Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 16:48:00 (3130)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég held að sú umræða sem nú fer fram og þær aðstæður sem eru komnar upp í umræðum um málið við þriðju og síðustu umræðu sanni betur en margt annað hversu ákaflega bagalegt það er þegar lítill tími gefst til að athuga mál með eðlilegum og rólegum hætti í þingnefnd. Staðreyndin er auðvitað sú að þetta mál hefði þurft að ræða og skoða rækilega og fara ofan í saumana á á þeim tíma þegar það barst inn í þingnefnd fyrir jólaleyfi, í desember væntanlega. Flestar af þeim uplýsingum sem komið hafa fram í dag benda til að um nokkuð flókið og snúið mál geti verið að ræða þar sem sé eins hyggilegt að ganga hægt um gleðinnar dyr, ef svo má að orði komast. Þar á ég annars vegar við þau álitamál, pólitískt viðkvæm með ýmsum hætti, sem tengjast uppgjöri sjóðsins með langa sögu að baki og 26 milljarða útlán útistandandi, og svo hins vegar tæknileg atriði sem lúta að framkvæmd slíks og varða m.a. þá lánasamninga sem sjóðurinn hefur með höndum.
    Ég tel nauðsynlegt að fram komi að þær upplýsingar sem hafa aðallega orðið mönnum tilefni til umræðna bárust ýmist efh.- og viðskn. í morgun með fyrsta og eina fundinum sem verið hefur með stjórn Framkvæmdasjóðs út af þessu máli --- eða bárust okkur nefndarmönnum í bréfum í dag. Annars vegar barst afrit með faxsendingu af þeim bréfaskriftum sem gengu milli stjórnar Framkvæmdasjóðs og Seðlabanka og Lánasýslu á sl. sumri eða hausti, og hins vegar barst bréf dagsett í dag til starfsmanns efh.- og viðskn. frá Framkvæmdasjóði Íslands samkvæmt tilmælum mínum, en ég fór fram á það að okkur yrðu send talnaleg gögn til stuðnings ákveðnum umræðum sem fóru fram í efh.- og viðskn. í

morgun um málið. Ég held að nauðsynlegt sé að hv. þm. hafi þetta í huga í umræðunum um stöðuna nú varðandi málin.
    Hvorugt var okkur í raun og veru kunnugt, annars vegar afstaða stjórnar Framkvæmdasjóðs til þessara álitamála varðandi uppgjör sjóðsins --- og ég tek undir það sem hér kom fram að þeir lýstu mikilli óánægju sinni með það hvernig fjallað væri um þau mál í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þar með væntanlega líka í skýrslu fortíðarvandanefndarinnar sem étur meira og minna upp sömu klisjurnar. Hins vegar gafst nánast ekki tími til að ræða þau álitamál sem varða lánasamninga Framkvæmdasjóðs og þá staðreynd að með ársreikningum fyrir árið 1991 gætu þeir allir saman verið í uppnámi ef illa tekst til. Menn hljóta að sjá í hendi sér að það er enginn annar kostur en að loka reikningum Framkvæmdasjóðs fyrir nýliðið ár á grundvelli þágildandi laga um starfsemi sjóðsins nema menn ætli að mæla fyrir um það með einhverjum nýjum hætti í afturvirkum lögum að engum ársreikningi eigi að skila á árinu 1991 eða eitthvað því um líkt. Eða að það skuli gera Egilsstaðasamþykkt um að hvað sem öllum upplýsingum líði sé fjárhagur Framkvæmdasjóðs góður, rétt eins og þegar þeir í Egilsstaðasamþykktinni samþykktu það að ríkissjóður skyldi vera skuldlaus hvað sem tautar og raular. ( Gripið fram í: Væri skuldlaus.) Ja, væri skuldlaus, það væri bara þannig. Þetta heita Egilsstaðasamþykktir á Austurlandi og auðvitað er vel hugsanlegt og væri eftir öðru að ríkisstjórnin ætli sér að gera einhverja Egilsstaðasamþykkt um það að hagur Framkvæmdasjóðs hafi hvað sem öllu öðru líður verið blómlegur á árinu 1991. En ég hygg að það verði samt sem áður erfitt og stæðist t.d. illa skoðun erlendra lögfræðinga, viðskiptaaðila Framkvæmdasjóðs.
