Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 19:21:00 (3149)

     Svavar Gestsson :
     Herra forseti. Ég ætla að víkja hér að nokkrum atriðum sem þegar hafa verið afgreidd í þessum bandormi og greinilega er ríkjandi um misskilningur m.a. hjá hæstv. menntmrh. Hann sagði síðast áðan í andsvari við ræðu hv. 2. þm. Vestf. að það eina sem

gerðist varðandi skólamáltíðir væri að þær færu út úr ákvæði til bráðabirgða. Þetta sagði hann líka í sjónvarpsþætti í gærkvöldi. Í ákvæði til bráðabirgða í lögunum segir: ,,Ákvæði 4. gr. um málsverði á skólatíma komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.`` --- En það var verið í dag, eða gær kannski frekar, að fella þetta ákvæði út úr lögunum því í brtt. meiri hlutans stendur að 3. mgr. 4. gr. komi ekki til framkvæmda á árinu 1992. Hún fer því út núna. Hvort tveggja er gert að þetta er tekið út úr bráðabirgðaákvæðinu og líka út úr greininni á árinu 1992.
    Ég skildi hæstv. ráðherra þannig í andsvarinu áðan við ræðu hv. 2. þm. Vestf. að hann hefði þann skilning á þessu að þetta félli ekki út. ( Menntmrh.: Þá hef ég ekki talað nægilega skýrt.) Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra að samkvæmt orðanna hljóðan í þessum texta þá vaknar greinin til lífsins um áramót, þ.e. frá 1. jan. 1993.
    En þá kem ég að öðrum þáttum í þessu ákvæði til bráðabirgða sem er alveg óhjákvæmilegt að tala út um úr því að við erum á annað borð að ræða þetta. Í ákvæði til bráðabirgða stendur: ,,Ákvæði 46. gr. um lágmarks vikulegan kennslutíma á hvern nemanda komi til framkvæmda á næstum þremur árum frá gildistöku laga þessara.``
    Í 46. gr., sem núna á að falla út samkvæmt tillögunum og samkvæmt því sem afgreitt hefur verið, stendur: ,,Vikulegur kennslutími á hvern nemanda í grunnskóla skal að lágmarki vera þessi:`` --- og síðan er það talið upp. Það er sem sagt ljóst að þetta ákvæði, ákvæði til bráðabirgða, samkvæmt skilningi menntmrh., lifnar við líka um áramótin vegna þess að hér stendur: ,,Eftirtalin ákvæði laganna skulu ekki koma til framkvæmda á árinu 1992.`` Þess vegna hlýtur ákvæði til bráðabirgða líka að lifna við um áramótin og spurningin er þá aðeins um það hvort telja beri þriggja ára aðlögunartíma frá þeim áramótum eða hvort þá beri að líta þannig á að liðinn sé árs aðlögunartími og eftir sé tveggja ára aðlögunartími. Það er algjörlega óhjákvæmilegt að skilja þetta svona, hæstv. ráðherra, sem þýðir aftur á móti að sú skerðing á kennslutíma sem á að taka gildi í grunnskólanum núna í haust er byggð á þessum lögum og hún getur ekki haldið áfram eftir áramót nema samþykkt verði ný lög í millitíðinni. Það er alveg augljóst mál að heimild til áframhaldandi skerðingar eftir áramótin 1992/1993 er ekki til nema samþykkt verði ný lög í millitíðinni.
    Eins er rétt að víkja að 3. málslið ákvæðis til bráðabirgða. Þar segir: ,,Ákvæði 35. gr. um námsráðgjafa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofu komi til framkvæmda á næstu fimm árum frá gildistöku laganna samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni.``
    Með öðrum orðum, þetta ákvæði er fellt út núna fyrir árið 1992 en það lifnar við 1. jan. 1993 og þá telur það frá og með gildistöku laganna, þ.e. 27. mars 1991. Það er alveg augljóst mál að þetta ákvæði hlýtur að lifna við á nýjan leik. Það er sem sagt verið að taka það úr sambandi fyrir árið 1992 en það lifnar við um áramót og frá sjónarmið ríkisfjármálanna er í raun óþarfi að fella þetta ákvæði úr gildi af því að málið er á valdi menntmrh. hvort eð er.
    Í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða segir: ,,Stefnt skal að því að ákvæði 3. gr. um einsetinn skóla komi að fullu til framkvæmda á næstu tíu árum frá gildistöku laganna samkvæmt áætlun sem unnin yrði í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga. Jafnframt verði á því árabili jafnt og þétt aukið við kennslutíma grunnskólanemenda þannig að við lok tímabilsins verði vikulegur stundafjöldi í samræmi við það sem segir í 46. gr., skóladagur samfelldur og nemendur eigi kost á skólamáltíðum.``
    Samkvæmt orðum hæstv. menntmrh. og því sem stendur hér í textanum þá lifnar þessi grein einnig við um næstu áramót. Það er því óhjákvæmilegt að reikna með því, nema lögum verði breytt á nýjan leik, að hér verði komið á einsetnum skóla, á tíu ára tímabili hið lengsta, frá og með gildistöku laganna sem er 27. mars 1991.
