Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 16:46:00 (3128)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Fram hefur komið í máli hv. 8. þm. Reykn. að hann muni ásamt formanni þingflokks Alþb. skrifa hæstv. forseta og forsætisnefnd formlegt bréf þar sem farið verður fram á að Ríkisendurskoðun geri formlega skýrslu til skýringa á atriði tengdu þessu frv., sem er verið að fjalla um, sem ekki hafi fengist nægileg skýring á í meðferð málsins á Alþingi.
    Einnig hefur komið fram í umræðunum að mjög lítil vinna hefur farið fram í efh.- og viðskn. um þetta mál. Með tilliti til þess vildi ég koma fram með þá ábendingu til hæstv. forseta og forsætisnefndar hvort hún vildi ekki líta á það hvort ekki gæti verið heppilegra að fram færi meiri vinna innan nefndarinnar. Á þann hátt gætu málin skýrst nægjanlega vel á þeim vettvangi svo að þær upplýsingar kæmu fram þar sem hugsað er um að fara fram á í því bréfi sem hv. 8. þm. Reykn. sagðist mundu skrifa. Ég vil beina því til forsætisnefndar að hún athugi hvort það væru ekki heppilegri vinnubrögð áður en slík þáttaskil verða er þetta frv. verður afgreitt sem lög.