Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 16:33:00 (3122)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
     Vegna þeirra orða sem hv. 8. þm. Reykn. lét falla um fundarstjórn mína á fundinum 17. jan. sl. þegar Framkvæmdasjóður Íslands var til umræðu, kemst ég ekki hjá því að ræða það mál nokkuð nánar og vil vitna í ræðu sem hv. 8. þm. Reykn. flutti þá í umræðum. Eftir að hann hafði velt nokkuð fyrir sér hvernig hann vildi að meðferð þessa máls yrði hagað, sagði hann orðrétt í lokin: ,,Ég vil sem sagt fara fram á það að atkvæðagreiðsla um málið fari ekki fram fyrr en tækifæri hefur gefist til að skoða þessa þætti sem ég hef hér nefnt. Ég vona að menn verði við þeirri ósk í samræmi við þær venjur sem hér hafa skapast.
    Ég ítreka það sem ég hef sagt hér nokkrum sinnum, ef vera mætti til að róa hæstv. forsrh., að ég er reiðubúinn að beita mér fyrir því að frv. verði endanlega afgreitt áður en þingið gerir hlé á störfum sínum í þessum mánuði.``
    Þetta sagði hv. 8. þm. Reykn. í ræðu sinni. Þegar umræðunni lauk tók ég fram að ég mundi beita mér fyrir því að tekið yrði tillit til þessara óska þingmannsins. Ég lét þess einnig getið að sem forseti þingsins gæti ég ekki gefið nefndinni fyrirmæli um að koma saman og vænti þess að hv. þm. léti þessi sjónarmið sín í ljós við fulltrúa sína í viðkomandi nefnd. Einnig vil ég láta þess getið að ég ræddi málið við varaformann nefndarinnar, starfandi formann, og tel mig hafa tekið á máli hv. þm. af fullkomnu hlutleysi og af fullkominni ábyrgð og leyst það í samræmi við þær óskir sem fram komu í ræðu hans.