    Í 5. mgr. þessarar greinar segir síðan: ,,Ákvæði 4. gr. um málsverði á skólatíma komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.``
    Ég vil, virðulegi forseti, fá að ljúka þessu sem snýr sérstaklega að fyrstu greininni í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna þess að mér finnst að það gæti misskilnings og menn hafi ekki skilið til hlítar hvað hér er að gerast. Ég orða það þannig: Ákvæði til bráðabirgða fellur út á árinu 1992 og lifnar við um áramótin. Þá er liðinn tiltekinn hluti

af aðlögunartímanum og aðlögunartíminn, að frádregnum tímanum frá 27. mars 1991, fer að telja á nýjan leik nema Alþingi setji ný lög. Það er svo aftur allt annað mál. Sérstaklega á þetta þó við um skólamáltíðirnar vegna þess að það er í raun og veru eina ákvæðið sem er tekið út. Hin eru inni, fyrir utan bráðabirgðaákvæðin. Öll hin ákvæðin eru inni: Ákvæðin með kennslutímann, vikulegan kennslutíma, með hámarksfjölda nemenda í 4.--10. bekk o.s.frv., með námsráðgjafana og með einsetinn skóla. Öll þau ákvæði eru inni áfram en aðeins þetta ákvæði um málsverði á skólatíma er fellt út. Ég vil bara skjóta því að hæstv. menntmrh. af því að ég verð að gera hér hlé á ræðu minni smástund og spyrja hann hvernig á því stendur að þetta eina ákvæði um máltíðirnar er tekið út en hin eru öll inni. Ég held satt að segja að þetta hljóti að vera mistök. Ég sé engin efnisleg rök fyrir því að gera þetta svona, sérstaklega vegna þess að málsverðirnir tilheyra í raun og veru sveitarfélögunum.
    Ég ætlaði, virðulegi forseti, að fara nokkrum fleiri orðum um atriði sem snúa að menntmrn. og til að ljúka því --- ég ætla ekki að fara að lengja hér mál mitt verulega --- vil ég nefna annað atriði. Það snertir bráðabirgðaákvæðið um Kvikmyndasjóð þar sem gert er ráð fyrir því að 14 millj. verði teknar af honum í ár til þess að verja í hið norræna kvikmyndaverkefni. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort ekki er von til þess, jafnvel þó að þetta yrði samþykkt svona, að reynt verði að sækja á þótt síðar yrði á árinu með 14 millj. til viðbótar í Kvikmyndasjóð vegna þess einfaldlega að við sjáum á úthlutuninni úr Kvikmyndasjóði núna að hann hefur ekki fjármuni í dag nema til þess að veita fé í eina leikna mynd. Það er náttúrlega ekki nóg, við þurfum að setja okkur það mark að við séum með kvikmyndasjóð sem ræður við hátt í tvær leiknar myndir. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort öll nótt sé úti að hans mati varðandi þessar 14 millj. sem hér er um að ræða.
    Hæstv. forseti hafði nefnt það að e.t.v. yrði gert hlé á þessum ræðuhöldum í bili og ég geri það og tala þá lítillega eftir kvöldmatinn. --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Ég fór fyrir kvöldmatarhlé aðeins yfir skólamálaþáttinn í þessu frv. og beindi spurningum um viss atriði til hæstv. menntmrh. sem ég er nokkuð sannfærður um að misskilningur hefur verið um á milli ráðherra og margra þingmanna. Sömuleiðis ræddi ég aðeins um það sem lýtur að Kvikmyndasjóði og ætla að endurtaka það meðan ég hinkra eftir öðrum ráðherrum hér.
    Varðandi Kvikmyndasjóð þá er það þannig að seint á síðasta ári var ákveðið að Ísland tæki þátt í svokölluðu norrænu kvikmyndaverkefni. Ákveðið var að taka af Kvikmyndasjóði á síðasta ári einhverjar upphæðir til að standa undir því norræna kvikmyndaverkefni. Jafnframt var ákveðið að Ísland tæki þátt í því áfram sem þýðir þó nokkrar fjárskuldbindingar upp á nokkra tugi milljóna króna. Þetta er mjög mikilvægt verkefni bæði vegna þess að með því móti erum við að skapa okkur aðgang að mörg hundruð milljónum af norrænu kvikmyndafé og kannski ekki síst vegna þess að gert er ráð fyrir því að þetta samnorræna kvikmyndaverkefni gangi ekki aðeins út á það að framleiða myndir og styrkja framleiðslu á kvikmyndum, heldur gerir samnorræna kvikmyndaverkefnið, eins og það er lagt upp, líka ráð fyrir kynningarstarfi á kvikmyndum, auglýsingum á kvikmyndum og það er satt að segja mjög mikilvægt. Samkeppnin er mjög hörð á hinum alþjóðlega kvikmyndamarkaði og það er mjög dýrt að auglýsa kvikmyndir. Með því að taka þátt í verkefninu erum við að opna okkur aðgang að verulegu auglýsingafé sem lagt yrði inn í þennan heildarsjóð. Hér er því um býsna mikilvægt mál að ræða.
