Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 15:59:00 (3121)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi, sérstaklega vegna síðustu ræðu, óska eftir að hæstv. forsrh., sem er flutningsmaður þessa frv., verði viðstaddur umræðuna. Og þegar ég kem að yfirlýsingu hæstv. forseta þingsins verði forsetinn í stólnum en ekki varaforsetar. ( Forseti: Hæstv. forsrh. hefur verið gert viðvart og kemur væntanlega í salinn.)
    Virðulegi forseti. Það var leitt að hæstv. forsrh. skyldi ekki heyra hér ræðu sem hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannes Geir Sigurgeirsson, flutti. Þingmaðurinn greindi frá því að það hefði verið fyrst í dag sem efh.- og viðskn. þingsins hefði fengið á sinn fund stjórnarmenn Framkvæmdasjóðs. Á síðustu mínútum og síðustu klukkustund hefðu nefndarmönnum verið að berast í hendur bréfaskriftir og greinargerðir frá Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdasjóði sem stjórn sjóðsins hefur látið frá sér fara, svo og Seðlabanki Íslands og Lánasýsla ríkisins.
    Hæstv. forsrh. man væntanlega að ég óskaði eftir því í síðustu viku að 2. umr. um þetta mál yrði ekki lokið fyrr en nefnd þingsins hefði tækifæri til að ræða við stjórnendur sjóðsins. Ég vakti athygli á því að það væri óverjandi að svo mikilvægur sjóður væri lagður niður með þeim hætti sem hér er lagt til án þess að viðkomandi þingnefnd hefði tækifæri til að ræða við ábyrgðaraðila sjóðsins. Það stóð í nokkrum strekkingi við þáv. sitjandi forseta, hv. þm. Björn Bjarnason, sem greinilega var mjög tregur til að verða við þessari ósk minni eins og oftast þegar maður ber fram einhverjar óskir við hann. Þá eru alltaf hans fyrstu viðbrögð að vera tregur. En ég náði því þó fram að atkvæðagreiðslunni yrði frestað og leitaði eftir því að nefndin fjallaði um málið. Ég verð að segja það eftir þá ræðu sem hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson flutti að ég er nokkuð undrandi á því að formaður efh.- og viðskn., starfandi formaður nefndarinnar, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, skyldi ekki greina þinginu frá þeim efnisatriðum sem hér komu fram í ræðu hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar.
    Það sem hér kemur fram er m.a. það að á bls. 3 í bréfi stjórnar Framkvæmdasjóðs til hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, dags. 9. sept. 1991, kemur fram að samkvæmt hinum erlendu lánasamningum er Framkvæmdasjóði skylt að senda lánardrottnum sínum ársreikninga sjóðsins. Sé það ekki gert eða sýni ársreikningurinn neikvæða stöðu sjóðsins eru beinar heimildir fyrir lánardrottnana til að gjaldfella öll lánin.
    Nú blasir það við að Ríkisendurskoðun hefur skilað formlegri skýrslu til forsrn. þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að sjóðurinn sé gjaldþrota. Það er nýjasta orðið um stöðu sjóðsins. Hæstv. ríkisstjórn tókst ekki að afgreiða þetta mál fyrir áramót. Á því geta verið ýmsar skýringar, ég ætla ekki að ræða neitt um það hér, málið var á fyrri forgangslistum ríkisstjórnarinnar en ekki á hinum síðari. Það er í raun og veru aukaatriði í málinu á þessu stigi. En ég vil spyrja hæstv. forsrh. í ljósi þeirra upplýsinga sem nú hafa komið fram: Hvernig hyggst forsrn. ganga frá ársreikningum Framkvæmdasjóðs Íslands fyrir árið 1991? Samkvæmt lögum landsins er sjóðurinn enn að fullu starfandi og þarf þess vegna að skila formlegum ársreikningum fyrir árið 1991.