    Aðeins varðandi álitamálin sem lúta að uppgjöri sjóðsins. Vegna þeirra fjármuna sem Framkvæmdasjóður hefur lagt í fiskeldið á undanförnum árum er alveg ljóst að það mál eitt og sér hvernig eignir Framkvæmdasjóðs, sem nú eru bundnar í fiskeldisstöðvum vítt og breitt um landið, verða bókaðar og meðhöndlaðar ræður úrslitum um hvort sjóðurinn er gjaldþrota og öfugur eða jafnvel réttum megin við strikið. Svo einfalt er það mál. Svo stórar tölur eru á ferðinni að jafnvel ýtrustu fullyrðingar Ríkisendurskoðunar um að 1.200--1.400 millj. kr. vanti upp á fjárhag Framkvæmdasjóðs svo að hann sé í lagi geta horfið inn í óvissuna og fráviksmörkin sem varða þetta eina atriði. Hvernig ætla menn að meta þær miklu eignir sem liggja í fjárfestingunni í fiskeldinu til verðs? Hvert verður verðmæti þeirra innan tveggja, þriggja ára eða þegar fram líða stundir og hvernig ætla menn að fara með þau mál? Ætla menn að raunvirða þetta allt sem tap nú á einu bretti með hliðsjón af því að markaðsvirði þessara fjárfestinga er sem stendur sáralítið eða ekki neitt? Þess vegna má með strangri túlkun eða þröngri túlkun af því tagi, bara gefa sér þá niðurstöðu að af því að enginn sé tilbúinn til þess að labba til ríkissjóðs eða Framkvæmdasjóðs í dag og kaupa þetta og borga út í hönd, sé þetta einskis virði. Út af fyrir sig er hægt að fullyrða það. En auðvitað er það ekki svo. Endurstofnverð fjárfestinganna skiptir milljörðum króna. Ég hélt satt best að segja að venjan væri sú að hafa það a.m.k. í huga hvert endurstofnverð slíkra fjárfestinga væri þó svo að markaðsverðið væri sveiflukennt. Auðvitað er alveg ljóst að markaðsverð á íbúðarhúsnæði á Suðureyri er ekki hátt. Það er núll. Auðvitað má halda því fram á meðan hús eru til sölu á einhverjum stað á landinu og þau seljast ekki að markaðsverðið sé þar með núll, eða hvað? En endurstofnverð húsanna getur eftir sem áður skipt milljónum króna. Auðvitað veldur þetta því að mönnum er vandi á höndum þegar menn gera slíka hluti upp, annaðhvort vegna tímabundinna eða staðbundinna sveiflna í markaðsverði.
    Þetta vil ég sérstaklega taka hér fram. Einmitt í gær eða fyrradag vildi svo nöturlega til að fréttir bárust um að ákveðið fyrirtæki, þar sem eru miklir kjarkmenn sem hafa reynt ýmislegt fyrir sér á undanförnum árum, Andri hf., gerir út togara á Alaskamið og kaupir sjónvarpsstöðvar og hvað eina ( Gripið fram í: Verksmiðjuskip.) ja, verksmiðjuskip --- að þetta fyrirtæki gæti jafnvel hugsað sér að taka á leigu tvær stórar eldisstöðvar, annars vegar seiðaeldisstöð og hins vegar fiskeldisstöð. Þetta eru kjarkmenn og væri betur að fleiri slíkir væru sem þyrðu að taka einhverja áhættu og fitja upp á einhverju nýju. Okkur vantar einmitt slíka menn, einkum og sér í lagi núna á þeim tímum þegar ríkisstjórnin sjálf er að drepa allt slíkt í dróma.