    Nú stóð þannig á snemma á þessu ári að vel gat farið svo að skipt yrði um ríkisstjórn einhvern tímann á árinu --- ég er að tala um árið 1991 --- þó maður hefði ekki endilega búist við því. Miðað við kosningaúrslit hefði auðvitað átt að vera hægt að halda fyrri stjórn áfram en svo varð nú ekki eins og kunnugt er. Til að ganga sem öruggast frá þessu máli beittum við okkur fyrir því að forustumenn allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa áttu á Alþingi skrifuðu undir fyrirheit þess efnis að tryggt yrði fjármagn umfram fjármagnið til Kvikmyndasjóðs í þetta sérstaka verkefni. Undir þetta skrifuðu forustumenn flokkanna, eins og ég sagði, forustumaður af hálfu Kvennalistans, formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþb., Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson og þáv. formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson. Hér var um að ræða mál sem ég taldi fyrir mitt leyti algjörlega tryggt og ég sendi sem menntmrh. stjórn verkefnisins upplýsingar um þessa niðurstöðu og stjórn verkefnisins tók hana góða og gilda og féllst á það fyrir sitt leyti að Ísland yrði út á þetta fyrirheit aðili að verkefninu þó að greiðsla kæmi líklega á þremur árum frá Íslandi í þetta samnorræna kvikmyndaverkefni.
    Ég taldi sem sagt að algjörlega væri tryggt að menn mundu standa við þessi fyrirheit. Síðan kom frv. til fjáraukalaga í haust þar sem þetta verkefni var tekið inn. Ég tók eftir því --- auðvitað hefði ég átt að gera það fyrr --- þegar fjárlög voru afgreidd fyrir árið 1991 að fjármuni mundi vanta í þetta sérstaka verkefni nema menn ætluðu að taka það af Kvikmyndasjóði. Kvikmyndasjóður er auðvitað mjög veikur til þess að taka á sig verkefni af þessu tagi. Sá grunur breyttist síðan í vissu þegar ég sá hér tillögu til breytinga á frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá meiri hluta efh.- og viðskn. þar sem gert var ráð fyrir því að 14 millj. kr. yrðu teknar af Kvikmyndasjóði á þessu ári í norræna kvikmyndaverkefnið. Mér skilst að úthlutunin úr Kvikmyndasjóði núna, sem var tilkynnt í síðustu viku, hafi verið miðuð við þetta, þannig að ekki var úthlutað nema 50 eða 55 millj. kr. sem er í rauntölum lægsta úthlutun Kvikmyndasjóðs frá upphafi. Af þessum ástæðum, virðulegi forseti, tók ég þetta mál upp. Ég hefði viljað inna hæstv. menntmrh. eftir því hvort öll nótt er úti með þetta mál, hvort ekki er hugsanlegt að fjármunir náist þó síðar verði á árinu 1992 í þetta norræna kvikmyndaverkefni. Hvað sem hæstv. fjmrh. gerir þá býst ég fastlega við því, og ég held allir þingmenn nema kannski hæstv. fjmrh., að flutt verði í haust frv. til fjáraukalaga og menn verði að horfast í augu við þann veruleika sem rekstrarniðurstöður ríkissjóðs leiða til á þessu ári. Ég er sannfærður um að sá halli, sem gert er ráð fyrir á fjárlögunum og miðað er við í þessu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verði því miður talsvert mikið meiri m.a. vegna þess að menn hafa ekki þorað að sækja peningana þar sem þeir eru til og líka vegna þess að sparnaðarráðstafanir í ríkisfyrirtækjum eru illa undirbúnar og sums staðar óframkvæmanlegar.
    Í framhaldi af þessum athugasemdum sem snerta hæstv. menntmrh. ætla ég aðeins að víkja að öðrum atriðum í þessu frv. Tvö þeirra snerta hæstv. heilbrrh. og varða annars vegar samráð um ákvörðun kostnaðargreiðslna til sjúkrahúsa og hins vegar skerðingu á ellilífeyri og hvernig ætlunin er að framkvæma það. Síðan hafði ég hugsað mér að ræða um tilsjónarmannakerfið. Ég veit að menn hafa talað mikið um það hér en ég hef ekki lagt orð í þann belg enn þá. Ég verð að segja alveg eins og er að margt skrýtið hefur maður séð frá þessari ríkisstjórn en ég botna ekkert í hvernig menn hugsa sér að þetta verði framkvæmt. Það er best ég víki að því meðan ég bíð eftir því að hæstv. heilbrrh. komi hér og í von um að hæstv. forsrh. sem er flutningsmaður málsins birtist hér fljótlega en ég sé að varaformaður efh.- og viðskn. þingsins sem ber auðvitað mikla ábyrgð á þessu máli heiðrar okkur með nærveru sinni og getur kannski lagt hér orð í belg.
