Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 17:41:00 (3134)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég vildi aðeins rifja upp hvernig þetta mál ber að. Það er flutt af hæstv. forsrh. og er á þskj. 178 og gekk til efh.- og viðskn. þar sem um það var fjallað á tiltölulega stuttum tíma því það var eins með þetta mál og mörg önnur mál fyrir jólin að mikið lá á við að koma því fram áður en þingmenn færu í jólaleyfi. Ég vil minna á að í nál. 2. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 269 kemur eftirfarandi fram:
    ,,Annar minni hluti óskaði eftir því að fá að ræða við stjórn Framkvæmdasjóðs um málefni sjóðsins. Ekki var orðið við þeirri beiðni.``
    Formaður efh.- og viðskn. taldi ekki ástæðu til þess, en síðan hefur varaformaður nefndarinnar gegnt formennsku í nefndinni. Ef ég man rétt, þá var talið að hér væri um að ræða tillögur stjórnar sjóðsins og þess vegna væri ástæðulaust fyrir nefndina að kalla á stjórnina. En við höfum mótmælt því við umræður og talið að það hlyti að vera óeðlilegt að leggja niður sjóð sem þennan án þess að fá tækifæri til að ræða við stjórn sjóðsins.
    Vegna þess að málinu var frestað féllst varaformaður nefndarinnar góðfúslega á það að verða við því að kalla stjórnina fyrir. Var ástæða til þess kannski ekki síst vegna þess að það kemur fram í fskj. með þessu frv. á bls. 5, með leyfi hæstv. forseta: ,,Gera verður athugasemdir við óvarkárni í útlánum sjóðsins.``
    Þetta er að vísu úr skýrslu svokallaðrar fortíðarnefndar sem hefur greinilega vit á öllum hlutum --- ( ÖS: Nema fortíðinni.) nema fortíðinni, segir þingflokksformaður Alþfl. og má vera að það sé þá engin tilviljun að slíkri nefnd skuli eingöngu vera falið um að fjalla um fortíðina. En það er e.t.v. dæmi um handabakavinnu meiri hlutans að fá eingöngu menn til starfa sem ekki hafa vit á viðkomandi málaflokki. Má vera að það verði eins með tilsjónarmennina. En hvað um það. Það hlýtur að teljast eðlilegt að stjórnin sé kölluð fyrir og hún spurð um þessi mál, ekki síst með tilliti til þess hvernig umræður hafa verið að undanförnu og allur málatilbúnaður í kringum þetta mál, ekki síst af hálfu hæstv. forsrh. Nú er það óumdeilt að þessi sjóður hefur því miður tapað miklu fé. Það er hins vegar alltaf vandasamt verk að finna út úr því hverjir eiga þar mesta sök. Má vel vera að hæstv. forsrh. hafi mikla ánægju af því að vera í slíkum leik og gera það sem lengst. Það er alveg ljóst að stjórnvöld á hverjum tíma hljóta að bera ábyrgð á því sem hefur gerst en stjórnarmenn sjóðsins telja sig hins vegar hafa farið eftir útlánareglum sem miðuðu við að aldrei væri lánað nema 67% af kostnaðarverði. En það hefur hins vegar gerst að markaðir fyrir fiskeldisvörur hafa hrunið og eignirnar standa ekki undir kostnaðarverði. Það er hins vegar ekki auðvelt mál að meta með nákvæmni hvers virði þessar eignir eru. Þær eru ekki meira virði en þær hugsanlega geta skilað í framtíðinni og það er alveg ljóst að það eru tiltölulega fáir kaupendur sem geta hugsað sér að leysa þær til sín við þessar aðstæður. Þá hlýtur að vakna sú spurning hjá eigendum þessara eigna hvort rétt sé að selja þær við núverandi aðstæður eða bíða og sjá til hvort verðmæti þeirra kunni að vaxa. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á hvað sé rétt í þeim efnum en ég tók hins vegar eftir því á fundi nefndarinnar í morgun að stjórnarmenn í Framkvæmdasjóði Íslands sögðu að sérfræðingar þeirra í laxeldi vildu meta eignirnar með öðrum hætti en Ríkisendurskoðun gerir. ( ÖS: Sem hefur ekkert vit á laxeldi.) Sem hefur ekkert vit á laxeldi, segir hv. þm. sem er eða a.m.k. var stjórnarmaður í þessum sjóði. Það var jafnframt upplýst að fram hefðu farið mjög ítarlegar umræður á árinu 1990 hvernig eignir sjóðsins skyldu metnar og þessar viðræður hefðu farið fram af mikilli alvöru af hálfu stjórnarinnar m.a. við fulltrúa Ríkisendurskoðunar og þar hefði verið komist að niðurstöðu um afskriftir eftir mjög miklar umræður. Þar hafði

verið farið eftir þeim afskriftarreglum sem taldar voru réttastar á þeim tíma og Ríkisendurskoðun hafði lagt blessun sína yfir.
