Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 18:32:00 (3139)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Aðalástæða fyrir andsvari mínu er sú að í máli hæstv. forsrh. kom fram að ekkert hafi komið fram þegar efh.- og viðskn. fékk stjórn Framkvæmdasjóðs á sinn fund í morgun sem gerði það að verkum að við þyrftum að breyta framgangi þessa máls. Þetta er ekki rétt. Ýmislegt kom fram, ýmsar nýjar upplýsingar, m.a. þær sem okkur var ekki kunnugt um áður að það væri ekki að frumkvæði stjórnarinnar sem hún lagði til að þessi leið yrði farin heldur samkvæmt ósk, ef ekki fyrirskipun, frá hæstv. forsrh. um að Framkvæmdasjóðurinn yrði lagður niður eða sameinaður annarri starfsemi ríkisins. Ég vil einnig benda á að slæmt mat á stöðu sjóðsins er byggt á áliti Ríkisendurskoðunar sem er skilgetið afkvæmi fortíðarvandatalsins á sl. sumri. Ég er alveg sannfærður um að menn sáu ekki afleiðingar þess leiks fyrir þegar af stað var farið. Og ég vil benda hæstv. forsrh. á að hann sagði hér áðan að enginn gæti lagt endanlegt mat á þetta, þar yrði reynslan að skera úr. Ég bendi hæstv. forsrh. á að það mat sem lagt er þarna til grundvallar, mat Ríkisendurskoðunar, er að eignir í fiskeldi á Íslandi séu nánast einskis virði. Það er það mat sem mundi endurspeglast í reikningum stofnunarinnar og sýna þennan neikvæða höfuðstól. Ef það er einhver sem hefur komið okkur í þessa klemmu núna er það hæstv. forsrh. með fortíðarvandavinnunni í ár.