Afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildar Eystrasaltsríkjanna að Norðurlandaráði

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 14:50:00 (3112)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég er hins vegar ekki sammála því mati, sem m.a. hefur komið fram hjá mörgum, að það sé mjög heppilegt að utanrrh. landsins hafi eina skoðun og ríkisstjórnin aðra í utanríkismálum. Það er mikilvægt að utanríkisráðherra Íslands tali ávallt fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Þegar hann lætur skoðun í ljós í tilteknum málum verður að vera ljóst, sérstaklega hvað utanríkismál varðar, að hann tali fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar. Ef hann hefur aðra persónulega skoðun á hann að mínu mati að hafa heldur hægt um sig þar til niðurstaða er komin í málið.
    Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem störfum á vettvangi Norðurlandaráðs eða í öðrum alþjóðlegum stofnunum og alla að vita gjörla um afstöðu ríkisstjórnar Íslands í utanríkismálum. Ég veit það núna að hér var um að ræða persónulega skoðun utanrrh. Ég get þá svarað því til ef ég verð spurður um það, sem ég á von á þegar þessi mál verða rædd, því ég heyri að utanrrh. landsins hefur rætt þetta mál við fulltrúa þessara landa og

þeim hlýtur að vera það ljóst. Ég vænti þess að utanrrh. hafi þá tekið fram við þessa fulltrúa að hér væri um persónulega skoðun hans að ræða en ég hef ekki fengið svör um hver er skoðun ríkisstjórnar Íslands. Utanrrh. landsins hefur upplýst að það hafi ekkert tilefni gefist til að taka afstöðu til þessa máls. Samt hefur hann persónulega tekið afstöðu til þess í viðtölum við fulltrúa þessara ríkja. Þetta gengur ekki, hæstv. utanrrh., og þannig er ekki hægt að starfa.
    Ég er ekki að útiloka það um alla framtíð að þarna geti orðið breyting á. Ég tel það hins vegar ekki þjóna hagsmunum Norðurlanda eða hagsmunum þessara landa að ræða form af þessu tagi við þessar kringumstæður. Það er verið að ræða um annars konar samstarfsform og telur utanrrh. það heppilegt að hann láti í ljós slíka skoðun meðan slíkar viðræður eiga sér stað milli fulltrúa þessara landa og Norðurlandaráðs? Svörin eru fengin og utanrrh. hefur lýst sínum persónulegu skoðunum en þá vita menn það, sérstaklega fréttamenn landsins, að þeir verða ávallt að spyrja utanrrh. Íslands þegar hann segir já eða nei: Er það í nafni ríkisstjórnar Íslands eða er það í nafni persónunnar Jóns Baldvins Hannibalssonar eða er það í nafni annars embættis? Þetta er viðbótarspurning sem allir fréttamenn verða að bæta við héðan í frá.