    Nú kemur það fram í þessu bréfi, sem mér var ekki kunnugt um fyrr en það var kynnt hér úr ræðustól fyrir fáeinum mínútum síðan, að ef ársreikningurinn sýnir neikvæða niðurstöðu, sem hann hlýtur að gera ef forsrn. ætlar að fylgja nýjustu niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, þá gætu erlendir lánardrottnar verið í fullum rétti að krefjast greiðslu frá íslenska ríkinu á öllum lánsupphæðunum í einu. Ég vek athygli hæstv. forsrh. á því að í gildandi fjárlögum fyrir þetta ár eða í lánsfjárlögum, sem hér á að fara að samþykkja, er ekki ætluð ein einasta króna til slíkra greiðslna. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.: Hafa farið fram viðræður við hina erlendu lánardrottna? Það er upplýst í þessum gögnum að það séu 22 erlend lán, ég held að ég fari rétt með það, sem eru útistandandi hjá Framkvæmdasjóði. Það er rétt, það kemur fram í bréfi til Framkvæmdasjóðs frá Seðlabanka Íslands dags. 3. sept. Öll þessi lán virðast samkvæmt þessum gögnum vera þannig úr garði gerð að þau gætu gjaldfallið næstu vikur eða mánuði á grundvelli lánasamninganna og þeirrar ársskýrslu fyrir árið 1991 sem gefin verður út. Ég minni hæstv. forsrh. og forseta þingsins á að ríkisendurskoðandi, Halldór V. Sigurðsson, þarf samkvæmt lögum að skrifa upp á þá ársskýrslu. Hann getur ekki skotið sér undan þeirri lagaábyrgð. Væntanlega mun hæstv. ríkisendurskoðandi, Halldór V. Sigurðsson, í þeirri uppáskrift láta það koma fram að nú sé sjóðurinn gjaldþrota. Þá fyrst yrði farsinn fullkominn, virðulegi forseti, ef ríkisendurskoðandi hagaði sér í þeirri uppáskrift eins og í uppáskrift á reikningunum 1989 og 1990, að sjóðurinn væri í góðu standi og ætti fyrir skuldum.
    Við skulum ætla þar til eitthvað nýtt kemur fram, enn eitthvað nýtt frá Ríkisendurskoðun í þessu máli, að eftir fáeinar vikur birtist ársreikningurinn, t.d. í marsmánuði eins og gerðist í fyrra, frá Framkvæmdasjóði með uppáskrift ríkisendurskoðanda um að nú sé neikvæð staða sjóðsins upp á 1.700 millj. Þá blasir við samkvæmt þeim formlegu bréfum sem hér liggja fyrir frá Seðlabankanum Íslands og Framkvæmdasjóði Íslands að þessi erlendu lán gætu öll gjaldfallið. Hæstv. forsrh., sem ábyrgur aðili, hlýtur því nú þegar að vera búinn að gera sér grein fyrir því og gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þessi gjaldfelling eigi sér ekki stað. Það er auðvitað hægt að gera með því að gera samkomulag við þá sem veittu lánin. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsrh.: Hafa slíkar viðræður farið fram? Er hæstv. forsrh. með staðfestingu undir höndum frá þessum lánardrottnum um að þeir muni ekki nýta sér þessi ákvæði samninganna? Ég teldi það satt að segja mikið glæfraspil að ljúka þessari 3. umr. og láta atkvæðagreiðslu fara fram án þess að forsrh. eða fjmrh. séu komnir með formlega staðfestingu í hendur frá hinum erlendu lánadrottnum um að þeir hafi skilning á eðli málsins og muni lúta því að fyrri ákvæði um eðlilegar afborganir þessara lánasamninga séu áfram í gildi. Þess vegna er það sjálfsagt að sú ábending, sem kom fram frá hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni um að beðið væri með að afgreiða málið endanlega þar til það lægi skýrt fyrir, sé íhuguð hér í mikilli alvöru. Ég er ekki viss um að forráðamenn stjórnarliðsins hafi kynnt sér þetta eins og það liggur núna fyrir. Ég verð að játa, þótt ég teldi mig nokkuð kunnugan þessum málum, að þá hafði ég ekki gert mér grein fyrir því að í ákvæðum lánasamninganna væru ákvæði af þessu tagi.
    Ef hæstv. forsrh. hefur nú þegar látið ganga úr skugga um þetta atriði þannig að það liggi formlega fyrir í einhverjum skriflegum skuldbindingum eða niðurstöðum formlegra viðræðna milli annaðhvort Seðlabankans, Framkvæmdasjóðs, fjmrn. eða forsrn., við hina erlendu lánardrottna, þá er sjálfsagt að taka það gilt. En það er nauðsynlegt að það upplýsist hér.