    En þessir menn, hvað ætli þeir séu að hugsa? Jú, manni dettur það í hug að þeir séu að veðja á að markaðsverð fyrir eldisfisk sé á uppleið, sem ýmsir tala nú um, og að öll líkindi séu til að það muni haldast sæmilegt um eitthvert árabil. Dregið hafi úr hinni gífurlegu framleiðsluaukningu og hún nánast stöðvast um sinn, en þrátt fyrir allt hafi eftirspurnin verið jafnt og þétt vaxandi. Vegna þess að það muni taka talsverðan tíma að auka framleiðsluna aftur séu líkur á að í hönd fari eitthvert tímabil þar sem framboð og eftirspurn eigi að geta verið í sæmilegu jafnvægi og verðið svona heldur hækkandi og þokkalega stöðugt. Þetta eru auðvitað bara spár og þær geta svo sem fokið og farið fjandans til en trúlegt er að þessir menn séu að velta þessum möguleikum fyrir sér, að gera sér einhver verðmæti úr aðstöðunni með því að taka þetta á leigu. Bendir það ekki frekar til þess að það sé kannski ekki alveg tímabært að slá því föstu ad infinitum að þetta séu verðlausar eignir? En þetta dæmi veltur algjörlega á því.
    Ef maður fer yfir lánveitingar Framkvæmdasjóðs til fiskeldis á undanförnum árum, tekur þar þau ár sem mest uppbygging hefur á orðið, þ.e. árin 1984--1990, og á þeim tíma er talið að helstu fjárfestingalánasjóðir og aðilar hafi lagt fram lán til fiskeldis 5.400 millj. kr. u.þ.b., framreiknað til núvirðis, 5.400 millj. kr. Þar af er Framkvæmdasjóður með tæplega 2.600 millj. Auðvitað er alveg ljóst að það hvort menn meta þessi útlán að öllu leyti eða hálfu leyti töpuð getur gert þetta útslag sem Ríkisendurskoðun er að tala um. Ef þau eru að öllu leyti metin töpuð má kannski fá það út með því að leggja öll þessi lán saman, sem að vísu er rangt eins og hér hefur komið fram í umræðum bæði af hálfu hæstv. fyrrv. forsrh. og stjórnarmenn sjóðsins staðfestu einnig á fundi í morgun að um það væri að ræða í nokkrum tilvikum að lán væru sett tvisvar inn í dæmið, vegna þess að fyrir þeim væru ýmist bakábyrgðir, í einhverjum tilvikum hefur Landsbankinn bakábyrgst lánveitingar Framkvæmdasjóðs, en í öðrum tilvikum hefðu þegar verið teknar eignir eða tryggingar upp í viðkomandi lán og væri þar af leiðandi fráleitt að telja þau töpuð.
    Hvernig sem þetta er meðhöndlað og þó að menn reikni ekki með að meira en 40% eða 30% af þessum lánum skili sér í fyllingu tímans sýnist mér í fljótu bragði að þar með væri Framkvæmdasjóður kominn á slétt og hið hræðilega sukk og ábyrgðarleysi og aðgæsluleysi í lánveitingum væri þá ekki verra en þetta.
    Nú ber að taka það fram að auðvitað er það með ólíkindum ef öll þessi lán tapast að fullu og öllu vegna þess að Framkvæmdasjóður á nánast undantekningarlaust fyrsta veðrétt. Hann er því best tryggður allra aðila í sambandi við þessar eignir og fær þar af leiðandi allt sem út úr þeim kemur þangað til hann hefur náð sínu, ekki satt? Jú, það hlýtur að liggja þannig úr því að hann á nánast undantekningarlaust fyrsta veðrétt auk þess sem það er orðið svo að í mjög mörgum tilvikum á hann orðið þessar eignir og hefur þær algerlega til ráðstöfunar upp í skuldir sínar.
