Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 18:34:00 (3140)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Það er ómögulegt að sitja undir því að sá sem hafi komið sjóði í vandamál sé sá sem upplýsi um stöðu hans. En það segir kannski heilmikið um viðhorf þess sem mælti að hann skuli líta þannig á. Ég hafði ekkert með það að gera að sjóðurinn var í þeirri stöðu sem hann er kominn í. Ég nefndi það sérstaklega, en þingmaðurinn hefur sennilega ekki heyrt það, að ekkert hefði komið fram í ræðu neins þingmanns sem hér hefur talað að stjórnarmenn hefðu varað við þeirri braut sem frv. gerir ráð fyrir. Þingmaðurinn kom ekki með eitt orð sem hróflaði við þeirri fullyrðingu minni. Þótt menn geti verið með vangaveltur í framhaldi af slíkum umræðum vikum og mánuðum saman er það ekki boðlegt að koma þessu máli ekki í farveg. Menn hafa gert samkomulag um meðferð málsins og það er fáránlegt að ætla að hlaupa frá því samkomulagi á jafnhæpnum forsendum og einstaka maður hér virðist hafa tilburði til að gera.