    Hér er gert ráð fyrir því í þessari tillögu að heimilt verði ,,að setja mann eða nefnd manna, um tiltekinn tíma, til að vera tilsjónarmenn stofnana, einnar eða fleiri í senn, ef sýnt þykir að kostnaður við rekstur þeirra fari fram úr fjárveitingum sem fjárlög ákveða.`` Starfssvið tilsjónarmanna er í fyrsta lagi að skipuleggja fjárhagsáætlanir stofnana. Í öðru lagi að hafa eftirlit með reikningshaldi stofnana. Í þriðja lagi að taka ákvarðanir um fjárskuldbindingar stofnana, þar á meðal um starfsmannahald. Segja má að það sé fjórði þáttur, þ.e. tilsjónarmennirnir eiga bæði að taka ákvarðnir um fjárskuldbindingar í rekstri og líka um starfsmannahald stofnana, ,,eftir því sem nánar er lýst í erindisbréfi hverju sinni.``
    Ég skil hæstv. ríkisstjórn þannig að tilgangur með flutningi þessarar tillögu sé sá að reyna að tryggja að sparnaðurinn gangi eftir og eitthvert sæmilegt lag sé á fjárreiðum ríkisstofnana og það er út af fyrir sig gott. Ég hef heyrt hæstv. heilbrrh. vitna í fyrrv. menntmrh. í þessu sambandi, að hann hafi sýnt þarna sérstaklega gott fordæmi með því að skipa tilsjónarmann í einni stofnun hér sem heitir Þjóðleikhús. Ég ætla að víkja að því og ástæðan fyrir því að ég skipaði þann mann á sínum tíma var sú að fjárhagur stofnunarinnar var ekki í böndum og hafði ekki verið um langt skeið. Mig minnir að þegar ég kom

í ráðuneytið haustið 1988 hafi yfirdráttur Þjóðleikhússins á launareikningi ríkissjóðs verið um 300 millj. kr. Þetta gat náttúrlega ekki gengið. Niðurstaðan var sú að ég réð þarna sérstakan fjármálastjóra og skrifaði undir erindisbréf til hans sem þjóðleikhússtjóri skrifaði líka undir þannig að þjóðleikhússtjóri framseldi hluta af sínu valdi sjálfur til þessa manns. Síðan vann hann samkvæmt þessu. En þegar kom t.d. að því að segja upp fólki vegna lokunarinnar í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma voru þær ákvarðanir í fyrsta lagi teknar af þáverandi þjóðleikhússtjóra og síðan voru teknar ákvarðanir af verðandi þjóðleikhússtjóra.
    Í framhaldi af þessu og vegna góðrar reynslu af ráðningu þessa manns ákváðum við að kanna hvort hugsanlegt væri að prófa þetta víðar. Í minni tíð ræddum við um það að setja slíkan fjármálastjóra til þess að fara yfir fjárreiður tveggja ríkisstofnana. Ég kann ekki við að nefna þær hér en það voru stofnanir á verksviði menntmrn. og ég hygg að sé verið að skoða þær sérstaklega um þessar mundir. Þetta er út af fyrir sig algjörlega sjálfsagt mál og ég tek ekki undir gagnrýni á þessa hugsun. En hins vegar er hér í raun verið að setja í lög efni sem skerðir eða breytir verulega valdsviði þeirra manna sem ráðnir hafa verið til viðkomandi stofnana. Í raun og veru er verið að segja að þrátt fyrir skipunarbréf skólastjóra eða forstöðumanns sjúkrahúss ræður hann ekki ef ráðherranum þóknast að setja þarna inn tilsjónarmann. Ráðherrann þarf að hafa rök, hann getur náttúrlega ekki tekið sig upp svo að segja án atrennu til þess að skipa þennan mann, ráðherrann þarf að hafa rök. Hvaða rök hefur ráðherrann samkvæmt þessu? Jú, að stofnunin hafi farið fram úr fjárhagsáætlun, fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög ákveða, þ.e. þeirri fjárhagsáætlunin sem stofnunin starfar eftir. Segjum að greiðsluáætlun fjmrn. geri ráð fyrir því að þessi stofnun eyði 10 millj. á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Komi í ljós við yfirlitið í lok febrúar 1992 að stofnunin hafi kannski eytt 12 eða 13 millj. kr. er það út af fyrir sig nóg eftir þessum texta til að skipa tilsjónarmann. Hvað getur hann þá gert samkvæmt þessu? Hann getur í rauninni vikið forstöðumanninum til hliðar varðandi skipulag reikningshalds, eftirlit með reikningshaldi og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og hann getur tekið ákvarðanir um fjárskuldbindingar og um starfsmannahald. Hann getur ákveðið að segja upp mönnum í blóra við viðkomandi forstöðumann og hann getur ákveðið að ráða nýja menn í blóra við viðkomandi forstöðumann. Með öðrum orðum, það er í raun verið að taka af þessum forstöðumanni geysilega stóran þátt af hans valdsviði. Núna getur auðvitað hæstv. fjmrh. sagt: Þetta verður bara að vera svona, það verður að líta eftir þessum mönnum og passa að þeir eyði ekki of miklu. Það eru rök í sjálfu sér. En hin hliðin á þessum peningi er sú að þessir forstöðumenn, sem standa frammi fyrir