    Ég get vel skilið að það er ekki einfalt verk að komast að slíkri niðurstöðu. Það er heldur ekki einfalt verk að meta hvers virði eignirnar eru í dag. En í fskj. með þessu frv. kemur einfaldlega fram það mat að það þurfi viðbótarafskriftir upp á 2.700 millj. kr. Þegar eignir sjóðsins hafa verið afskrifaðar um 2.700 millj. til viðbótar þá sé eiginfjárstaða sjóðsins neikvæð um 1.300 millj., eða réttara sagt hefði þurft 1.857 millj. sem tillag í afskriftasjóð á árinu 1990 í stað 224 millj. sem væntanlega hefur verið niðurstaða stjórnarinnar þá og þeirra endurskoðenda sem þá voru með í ráðslagi og það er eðlilegt að stjórnin hafi tekið fullt tillit til þess.
    Það má lengi ræða þessar tölur og fara yfir það hvernig þetta hefur allt saman orðið til. Ég get tekið undir að auðvitað var farið of geyst í þessum efnum. En málið sem menn standa frammi fyrir núna er: Er hugsanlegt að gera það verð úr þessum eignum, ekki í dag heldur á næstu árum, sem getur orðið til þess að sjóðurinn verði ekki fyrir þessu mikla tapi? Þá hlýtur sú spurning að vakna í sambandi við afgreiðslu þessa máls: Hvernig á að fara með þau mál í höndum hinna nýju umsjónarmanna hjá Lánasýslu ríkisins? Hvernig ætla þeir að standa að því að koma þessum eignum í sem mest verð?
    Þetta er spurning sem vaknar við yfirferð málsins á þessum morgni og henni hefur ekki verið svarað. Á einfaldlega að ganga út frá því að hér hafi orðið gífurlegt tap sem engin leið sé að bæta nema varpa því yfir á skattgreiðendur? Er það lausnin í málinu? Að 1.300 millj. skulu lagðar á skattgreiðendur til að bera uppi þetta tap? Er það það eina sem hægt er að gera?
    Ég leyfi mér að hafa um það nokkrar efasemdir. Ég ætla ekki að hafa frammi neinar fullyrðingar um hvernig að þessu skuli staðið. En ég minni hæstv. forsrh. á að hann sagði í ræðu þann 6. des. að núv. stjórnarandstaða vildi vera í þeirri aðstöðu að hún gæti hyglað sér og sínum. Þetta voru stór orð af munni hæstv. forsrh. og náttúrlega órökstuddar fullyrðingar sem eru honum ekki sæmandi. Ekki ætla ég að halda því fram að mönnum sé það í huga í þessu sambandi að afhenda þessar eignir einhverjum tilteknum aðilum, en hins vegar er það með menn sem svona tala í garð annarra að þessar hugsanir virðast vera á sveimi með þeim og auðvitað spyrja menn í þessu sambandi: Hvernig í ósköpunum á að standa að þessu og hvað liggur á í sambandi við þetta mál?
