Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 16:35:00 (3123)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Björn Bjarnason hefði lesið meira úr ræðu minni hefði hann flutt þann texta að ósk mín um að atkvæðagreiðslunni yrði frestað var varakrafa. Aðalósk mín í umræðunni var sú að 2. umr. yrði ekki lokið formlega fyrr en nefndin hefði haft tækifæri til að koma saman. Vegna þess, hv. þm., eins og ég sagði í ræðunni, að óeðlilegt væri að setja þingmenn í þá stöðu að þurfa að greiða atkvæði um málið þegar það lægi fyrir að nefndin hefði aldrei fengið tækifæri til að ræða við stjórn sjóðsins. Ég held að þau skjöl sem lesin hafa verið í dag og gerð að umtalsefni frá stjórn sjóðsins og bárust fyrir röskri klukkustund staðfesti þá skoðun mína að mjög óeðlilegt var að greiða atkvæði um málið áður en nefndin hafði tækifæri til að ræða við stjórn sjóðsins og fjalla um þær greinargerðir og bréf sem nú hafa verið lögð fram.
    En vegna þess að ég skynjaði, þó þingtíðindin geymi nú ekki þá skynjun, að bæði svipbrigði og höfuðhreyfingar hæstv. forsrh., mig minnir einnig starfandi forseta, gáfu til kynna að ekki yrði orðið við þeirri aðalósk minni að fresta umræðunni, þá setti ég fram varakröfu um að það yrði a.m.k. beðið með atkvæðagreiðsluna. Nú var hins vegar lagt kapp á það í dag að láta atkvæðagreiðsluna fara fram áður en menn fengu í hendur þessi bréf frá Framkvæmdasjóði. Ég tel það slæmt en er alveg reiðubúinn að taka yfirlýsingu hv. þm. Björns Bjarnasonar sem góða og gilda. Ég minni hins vegar á að aðalkrafa mín var að umræðunni yrði ekki formlega lokið. Það sem snerti atkvæðagreiðsluna var varakrafa.