    Þetta er auðvitað, eins og hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson sagði, mjög alvarleg áminning til þingsins um að kasta ekki höndunum til lagasetningar, jafnvel þótt einhverjir stjórnarliðar eða ráðherrar segi að nú verði menn að flýta sér. Það kom jafnframt fram í ræðu hans að núv. stjórnarmenn í Framkvæmdasjóði, þ.e. seðlabankastjóri, Tómas Árnason, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Þórður Friðjónsson og Benedikt Jóhannesson, sem valinn hefur verið sérstakur trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar á fleiri sviðum, hafi verið mjög ósáttir við skýrslu Ríkisendurskoðunar um stöðu sjóðsins. Það hef ég aldrei heyrt fyrr. Mér finnst það mjög merkilegt ef það hefur komið fram, sem ég rengi ekki í frásögn hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirsson, að stjórnendur sjóðsins sem allir gegna ábyrgðarstöðum í íslenska stjórnkerfinu og peningakerfinu, hafi lýst sig á fundi nefndarinnar mjög ósátta og jafnvel ósammála niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Ég vil þess vegna inna aðra hv. nefndarmenn sem hér eru, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, hv. þm. Halldór Ásgrímsson og starfandi formann nefndarinnar, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, eftir því hvort þetta er rétt. Því ef svo er blasir við að þeir þrír einstaklingar, sem allir gegna ábyrgðarstöðum í íslenska stjórnkerfinu og falið hefur verið af forsrh. og núv. fjmrh. að vera stjórnarmenn í þessum sjóði, hafa allt annað mat á stöðu sjóðsins en lagt er til grundvallar í því frv. sem hér er flutt. Einnig kom fram í þessari ræðu og kemur fram í þessum bréfum sem ég fékk hér á leiðinni upp í ræðustólinn og þingmenn fengu í hendur fyrir tæpri klukkustund að

af hálfu Framkvæmdasjóðs hafa fleiri leiðir verið taldar koma til greina. Kostir þeirra og gallar eru reifaðir hér í þessu bréfi.
    Þar er t.d. að finna mjög athyglisverðan kafla sem ég hef ekki heldur heyrt sagt frá fyrr en ég sé það hér í þessari greinargerð sem undirrituð er á bls. 4 með nöfnum Þórðar Friðjónssonar, Tómasar Árnasonar og Benedikts Jóhannessonar. Hér er d-liður á bls. 4 í bréfi til forsrh. Íslands, dags. 9. sept., þar sem þessir þrír ágætu menn leggja til stofnun sérstaks eignarhaldsfélags um eignir Framkvæmdasjóðs tengdar fiskeldi. Þar kemur fram í síðustu málsgreininni að ,,eignarhaldsfélagið yrði rekið á viðskiptalegum grundvelli og hefði það hlutverk að gera sem mest verðmæti úr eignum og fjárkröfum Framkvæmdasjóðs tengdum fiskeldi. Ekki yrði þó ætlast til þess að eignarhaldsfélagið færi sjálft út í almennan rekstur fiskeldisstöðva heldur seldi eignir sínar eða leigði og byggi þannig í haginn fyrir sölu þeirra síðar þegar tímabært þætti.``
    Ég minnist þess ekki að hæstv. forsrh. --- er leitt að hann skuli vera genginn úr salnum --- hafi gert þinginu grein fyrir þessum tillögum. Þær koma auðvitað þó nokkuð inn á það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að ræða hér áðan. Er þess vegna nauðsynlegt að hæstv. forsrh. svari því hér hver er afstaða hans til þessarar tillögu.
    Virðulegi forseti. Í raun og veru er það þannig að hér hafa á síðustu mínútum komið fram alveg ný efnisatriði í þessu máli. Efnisatriði sem eru með þeim hætti að ég tel nauðsynlegt að t.d. þingflokkar og þingnefndin hafi tækifæri til að skoða það áður en menn gera upp hug sinn til endanlegrar afgreiðslu málsins. Ég tek það aftur fram, eins og ég gerði hér við 2. umr., að ég hef engan áhuga á að tefja þetta mál, og ég hugsa að ég sé einn af þeim mönnum hér í þinginu fyrir utan stjórnarliðið sem einna helst hefur stutt það að þetta næði fram að ganga. En við erum með alvarlegan hlut í höndunum. Og það er ekki hægt að kasta höndunum til afgreiðslu á málum af þessu tagi á þjóðþinginu þegar spurningar um skuldbindingar í 22 erlendum lánasamningum hafa komið fram, eins og hér hefur gerst. Ég beini því þess vegna til nefndarmanna sem hér eru, formanns nefndarinnar og forsrh. að þeir tjái sig um þau atriði sem hafa verið að koma fram í dagsljósið áður en metið verður hvernig haldið verður áfram með málið. Ég sé ekki mikinn mun á því hvort frv. verði gert að lögum 22. jan. eða 4. febr., svo ég nefni dæmi. Það breytir því ekki að ríkið verður að ganga frá ársreikningi fyrir þennan sjóð fyrir árið 1991 og Ríkisendurskoðun verður að skrifa upp á hann. Og erlendu lánardrottnarnir munu fá hann í hendur. Mér leikur óneitanlega nokkur forvitni á að vita hvernig hæstv. forsrh. hyggst leysa þá þraut án þess að fá í hausinn 22 erlend lán, --- borga þau upp strax, gjörið svo vel.