    Það var upplýst hjá stjórnarmönnum í Framkvæmdasjóði að nk. föstudag er fundur þar sem á að fara yfir eignamat sjóðsins, þar sem á að reyna að gera sér grein fyrir því hver staða sjóðsins er. Það gæti verið ástæða til að bíða eftir því og leggja það til grundvallar, a.m.k. svona ásamt greinargerð fortíðarnefndarinnar sem var upplýst hér af hv. þingflokksformanni Alþfl. að hefði ekkert vit á fortíðinni. Það voru ekki mín orð. En yfirleitt þarf ekki að hafa uppi miklar fullyrðingar í þessum efnum því hæstv. stjórnarliðar sjá til þess að upplýsa okkur um slík atriði. Ekki hef ég rætt við þessa menn sem eru sérfræðingar í fortíðinni. Hins vegar sýnist mér að þeir hafi tilhneigingu til að vera nokkuð fullyrðingasamir en vonandi hafa þeir gögn sem styðja slíkt háttalag.
    Ég vildi fyrst og fremst ítreka það, hæstv. forseti, að ég tel rétt að láta þetta mál bíða og er orðinn miklu sannfærðari um það en þegar ég skrifaði undir nál. þann 16. des. 1991, en þá lýstum við því yfir að við mundum sitja hjá við afgreiðslu málsins, m.a. í þeirri trú að stjórnarmenn hefðu mælst til þess að þessi leið hefði verið farin. Nú sýnist mér að ekki sé allt saman sem skyldi í þeim efnum.
    Ég tel að hérna sé um það að ræða að nauðsynlegt sé að tryggja virði þessara eigna og líka þarf að liggja alveg ljóst fyrir að engin leið sé að gjaldfella lán sjóðsins. Það er alveg rétt sem kom fram hjá varaformanni nefndarinnar að ekkert kom fram á fundi nefndarinnar í morgun í orðum stjórnarmanna sem gæti bent til þess. Hins vegar er það jafnframt rétt að lítill tími var til að ræða málið við þá og þeir gerðu beinlínis athugasemdir við hvað þeir hefðu lítinn tíma til að gera grein fyrir málinu og vildu koma ýmsu öðru á framfæri en gátu það ekki vegna tímaskorts. Við sem störfum í minni hluta liggjum oft undir ámæli fyrir að við séum að tefja þingstörf og séum að biðja um að kallað sé á ýmsa

aðila til að upplýsa sem best um mál. Við reynum að taka tillit til þess að ekki er alltaf langur tími til stefnu en það er hins vegar orðið mjög áberandi hve oft ekki er nægilegt ráðrúm til að fara ofan í málin og væri það meira virði að mínu mati að hafa góðan tíma til að fara yfir þetta mál í nefnd og þurfa ekki að vera að ræða það hér í smáatriðum í umræðum á hv. Alþingi.
    Ég tel það t.d. nauðsynlegt, vegna þess sem fram hefur komið, að fjalla um þetta mál við Ríkisendurskoðun. Mér finnst nauðsynlegt, þegar fram kemur ágreiningur að því er varðar mat á eignum með þeim hætti sem fram hefur komið í þessu máli, sett fram af stjórnarmönnum, að viðkomandi nefnd fái að ræða við trúnaðarstofnun þingsins í slíkum málum sem er Ríkisendurskoðun. Ég ætla ekki að dæma um hver hefur rétt fyrir sér. Það er enginn dómari í því nema framtíðin og það er ekki hollt fyrir þá aðila sem leggja mat á slíkar eignir að reyna að halda því fram að þeir geti haft algjörlega rétt fyrir sér í þeim efnum. Það getur enginn en hins vegar er nauðsynlegt að þar séu einhverjar samræmdar reglur sem eru hafðar til viðmiðunar en þær eru því miður alltaf háðar verulegri óvissu. Það er t.d. alveg ljóst að eignir Fiskveiðasjóðs eru ekki mikils virði ef þorskstofninn við Ísland mundi hrynja --- ( Gripið fram í: Og veiðileyfagjald yrði tekið upp.) --- og eignir þjóðarbúsins mundu rýrna allverulega ef gífurlegur aflasamdráttur yrði. Það er ekki til siðs að meta eignir út frá slíkri svartsýni. Menn reyna að leggja á það raunhæft mat og miða við það sem gengur og gerist á þeim tíma. Þannig hygg ég að hafi verið að því er varðaði fiskeldið, að menn lögðu mat á stöðuna á hverjum tíma en síðan kom í ljós að hún var verri. Nú þarf að leggja mat á það hverjir eru framtíðarmöguleikarnir í þessari atvinnugrein til þess að gera sér grein fyrir því hvaða verð er hægt að fá fyrir eignirnar og það kann að vera réttlætanlegt að bíða.
