skarið. Ég skil auðvitað utanrrh. ósköp vel þó að hann vilji hafa sínar persónulegu skoðanir á máli af þessu tagi og það er í sjálfu sér ekki hægt að setja mikið út á það þótt slíkt gerist. Ég get líka vel skilið að menn vilji gjarnan leita að einhverjum hálmstráum eða leiðum til að rífa upp þetta norræna samstarf. Ég tel satt að segja að það þurfi á því að halda að menn taki þar rösklega til hendinni með allt öðrum og nýjum hætti, m.a. með hliðsjón af þeirri þróun sem er að gerast í Evrópu.
    En okkar vandi er sá að utanrrh. þjóðarinnar, sem starfar í umboði meiri hluta Alþingis, hefur aðra skoðun en meiri hluti Alþingis. Þess vegna þarf meiri hluti Alþingis að staðfesta sinn vilja og formanni fulltrúaliðs okkar hjá Norðurlandaráði eða formanni utanrmn. eða forseta Alþingis er skylt að ganga þannig frá hnútunum að vilji Alþingis komi fram með skýrum hætti af því að eins og sakir standa er hæstv. utanríkisráðherra ekki treystandi til að fara með hann af því að hann hefur aðrar skoðanir.