svo að segja óleysanlegum verkefnum, að skera niður núna, verða, mér liggur við að segja guðs fegnir, að fá þessa menn og losa sig þannig undan þeirri ábyrgð sem þeir eiga að hafa. Við vitum auðvitað að forstöðumenn lítilla stofnana eru oft svo tengdir sínum samstarfsmönnum að afar erfitt er fyrir þá iðulega að taka á rekstrar- og sparnaðarráðstöfunum af ýmsu tagi. Þess vegna getur meira en verið að í rauninni sé með þessu ekki verið að auka ábyrgð og aðhald heldur verið að taka af mönnum þá ábyrgð sem þeir þurfa að hafa. Ég tel þess vegna, herra forseti, að orðalagið á greininni sé enn þá ekki nægilega gott. Ég held að í greininni hefði átt að taka fram með beinum ,,pósitífum`` hætti að þrátt fyrir þetta ákvæði haldi auðvitað skipunarbréf og lagaákvæði um viðkomandi stofnanir og forstöðumenn þeirra gildi sínu. Ef það gerist að viðkomandi forstöðumaður vill ekki starfa með ráðherranum að því að taka stofnunina fjárhagslega í gegn er auðvitað til sá flötur á málinu að ráðherrann segi forstöðumanninum upp. Ég held að þarna séu menn að búa til gildru sem muni koma ríkissjóði í koll og ekki verða til þess að styrkja hann fjárhagslega heldur þvert á móti.
    Ég nefndi það hér við nokkra stjórnarsinna í dag og þar á meðal ráðherra hvort þetta væri ekki ómögulegt eins og það er, aðallega af þessari ástæðu. Mér fannst að menn tækju vel í þessar röksemdir. Ég tek það fram, herra forseti, ég er ekki að spinna þetta út úr höfðinu á mér svo að segja, ég hef hitt forstöðumenn stofnana sem eru með gríðarlega miklar sparnaðarkvaðir á sér og þeir segja þetta beinlínis. Kannski er best að þeir komi hingað. Ég held að orðalagið á þessu sé enn þá vitlaust eða rangt og þess vegna væri skynsamlegra að laga það til þess að ríkið geti haldið þessum forstöðumönnum stofnana sinna við efnið hvað sem þessu líður.
    Ég sé að hæstv. fjmrh. er mættur og það er gott. Það er auðvitað hann sem á að passa þetta allt. Ég held satt að segja að hann græði voðalega lítið á því að hafa þetta svona. Það getur verið að hægt sé að laga orðalagið að einhverju leyti með skipunarbréfum. Auðvitað er hugsanlegt að laga þau með einhverjum hætti að þessum veruleika sem ég er hérna að reyna að tala um og að reyna að koma á samstarfi við forstöðumenn viðkomandi stofnana um hvernig þetta verður gert.
    Þessi lög sem hér er verið að breyta heyra undir hæstv. fjmrh. og ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig hann hefur hugsað sér að framkvæma þetta varðandi erindisbréfin til þess að halda forstöðumönnunum við efnið samkvæmt sínum skipunarbréfum og um leið til þess að ganga þannig frá hlutunum að það markmið náist að tryggja að stofnanirnar haldi sér innan ramma fjárlaganna.
    Þá ætlaði ég næst, virðulegi forseti, aðeins að víkja að örfáum tæknilegum atriðum sem snerta hæstv. heilbr.- og trrh. Það fyrsta er í sambandi við 13. gr. frv., um breytingu á 11. gr. laga um almannatryggingar sem við erum hér að fjalla um og varðar skerðinguna á ellilífeyrinum. Hvenær byrjar hún? Það er ekki hægt að byrja hana 1. febr. Það er alveg útilokað vegna þess að engin gögn eru til. Í textanum, eins og hann var í höndunum á meiri hlutanum, var gert ráð fyrir því að þetta byrjaði 1. febr. Forstöðumenn Tryggingastofnunar ríkisins sögðu að þetta gæti aldrei byrjað fyrr en 1. mars vegna þess að upplýsingar um tekjur liggja ekki fyrir. Ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. um þetta praktíska atriði: Hvernig á að koma þessari skerðingu við? Það er í raun ekki hægt, ekki boðlegt að miða þessa skerðingu við tekjur ársins 1990. Það verða að liggja fyrir tekjuupplýsingar fyrir árið 1991 og þær verða ekki tilbúnar fyrr en komið er fram í apríl eða svo á þessu ári. Ég man eftir, þegar við breyttum fyrir einu eða tveimur árum frítekjumarkinu gagnvart lífeyrissjóðatekjunum, þá urðum við að bíða til 1. júlí með að láta það taka gildi til þess að tekjuupplýsingar lægju fyrir og til þess að þetta nýja frítekjumark vegna lífeyrissjóðanna tæki gildi á sama tíma og hið almenna frítekjumark. Nú eru menn hins vegar að búa til nýtt frítekjumark fyrir tekjur ellilífeyrisþega, atvinnutekjur nota bene, sem eru á bilinu 66.000--114.000, ef ég man rétt. Þá hefði ég haldið að það væri gífurlega flókin vinna fyrir Tryggingastofnun ríkisins að gera þetta öðruvísi en í sama tímafletinum, þ.e. frá 1. júlí, þannig