Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 18:27:00 (3137)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Það er ekki ársskýrslan sem slík sem gerir það að verkum að þau ákvæði verða virk í lánasamningum að hægt er að gjaldfella lán, það er staða sjóðsins sem er orðin öfug. Hvenær sem við mundum birta þær skýrslur hefur það hina sömu virkni. Ég vek athygli á því að við erum að koma til móts við þetta vandamál, hv. þm., með því að ákveða þessa dagana heimild fyrir allt að 1.700 millj. kr. til fjmrh. til að bregðast við þessu dæmi. Það mun skapa mesta ró hjá lánveitendum. Það held ég að þingmaður sem er fyrrv. fjmrh. átti sig afskaplega vel á. Og ég vek athygli á því þegar þingmaðurinn nefnir að ekki hafi þegar verið gerðar ráðstafanir gagnvart lánveitendum að í því sambandi las ég upp nokkur lykilatriði, og af því að erlendir lánveitendur eru menn eins og við hin, hafa þau mesta þýðingu. Þau atriði segja að staða hinna erlendu lánveitenda verði betri eftir breytinguna en áður. Þess vegna getum við gefið okkur það með sæmilegri vissu að til viðbótar þeirri skýrslu sem ég las að þarna séu atriði sem menn þurfi ekki að óttast. En fyrst og fremst þá erum við ekki að bæta okkar stöðu í þessum efnum með því að draga að koma málinu í heillegan farveg. Ég held að þingmenn átti sig líka mjög vel á því.