    Ég ætla ekki að hafa orð um það í þessum efnum eða dæma á þessu stigi hvort ríkisstjórnin hefur sjálf skapað sér þennan vanda og komið sér í þessa klípu, eins og hér var gert áðan, en óneitanlega er þetta orðið mjög sérkennilegt.
    Ég greindi síðan frá því að ég og formaður þingflokks Alþb. hefðum ákveðið að beita okkur fyrir því að skrifa formlegt bréf til forseta þingsins og fara fram á að Ríkisendurskoðun gerði sérstaka skýrslu um það hvers vegna hún skrifar upp á reikningana 1989 og 1990 og telur allt í góðu lagi, kemst síðan að þeirri niðurstöðu nokkrum mánuðum síðar að hér sé um stórkostlega vanrækslu og tap að ræða. Mér var fullkunnugt um þann rétt þingmanna að skrifa slík bréf til forseta þingsins. Það þurfti ekki að segja mér það af forsetastóli. Ég nefni fjölmörg fordæmi í þeim efnum. Hins vegar get ég ekki neitað því að mér fannst sumt í yfirlýsingu hæstv. forseta nokkuð undarlegt. Og ég er ekki alveg viss um, með virðingu fyrir forseta, að það hafi allt verið hugsað til enda. Væri t.d. fróðlegt að vita hvort þessi afstaða sé niðurstaða umræðna í forsætisnefnd, hvort málið hafi verið rætt þar og að þetta sé því eins konar niðurstaða forsætisnefndar eða hvort forseti hafi gengið frá þessu einn.
    Í þessum orðum forseta kom fram að forseti tæki ekki á sig faglega ábyrgð á störfum ríkisendurskoðanda og starfsliðs hans. Að sjálfsögðu ekki, ekki nokkur maður hefur haldið því fram að forseti ætti að gera það. Enginn ágreiningur er við mig um það mál.
    Forsetinn segir hins vegar að það sé á misskilningi byggt það sem ég hafi sagt í umræðum að forseti eða forsætisnefnd bæri það sem ég hef kallað ,,ráðherraábyrgð`` á ríkisendurskoðanda. Síðan er reynt að rökstyðja þetta. Ég ætla ekki að fara í ítarlegar umræður við forseta um þetta mál en tel nauðsynlegt að hann og forsætisnefndin fari aftur yfir þessa niðurstöðu. Tekið var sem dæmi í umræðunum að þetta væri hliðstætt og hvað snertir ríkissaksóknara. Ég vil í því sambandi minna á að ég get almennt fallist á þá samlíkingu að staða forsetaembættisins, forsætisnefndar gagnvart Ríkisendurskoðun sé nokkuð hliðstæð stöðu dómsmrh. gagnvart ríkissaksóknara og Hæstarétti.
    Hins vegar vil ég nefna að nokkur söguleg dæmi eru um að dómsmrh. hafa talið nauðsynlegt að grípa inn í embættisfærslur hæstaréttardómara og slíkra embættismanna. Þannig að ef forsetadæmið vill halda sér við þessa samlíkingu þá er alveg ljóst að niðurstaðan í þessum yfirlýsingum er ekki alveg rétt. Það sem ég átti við með ráðherraábyrgð er m.a. hliðstæð ábyrgð forsetadæmisins gagnvart Ríkisendurskoðun og dómsmrh. hefur gagnvart Hæstarétti og ríkissaksóknara. Eins og sagan getur kennt bæði forseta og öðrum í forsætisnefnd felur þetta samband í sér skyldur dómsmrh. til að bregðast við ef hann/hún telur að dómarar í Hæstarétti eða ríkissaksóknari geti ekki eða hafi ekki gegnt störfum sínum með eðlilegum hætti. Ég minni virðulegan forseta á að um þetta er tiltölulega nýtt sögulegt dæmi. Þar greip dómsmrh. inn í embættisfærslu eins dómara við Hæstarétt sem leiddi til þess að hann vék úr embætti og þótt hann höfðaði mál gagnvart ráðherranum tapaði dómarinn málinu fyrir Hæstarétti.
    Ég sé þess vegna ekki að forsetaembættið geti skotið sér undan ábyrgð á Ríkisendurskoðun með jafnafgerandi hætti og mér virðist vera gert í þeim texta sem forseti þingsins las upp á forsetastól. Ég beini því til forsetans að skoða málið betur og kynna sér fordæmin um samband dómsmrh. við dómara í Hæstarétti og ríkissaksóknara.