    Hæstv. forsrh. fór mjög geyst í þessu máli á meðan vindurinn var í honum. Nú hefur að vísu skipt mjög um og hæstv. forsrh. verið mjög prúður á þinginu eftir áramótin og satt best að segja hefur hann engum stórum sprengjum kastað. Aðrir menn hafa tekið við af honum í því hlutverki eins og hæstv. heilbrrh. sem hefur aðallega staðið fyrir óspektum upp á síðkastið og hv. 17. þm. Reykv. sem hélt öllu í uppnámi í gærkvöldi þannig að menn fengu ekki einu sinni matarhlé. (Gripið fram í.) En hæstv. forsrh. var á mikilli siglingu í sumar og haust og fór með miklum gassagangi og hjó á báðar hendur og sakaði menn um óráðsíu og spillingu og sóun og sukk í hinum ýmsu tilvikum og þar á meðal hafði hann mjög stór orð uppi um Framkvæmdasjóð. Reyndar hafa hinir minni spámenn dregið dám af þessum stíl og bæði Ríkisendurskoðun og fortíðarvandanefndin eru að reyna að vinna fyrir kaupinu sínu hjá þessum mönnum og taka stórt upp í sig varðandi ábyrgðarleysi stjórnar Framkvæmdasjóðs á undanförnum árum. Ég spyr hv. þm. að því, er nema von til þess að menn krefjist þess að þessi mál verði upplýst úr því að svona þungar ásakanir hafa fallið? Á fundi efh.- og viðskn. í morgun mótmæltu stjórnarmenn alveg sérstaklega ásökunum um að þeir hafi með einhverjum ógætilegum hætti staðið að lánveitingum út úr Framkvæmdasjóði á undanförnum árum umfram það sem mætti þá segja yfir höfuð

um aðra sem lánveitingar hafa stundað til íslensks atvinnurekstrar á undanförnum árum. Hvers vegna sögðu þeir þetta? Jú, vegna þess að Framkvæmdasjóður studdist við nákvæmlega sömu útlánareglur og aðrir fjárfestingarlánasjóðir, gerði t.d. ekki minni kröfur um eigin fjármögnun þess atvinnurekstrar sem verið væri að lána til og byggja upp, nákvæmlega þær sömu, yfirleitt 30--33%. Ýmsir fleiri lánuðu á nákvæmlega sama tíma til sömu hluta og á sömu skilmálum og með sömu kröfum og Framkvæmdasjóður. Og hverjir eru það, hæstv. forsrh., sem eru þá undir nákvæmlega sömu sök seldir og stjórn Framkvæmdasjóðs? Það er Byggðastofnun sem lánaði stórar fjárhæðir á þessum árum í m.a. fiskeldi m.a. aftan við veðrétt Framkvæmdasjóðs. Það er Fiskveiðasjóður, það er Iðnþróunasjóður, það er Den Norske Creditbank. Þeir eru þá návæmlega jafnábyrgðarlausir og stjórn Framkvæmdasjóðs á Íslandi. Það er Þróunarfélag Íslands, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Iðnaðarbanki Íslands og auðvitað fjölmargir smærri aðilar sem ekki eru taldir hér með svo sem viðskiptabankar, sparisjóðir, Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina eftir að hann kom til o.s.frv. Þetta er því einum of billegur málflutningur hjá hæstv. forsrh. og þessum skýrsluhöfundum og ég skil það mjög vel þó svo það sé svo fjarri því að vera einhver köllun mín í lífinu að verja fyrrum stjórnarmenn Framkvæmdasjóðs. Þeir hljóta að geta gert það sjálfir og eru mér með öllu óskyldir. Ég hef aldrei staðið fyrir því að setja þar nokkurn mann til valda. Samt vil ég láta þá njóta sannmælis þegar þeir eru bornir þungum sökum og ég tel a.m.k. að það sé rétt að menn átti sig á því að menn eru að fella nákvæmlega sama áfellisdóm yfir fjölmörgum öðrum aðilum. Ég held að það væri rétt hjá hæstv. forsrh. að hann skrifaði nú eitt bréf upp á norsku og léti þá hjá Den Norske Creditbank vita af því hvílíkir angurgapar þeir hafa verið í lánveitingum á undanförnum árum og varaði þá við þessu úr því að hann tekur tekið það að sér að siða menn svona til í þessum efnum.
