Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 18:36:00 (3142)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Hæstv. forsrh. flutti hér mjög prúðmannlega ræðu. En frásögn hans af þessum málum, þar sem hann sendi okkur framsóknarmönnum sérstaka kveðju í blöðunum í sumar, var ekki á sömu nótunum. Hann getur varla ætlast til að menn noti baunabyssur eftir að sú stórskotahríð var á okkur sett. Ég tel þau ummæli ekki prenthæf. Ég veit að hæstv. forsrh. man vel eftir þeim.
    Ef hæstv. fjmrh. ætlar að selja eitt hús í eigu íslenska ríkisins verður hann að fá heimild Alþingis til að gera það. Með þeirri afgreiðslu sem hér er verið að leggja til er verið að færa hæstv. fjmrh. söluheimildir á óhemjumiklum eignum. Og það sem verra er, það er búið að lýsa því yfir á Alþingi Íslendinga með afgreiðslunni að þessar eignir séu nánast einskis virði. Hafi nokkur fjrmh. getað ráðstafað gjöfum til gæðinga eftir afgreiðslu Alþingis Íslendinga þá er það sá hæstv. fjmrh. sem nú situr og er með uppáskrift Ríkisendurskoðunar um að hann sé ekki að gefa mönnum neitt þó hann ráðstafi uppbyggingunni í fiskeldinu til einstakra aðila. Ég tel þetta gjörsamlega siðlaust athæfi, hæstv. forsrh. Ég ber ekkert traust til hæstv. fjmrh. til að fara með það vald sem verið er að afhenda honum með þessu móti.