    Ég er hins vegar alveg sammála forsetanum um að forsetaembættið eigi alls ekki bera faglega ábyrgð á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar, það eiga embættismenn að gera sjálfir. Það er ekki eðlilegt að forsetaembættið sé að gera einstakar athugasemdir við einstakar niðurstöður Ríkisendurskoðunar. Ég lýsi því enn og aftur yfir að ég tel að forsetaembættið og Alþingi, bæði samkvæmt lögum og siðferðislega, beri ábyrgð á því að tryggja að fullur trúnaður geti ríkt milli þjóðþingsins og Ríkisendurskoðunar og þjóðarinnar og Ríkisendurskoðunar. Á sama hátt og dómsmrh. ber sú ábyrgð að grípa inn í ef hann telur trúnaðarbrest hafa orðið milli einstakra dómara í Hæstarétti og ríkissaksóknara og þjóðarinnar, eins og hin sögulegu dæmi sína.
    Þess vegna skil ég satt að segja ekki hvers vegna forsetadæmið telur nauðsynlegt að lýsa því yfir fyrir fram að það vilji ekki setja rannsóknarnefnd yfir Ríkisendurskoðun eða telji sig hafa nokkra heimild til þess. Ef forsetaembættið telur sig ekki hafa heimild þá þarf ekkert að ræða um viljann. Ég tel hins vegar að málið sé ekki komið á það stig að taka þurfi afstöðu til þessa atriðis hér og nú. Ég tek að því leyti undir orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, að mér finnst nokkuð snemmt í þetta farið. Hins vegar má segja að málið liggi ljóst fyrir á þessu stigi. Við munum skrifa þetta bréf og rekja þar hvernig Ríkisendurskoðun hefur komist að gjörólíkum niðurstöðum varðandi ársreikninga Framkvæmdasjóðs. Við munum rekja lýsingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á meðferð málsins þegar hann var fulltrúi fjmrh. í stjórn Framkvæmdasjóðs. Við munum rekja niðurstöðu þeirrar nefndar sem hæstv. núv. forsrh., Davíð Oddsson, setti á laggirnar og við munum rekja undirskriftir hæstv. núv. ríkisendurskoðanda, Halldórs Á. Sigurðssonar, á ársreikninga Framkvæmdasjóðs fyrir árin 1989 og 1990. Í þessu bréfi munum við óska eftir því að Ríkisendurskoðun verði beðin um skýrslu til að skýra þetta misræmi í niðurstöðum. Það er beiðni sem er fullkomlega í stíl við beiðni sem þingmenn og þingflokkar hafa áður sent til Ríkisendurskoðunar. Og ég ætla alls ekki að gera að því skóna hér og nú að þeirri beiðni verði hafnað enda yrði það allsérkennilegt mál. Við getum þess vegna haft nokkuð rúman tíma til að velta fyrir okkur hvað gera skuli í framhaldinu. Vel er hugsanlegt að mönnum þyki þær skýringar fullnægjandi sem fram koma hjá Ríkisendurskoðun í þessari skýrslu þannig að ekki sé þörf á neinu framhaldi. Því fannst mér óþarfi hjá forsetaembættinu að vera að gefa sér eitthvað fyrir fram í þeim efnum. Síðan er hugsanlegt að hluta þingsins eða meginhluta þingsins finnist nauðsynlegt að aðhafast eitthvað meira í málinu.

Þá ræðum við það bara okkar í millum þegar að því kemur. En ég ætla ekki að lýsa neinu í þeim efnum fyrir fram. Hitt er kjarni málsins að þjóðþingið getur ekki látið málið enda svona. Það er ekki hægt.
    Ég vil ítreka tilmæli mín til hæstv. forsrh. og hv. nefndarmanna að þeir geri okkur nánari grein fyrir því máli sem hér er til umfjöllunar. Ég vil koma þeirri ábendingu á framfæri að það kann að vera nauðsynlegt í ljósi þeirra upplýsinga og viðhorfa að meta hvort skynsamlegt sé út frá fjárhagshagsmunum íslenska ríkisins að samþykkja frv. sem endanleg lög í dag.
    Vel getur verið, virðulegi forsrh., að til þess að tryggja fjárhagslega hagsmuni íslenska ríkisins gagnvart þessum 22 erlendu lánum þurfi að ganga betur frá málunum í viðskiptum við þessa lánardrottna áður en þingið gerir sína samþykkt.