    Síðan er það þannig, hæstv. forseti, að ég hef tvisvar óskað eftir því að hæstv. sjútvrh. yrði viðstaddur umræður um þessi efni af því að hann var um skeið formaður Sjálfstfl., og bar þar af leiðandi ábyrgð á stjórnarþátttöku Sjálfstfl. á árunum 1983--1987, þ.e. það skeið sem hann var formaður flokksins sem var mestallt þetta tímabil. Hann var fjmrh. á þessum tíma og hann var síðan forsrh. í ríkisstjórn Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. á árunum 1987--1988 þannig að sá flokkur sem ber langmesta ábyrgð á þessum hlutum er Sjálfstfl., að vísu með nokkrum stuðningi Framsfl. og svo kratanna. Sá maður sem á kannski hvað mest um sárt að binda eftir árásir hæstv. núv. forsrh. er hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson. Þess vegna er rétt að upplýsa hæstv. forsrh. um það hvernig þessi sekt dreifist í milljónum kr. annars vegar á Sjálfstfl. og samstarfsaðila hans í þeim ríkisstjórnum sem sátu á árunum 1984--1988 og hins vegar á þá sem þá tóku við. Það er þannig, hæstv. forsrh., að af 4.135 millj. kr. lánveitingum til fiskeldis á vegum helstu fjárfestingarlánasjóða á árunum 1984--1988 er Framkvæmdasjóður með 2.222 millj. en aðrar lánastofnanir með 1.913 millj. Sem sagt, á þessum tíma Sjálfstfl. og hæstv. sjútvrh. Þorsteins Pálssonar er Framkvæmdasjóður með 2.222 millj. Í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar eru þessar tölur fyrir Framkvæmdasjóð 374 millj. og fyrir aðrar lánastofnanir 896 millj., samtals 1.270 millj. Þannig að af 2.596 millj. kr. lánveitingum Framkvæmdasjóðs til fiskeldis á árunum 1984--1990 eru aðeins 374 millj. í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það nær með öðrum orðum ekki 15% af heildarútlánum Framkvæmdasjóðs ( Forsrh.: Hvað með ríkisstjórnina 1983--1987?) Ég á við hinar síðari tvær, 1982 og 1983. Það er að vísu alveg hárrétt hjá hæstv. forsrh. að þessi ágæti nafni minn var líka í ríkisstjórn 1983--1987 og leiddi hana (Gripið fram í.), allt rétt, en með honum var Sjálfstfl. og aðalsamstarfsaðili hv. 7. þm. Reykn., Steingríms Hermannssonar, á þessum tíma var þáv. formaður Sjálfstfl., hæstv. núv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson. Sjóðurinn heyrði að vísu undir forsrh. ( ÓRG: Og fjmrh. Sjálfstfl.) en fjmrh. voru Sjálfstfl. Nú gerist hæstv. forsrh. órólegur. Hæstv. forseti, nú gerist hæstv. forsrh. órólegur og það er von því að hér er verið að fletta ofan af hinum svakalegu árásum hæstv. forsrh. á hæstv. sjútvrh. ( Forsrh.: Þingmaðurinn fór rangt með.) Þingmaðurinn fór ekkert rangt með, mér varð á það eina í þessu efni, hæstv. forsrh., að taka ekki fram úr því að hæsv. forsrh. hafði tilhneigingu til að misskilja þetta, að ég átti við annað og þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar. Það skýrðist að vísu af því að ég tók ártölin sem þarna áttu hlut að máli. Hæstv. forsrh. þarf endilega að þekkja a.m.k. það mikið til stjórnmálasögu Íslands að hann viti að á árunum 1988--1990 sátu þær ríkisstjórnir Steingríms Hermannssonar sem voru númer tvö og þrjú í röðinni. Síðan kemur sjálfsagt fjórða ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fljótlega þegar þessi hrökklast frá, en það er önnur saga, það er í framtíðinni. En þetta er sem sagt svona. Hæstv. forsrh., innan við 15% af þessum lánveitingum Framkvæmdasjóðs til fiskeldis áttu sér ekki stað á tímum stjórnarþátttöku eða stjórnarforustu Sjálfstfl., tæp 86% af öllum þessum svakalegu og svívirðilegu lánveitingum í fiskeldi fóru fram á tímum Sjálfstfl. í ríkisstjórn.