að málin væru skoðuð á sama hátt. Annað þýddi feiknalega handavinnu í Tryggingastofnuninni. Þá þyrfti að reikna út hvern einasta mann sem þarna er um að ræða af þeim 2.500 sem skertir verða. Þetta mál horfir öðruvísi við en með tekjutrygginguna vegna þess að þar eru menn að sækja viðbótartekjur, meiri tekjur. Þarna væru menn að sækja skerðingu, en það sækir enginn skerðingu. Þess vegna verður Tryggingastofnunin að afla sér upplýsinga um þetta í gegnum skattakerfið. Hún getur ekki ætlast til þess að menn komi og segi: Góðan dag, get ég fengið smá skerðingu á ellilífeyrinum mínum? Það er ekki þannig. Menn verða því að reikna út hvern einasta mann af þeim 2.500 manns sem þarna koma, en það verður örugglega að reikna út fleiri. Ég ímynda mér að það sé eitthvað talsvert mikið meira til þess að hafa þarna borð fyrir báru. Þá segi ég alveg eins og er, herra forseti, að engar upplýsingar hafa komið fram enn þá sem sannfæra mig um að þetta sé framkvæmanlegt svona. Ég legg því þessa fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra.
    Ég hef spurt að því áður en ekki fengið neitt svar að erlendis búa talsvert margir ellilífeyrisþegar, bæði í Evrópu og þó nokkur hópur í Bandaríkjunum. Og ég spyr: Við hvaða tekjur á að miða þegar ellilífeyrisþegar í útlöndum eru skertir? Þeir hafa engar tekjur á Íslandi. Á að biðja skattinn í Danmörku eða í Flórída eða Hollandi eða hvar það nú er, um upplýsingar um tekjur þessa fólks?
    Í þessu sambandi spyr ég: Hvernig rímar þetta við tvísköttunarsamninga sem við höfum gert? Því að þetta fólk og þessar tekjur hafa verið skattlagðar áður í staðgreiðslukerfinu. Hér er í raun um afturvirka skattlagningu á ellilífeyri að ræða. Þetta er afturvirk skattlagning vegna þess að ellilífeyrir er miðaður við tekjur aftur í tímann. Í raun er verið að taka mið af tekjum sem menn hafa unnið fyrir og borgað skatt af áður. Það kann að vera að menn finni einhverjar aðferðir til þess að handreikna út hvern einasta mann hér á landi með tölvunni sinni að því er varðar ellilífeyrinn en það er ofboðslega flókið þegar kemur að fólki sem er í útlöndum. Hvernig ætla menn að skerða ellilífeyri þess fólks sem er í útlöndum? Það er þó nokkur hópur af fólki, kannski um 200 manns, ég veit það ekki nákvæmlega. Hvernig í ósköpunum á að skerða þetta fólk? Ég hef engin svör fengið við því. Ég er ekki að biðja um það, en ég spyr hvernig á að fara að því vegna þess að menn hljóta að hafa velt þessu fyrir sér. ( Heilbrrh: Það er búið að leysa það allt saman.) Hæstv. heilbrrh. segist vera búinn að leysa það allt saman en ég get ekki sagt að það valdi mér óblandinni ánægju að honum takist að komast í gegnum þennan frumskóg vegna þess að ég held að það geti ekki verið og skynsamlegast fyrir hann að hætta við þetta sull.
    Áður en ég kem að lokaorðum mínum varðandi þennan bandorm ætla ég að spyrja hæstv. trmrh. um það hvernig hann ætlar að framkvæma samráð við viðkomandi stofnanir. Það er gert ráð fyrir því ( Heilbrrh.: Náið samráð.) að daggjaldanefnd verði lögð niður og í staðinn komi heilbr.- og trmrh. Í tillögum meiri hlutans, sem kom þarna innan úr ráðuneyti stóð upphaflega ,,samráð``. Ég held það hafi verið Sjálfstfl. sem fann út að vissara væri að láta standa ,,náið samráð``. Ég ætla að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. að því hvernig hann hugsar sér að iðka ,,náið samráð`` við spítalana, hvernig það verður praktíserað og, í alvöru talað, að spyrja hvernig ráðuneytið hugsar sér að láta framkvæma þetta. Ég ímynda mér að það geti gerst með ósköp svipuðum hætti og verið hefur, jafnvel þó daggjaldanefnd hafi verið til. En ég vil fara fram á að hæstv. ráðherra fari um þetta mál nokkrum orðum vegna þess að það hefur ekki enn þá verið gert. Það er eins með þessa tillögu og aðrar hér í öllu þessu tillögumoði að ráðherrar hafa aldrei talað fyrir fjöldanum öllum af þeim. Okkar ágæti varaformaður í efh.- og viðskn. hefur oft talað fyrir nál. en ráðherrarnir hafa aldrei talað fyrir málunum. Það er náttúrlega dálítið sérkennilegt löggjafarstarf og verður flókið fyrir dómarana þegar fram í sækir að fletta upp í þingtíðindum og spyrja hvað þetta og hitt þýði, þegar niðurstaðan verður sú að þeir finna í raun engan málflutning af því að ráðherrarnir hafa aldrei mætt í stólinn til að tala fyrir málunum og sumir ekki einu sinni til að svara.
