Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 19:17:00 (3146)


     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Mér er ekki ljóst hvað hæstv. menntmrh. gerir ráð fyrir að sitja lengi í þessum stól. Ég hélt að það væri með það eins og tímans óvissa skeið, ákaflega erfitt væri að sjá það fyrir. Og það ákvæði sem sett var inn og átti að þrýsta á að sveitarstjórnum væri ljóst að ekki væri til setunnar boðið að undirbúa skólamáltíðirnar er að fara út og því vænti ég að hæstv. ráðherra hafi gert sér grein fyrir. Ég fagna því að upplýst er að ekki komi til að keyra nemendur á milli hverfa í Reykjavík og hafi ráðherra komið þeim boðskap til þingsins áður án þess að ég hafi orðið þess var hef ég að sjálfsögðu þá skyldu að játa að ég hef þá ekki fylgst nægilega vel með. En ég vona einnig að alveg eins og sú umræða verði ráðherranum til góðs muni hann hugleiða þau mál hvort það sé víst að ráðgjafarnir hafi allir ráðið honum heilt sem stóðu að því að leggja það til sem nú er ákveðið að gera í grunnskólalögunum.