    Hér er mættur að góðu getinn hæstv. sjútvrh. og velkominn til umræðunnar, hæstv. sjútvrh. Ég tel það ekki nokkra hemju að ætla hæstv. sjútvrh. að sitja endalaust þegjandi undir þessum sífelldu árásum af því að svo vill til að hæstv. sjútvrh. leiddi þá ríkisstjórn sem í raun og veru tók þá einu, stóru opinberu ákvörðunina um fjárfestingu í fiskeldi. Eina stóra, opinbera ákvörðunin um fjárfestingu í fiskeldi er ákvörðun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar frá því um miðbik ársins 1988 að veita 800 millj. kr. á þávirði sérstökum lánum inn í viðbótarfjárfestingu í fiskeldi til þess að reyna að gera verðmæti úr þeim seiðum sem þá voru til landinu og seldust ekki þegar seiðamarkaðir lokuðust í Noregi. Fram að þeim tíma höfðu fjárfestingar í fiskeldi að langmestu leyti verið á vegum einkaaðila og guðfaðir fiskeldisins, hv. 4. þm. Reykv. hélt á þessum tíma ( Gripið fram í: Hann er ekki guðfaðir.), hélt á þessum tíma merkar ræður, tilfinningaþrungnar, fullar af sannfæringarkrafti um það að fiskeldinu yrðu allir vegir færir svo lengi sem það losnaði við ríkisafskipti. Mér eru vel í minni þessar ræður fluttar uppi í efri deild sálugu, ágætar ræður, alveg fram á árið 1989 þegar ræðumaður fór að baksa við þessi fiskeldismál sem þáv. landbrh. Þannig er nú það. Enda voru það einkaframtaksmenn og jafnvel einkabankar og sjálfstæðir lánasjóðir sem lánuðu þarna ,,villevekk`` í fiskeldi, enda var það þá í tísku og þótti fínt og jafnvel helstu skrautfjaðrir einkaframtaksins. Fyrirtæki eins og Fjárfestingarfélagið, Þorvaldur í Síld & fiski og alls konar slíkir heilagir menn í einkabransanum og heilög fyrirtæki lögðu fé í fiskeldi af því að það var í tísku og þótti fínt þannig að það er rangt, það er sögufölsun, það er lygi að hin mikla fjárfesting og áföll í íslensku fiskeldi séu dæmi um einhverjar viðjar opinberra afskipta. Það er beinlínis rangt. (Gripið fram í.) Fyrir utan einkaframtakið sem þarna átti náttúrlega langstærstan hlut að máli var það helst samvinnuhreyfingin sem lagði nokkurn hlut.