    Herra forseti, nú bera hæstv. ráðherrar og ríkisstjórnin því við að þetta sé allt nauðsynlegt vegna þess að svo mikill samdráttur sé í þjóðarbúskapnum. Við höfum farið yfir það áður, hæstv. heilbrrh. sagði reyndar í sjónvarpinu í gærkvöldi að þjóðin væri að tapa 20.000 milljónum. Þá miðar hann við 6% samdrátt. Nú er verið að tala um að samdrátturinn sé nokkru minni. Menn eru að tala um að hann sé um 4%, t.d. sagði hæstv. fjmrh. það úr þessum stól fyrir einum sólarhring eða svo. 4% af 370 milljörðum eru í kringum 15 milljarðar. ( Fjmrh.: Ef þú mælir hann í landsframleiðslu þá er hann 4,1%.) Og ef hann er landsframleiðsla þá er hann 4,1%. Alla vega er alveg ljóst að þau tíðindi sem hafa verið að gerast síðustu dagana, bæði varðandi loðnu, rækju og lækkandi verð á olíu, þýða að samdrátturinn í þjóðarbúskapnum er miklu minni en menn töldu að hann yrði þegar þeir voru að skrifa saman þessa pappíra. Auk þess liggur það fyrir að hægt hefði verið að ná í peninga annars staðar ef menn hefðu viljað. Ég hef tekið eftir að stjórnarliðarnir, vinir mínir, hafa hrist hausinn yfir því. Þeir telja það nú ekki mikla speki, og ekki sé mikið til af seðlum annars staðar. Það er alveg sama hvort maður nefnir hátekjuskatt eða fjármagnstekjuskatt, þeir hrista alltaf hausinn. Þetta séu bara órar, ekkert sé að hafa. En svo er hinni upplýstu fjölmiðlaöld fyrir að þakka að í gærkvöldi og í dag höfum við fengið upplýsingar um að það séu til seðlar í landinu sem hefði verið hægt að nota í þetta. Sagt hefur verið frá því að verið sé að borga út hluthöfum í einu fyrirtæki hér 900 millj. kr. Og hvað eru 900 millj. kr.? T.d. er hæstv. heilbrrh. að knýja fram breytingar á almannatryggingalögum sem gera ráð fyrir sparnaði upp á 260 millj. kr. Og hæstv. menntmrh. býr við þau starfsskilyrði að þurfa að skera niður skólakerfið um mörg hundruð milljónir króna, sennilega 450 millj. kr. þegar allt er tekið saman. Hér er um að ræða útborgun til nokkurra hluthafa sem er tvöföld sú upphæð sem skera þarf niður í skólakerfinu öllu. Ég segi við þá ágætu menn sem sitja mér á hægri og vinstri hönd: Er nú ekki ástæða til að staldra

við þessi ósköp og reyna að ná í þessa peninga til þess að bjarga öldruðum, öryrkjum og börnum í skólum landsins undan þessum niðurskurðarhníf? Ég get nefnt sem dæmi að ríkisspítölunum einum er gert að spara 400--500 millj. kr. Menn eru að tala um að öll sjúkrahúsin í Reykjavík þurfi að spara 1.290 millj. kr. og til þess að ná því marki er bersýnilegt að loka verður heilu deildunum og álmunum í spítalakerfinu í höfuðborginni. Hefði ekki verið nær að ná í þessa seðla? Og hvaða peningar eru þetta? Skyldi það vera þannig að þetta lið hefði unnið fyrir þessum peningum í sveita síns andlits með margfaldri yfirvinnu, akkorði og guð veit hvað? Sólarhringum saman, lagt nótt við dag eins og sagt er um duglegt fólk. Ætli það sé þannig? Er þetta kannski taxtakaupið? Ónei. Það er nú ekki svo. Hér er um að ræða eftirgjald fyrir aðstöðu, einokunaraðstöðu, sem þessir menn hafa fengið til þess að vinna hjá Ameríkananum suður á velli. Þeir hafa fengið þessa aðstöðu að léni og meðgjöf með henni. Ekki er að undra þó að menn í bandaríska þinginu hafi á undanförnum áratugum oft verið að ræða um hvernig stendi á því að verktakastarfsemin á Ísland sé svo dýr. Þar hafa menn verið að reyna að skera niður og spara eins og hér og verið undrandi á því hvílík ósköp verktakastarfsemi kosti uppi á Íslandi. --- 900 millj. kr.