    Að mínu mati er fráleitt að selja Síldarverksmiðjur ríkisins þegar engin loðnuveiði er. Hins vegar kann að vera rétt að selja slíkar eignir þegar útlitið er gott og tekjur eru fram undan. Þá eru miklu meiri möguleikar á því að fá gott verð fyrir viðkomandi eignir. Ef það er hins vegar markmiðið að losa sig við eignirnar, koma þeim yfir á hendur annarra, þá skiptir það ekki meginmáli. Ef markmið er það sama og með Búnaðarbankann, að selja á hálfvirði, þá eru menn ekki að hugsa um slíkt. Ég tel það skyldu ríkisstjórnar á hverjum tíma að fá sannvirði fyrir eignir. Með því er verið að koma í veg fyrir að tap leggist á skattgreiðendur og verið að koma í veg fyrir að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana í ríkisfjármálum til þess að ráða við slíkt tap.
    Ég tel nauðsynlegt að hæstv. forsrh. upplýsi hvernig standi til að fjalla um þessi mál eftir að Framkvæmdasjóður Íslands hefur verið lagður niður. Verða þeir starfsmenn, sem voru viðriðnir þetta mál, endurráðnir hjá Lánasýslunni til að fjalla þar um það? (Gripið fram í.) Ég veit ekkert um það. Ég var að beina spurningu til hæstv. forsrh. Hvernig verður á því haldið? Er það hugmyndin að gera allt sem menn geta til þess að fá sem hæst verð fyrir eignirnar og hvernig verður að því staðið?
    Mér sýnist að margt mæli með því að það sé rétt að láta Framkvæmdasjóð fjalla um þetta mál áfram og setja honum þá einhverjar nýjar reglur eða nýtt eftirlit ef menn telja það ekki nægilega gott því ég hef meiri trú á því að með þeim hætti fáist hærra verð fyrir eignirnar og þar með verði tryggilegar gengið frá því að ríkið tapi sem minnstu.
    Að lokum vil ég rifja upp að þetta mál allt verður til þess að við munum héðan í frá ekki hika við að sækja það af fullri einurð að aðilar séu kallaðir fyrir nefndir og ef því er neitað munum við að sjálfsögðu halda áfram að biðja um það þar til mál hefur verið afgreitt. Ég tel að það hafi komið vel í ljós í þessu máli að það á ekki að gerast að frá slíku máli sé gengið án þess að viðkomandi aðilar fái tækifæri til að gera grein fyrir sínum viðhorfum. Það vill svo til í þessu máli að stjórn sjóðsins hefur ekki fengið það ráðrúm sem hún vildi hafa fengið til að gera grein fyrir málinu. Ég tel líka mikilvægt að fá upplýsingar um það, áður en þetta mál er afgreitt, hvernig eignamat sjóðsins sjálfs verður að loknum þessum föstudagsfundi. Jafnvel þótt vera kunni að það liggi ekki endanlega fyrir þá, þá er alveg ljóst að uppi er ágreiningur milli sjóðsins og Ríkisendurskoðunar um mat eignanna.

    Ég reikna með því, hæstv. forseti, í ljósi þess sem hér hefur komið fram að við munum breyta okkar afstöðu í þessu máli. Við höfum áður lýst því yfir að við munum sitja hjá við afgreiðslu málsins. Eftir það sem hér hefur komið fram, og ef á að knýja þetta mál fram nú á þessum degi eða næstu daga, býst ég við því að við munum endurskoða okkar afstöðu til málsins. En ég teldi langheppilegast að Alþingi fengi betra ráðrúm til þess að fjalla um málið.