    Síðan er auðvitað rétt að minna menn á það ef menn halda að það hallist eitthvað á klyfjunum pólitískt í þessum efnum og þessar upplýsingar dugi ekki til að draga fram hlut Sjálfstfl., að svo seint sem 1990 vildu ákveðnir hv. þm., þar á meðal hæstv. núv. fjmrh. Friðrik Sophusson, hv. 1. þm. Vestf. og hæstv. heilbrrh., lána meira í fiskeldið en þá var gert ráð fyrir í tillögum ríkisstjórnar. Gott ef þeir fluttu ekki mál hér í þinginu um að lána meira og vildu bara alls ekki fara heim fyrr en þeir væru búnir að berja það í gegnum þingið að veita meira fé til fiskeldis, Auðvitað er alveg sama hvar á þetta er litið að þessir leiðangrar hæstv. forsrh. eru ekkert annað en árásir á samherjana og sérstaklega á hv. þm. Þorstein Pálsson. Hæstv. forseti, ég verð fyrir miklum vonbrigðum með karlmennsku hæstv. sjútvrh. ef hann situr enn þegjandi undir þessum endalausu árásum hæstv. forsrh. sem felast í öllu þessu máli þó að það skuli að vísu tekið fram að hæstv. forsrh. hefur verið allur til muna hógværari eftir áramótin í málflutningi. Sennilega er það einhver verkaskipting í þessum efnum innan ríkisstjórnarinnar að þeir skiptast á um að manna sprengjuvörpuna og það er þá væntanlega hæstv. heilbrrh. sem heldur þar um gikkinn núna samanber gærdaginn og allt í lagi með það.
    Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég á að fjalla miklu meira um þetta á þessu stigi. Ég hlýt auðvitað að taka undir að það væri náttúrlega langeðlilegast við þessar aðstæður sem upp eru komnar seint í umfjöllun um málið að fresta umræðunni, og gefa nefndum þingsins eða nefnd þingsins færi á því að skoða þetta betur. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann telji að þetta mál sé þannig statt úr því að hvort eð er kominn 22. jan.

að það skipti einhverjum sköpum þó að lögfesting þess bíði fram í febrúarmánuð þannig að við gætum þá frestað umræðunni, tekið málið til betri skoðunar og lokið hins vegar því að afgreiða þau mál sem hér liggja fyrir og menn tala um að klára og eru tengd fjárlögunum, þ.e. ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjárlögum.
    Ég vil nefna í þessu sambandi hv. þm. til upplýsingar að stjórn Framkvæmdasjóðs mun halda fund nú um helgina og þar mun stjórn Framkvæmdasjóðs fara yfir tillögur eða greinargerð sem starfsmenn sjóðsins í samráði við stjórn hafa verið að vinna þar sem fram kemur mat Framkvæmdasjóðs sjálfs á eignastöðu sjóðsins um þessar mundir. Þar verða væntanlega á ferðinni tilraunir starfsmanna Framkvæmdasjóðs og stjórnarmanna að meta til einhverra verðmæta, þeirra sem réttlætanlegt getur talist, eignir Framkvæmdasjóðs bundnar í fiskeldi. Ég tel að það séu gögn í þessu máli sem eigi fullt erindi inn í umræðu um málið áður en Alþingi lýkur afgreiðslu frv. að stjórn Framkvæmdasjóðs og starfsmenn fái a.m.k. í þessum skilningi tækifæri til að bera hönd yfir höfuð sér og leggja fram gögn sín og mat sitt og niðurstöður sínar varðandi þessa eignastöðu sjóðsins á lokastigi starfsemi hans ef svo fer gegn þeim sakfellingarskýrslum sem hér hafa verið reiddar fram af Ríkisendurskoðun og fortíðarvandanefnd --- fortíðardraugaleitarnefnd forsrh. finnst mér nú eiginlega nær að kalla það, sem birtist í Þorláksmessuskýrslunni hinni fölbláu.
    Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta á þessu stigi málsins, en ég ítreka spurningar mínar til hæstv. forsrh. og bæti þeim við þær sem ég hef þegar fengið í umræðunni. Sú mikilvægasta er auðvitað sú hvort hæstv. forsrh. sé tilbúinn að til að íhuga það að fresta umræðunni og gefa færi á að skoða þetta mál betur. Ef svo væri og hæstv. forsrh. gæti komið hér upp og fullvissað okkur um það þá þurfum við ekki í sjálfu sér á þessu stigi málsins að ræða það frekar. Þá held ég að tvímælalaust væri til bóta að gera strax hlé á umræðunni og halda henni ekki áfram fyrr en að lokinni miklu vandaðri skoðun á þessu máli.