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir tók þetta mál upp hér í dag vegna þess að það er í beinu samhengi við frv. sem verið er að ræða um, um niðurskurð á ríkisútgjöldum og sparnað. Hvað er hér að gerast? Hverjir eru hér á ferðinni? Hér er um að ræða fyrirtækið Sameinaðir verktakar með hlutafé upp á 310 millj. kr., hækkar það um 900 millj. og greiðir til eigenda 15% arð. Hér er um að ræða að eigendur fyrirtækisins fá skattfrjálst 946 millj. kr. í sinn hlut eftir skatta. Og af þessum hópi sem þarna kemur við sögu eru 107 hluthafar sem fá 1 millj. eða meira skattfrjálst í vasann. Nú er ekki eins og þessir aðilar séu á horleggjunum. Það er nú eitthvað annað. Þeir hafa átt fyrir eitt og annað í sparisjóðsbókum hér og þar er ég hræddur um. Ekki er þetta framfærsluþörf sem þarna er verið að mæta af blásnauðum almenningi þessa lands eða einhverjum hallærisfyrirtækjum sem alltaf er verið að tala illa um af hæstv. núv. ríkisstjórn. Það er nú eitthvað annað.     Reginn hf. er eitthvert fyrirtæki í bænum sem einhverjir í salnum þekkja betur en ég. Það er með 72 millj. kr. út úr þessu krafsi. Fyrirtækið Sameinaðir verktakar er með 71 millj. Eitthvert fyrirtæki sem heitir Félag vatnsvirkja --- ég veit ekki alveg hvaða vatn það fyrirtæki virkjar --- fær 66 millj. skattfrjálst. Fyrirtæki sem heitir Brú hf. fær 43 millj. upp úr þessu krafsi. ( Gripið fram í: Gjaldþrota fyrir 25 árum.) Gjaldþrota fyrir mörgum árum er sagt í salnum. A.m.k. er ljóst að þetta fyrirtæki er ekki í símaskrá. ( Gripið fram í: Það er ekki brú í þessu.) Það er ekki heil brú í þessu, hv. þm., það er rétt. Síðan kemur fyrirtæki sem heitir Stoð hf. og þarf greinilega alveg sérstakan stuðning. Eftir því sem ég kemst næst í heimildarriti mínu, símaskránni, er hér um að ræða endurskoðunarfyrirtæki. Það fær út úr þessu krafsi 43 millj. kr. ( Gripið fram í: Hver er eigandinn?) Það kemur ekki fram þar. Hins vegar eru nefndir fimm löggiltir endurskoðendur. Þá kemur fyrirtæki sem heitir Goði hf. Hverjir eru aðallega með það? Goði hf.? Hvað framleiða þeir aðallega? Pylsur? Bjúgu? Álegg? Goði hf. þurfti sérstakan styrk út á varnir landsins gegn hinni voðalegu ógn í austri. Hvað fær Goði hf.? Goði fær skattfrjálst 43 millj. kr. Hérna er svo fyrirtæki sem einhverjir þingmenn geta kannski sagt mér eitthvað um síðar í kvöld, það heitir Rafvirkjadeildin sf., Höfðabakka 9. Það mun vera hús sem hæstv. menntmrh. hefur m.a. á leigu fyrir Tækniskólann. Rafvirkjadeildin sf., Höfðabakka 9, fær 35 millj. kr. Svo kemur fyrirtæki sem er dálítið frægt, aðeins frægara en þau sem eru ekki einu sinni í símaskrá eða þau sem eru gjaldþrota eða framleiða pylsurnar. Það er fyrirtækið Byggingamiðstöðin sf. Þar er aðalleiðtogi stjórnarformaður Íslands, sem svo hefur verið nefndur, Halldór H. Jónsson. Þar eru litlar 28 millj. Segja má að hann muni minnst um þessa peninga af öllu því liði sem hér er talið upp vegna þess að hann á svo mikið fyrir. Síðan er hér fyrirtæki sem hæstv. fjmrh. ætlar líka að láta hafa peninga og líða þetta. Eða hvað? Það er fyrirtæki sem heitir Iðnsamtök hf. Ég verð að játa, virðulegi forseti, að mér gafst ekki kostur á því núna frá því að fréttirnar voru á Stöð 2 og þar til að fundur byrjaði að fara yfir lista yfir gjaldþrota fyrirtæki undanfarinna fimm eða tíu ára né lista yfir þau fyrirtæki sem lögð hafa verið niður. En allt í einu kemur hér fyrirtæki sem heitir Iðnsamtök hf. og

fær pening upp á 28,4 millj. Svo kemur hér fyrirtæki sem ber sannarlega nafn með rentu. Það heitir Gulltoppur sf. Ekki veit ég hvort það framleiðir bjúgu, pylsur eða hvað. Gulltoppur sf. fær 27 millj. kr. upp úr þessu krafsi. Kannski þeir framleiði gull. ( Gripið fram í: Þeir mala gull.) A.m.k. mala þeir gull. Síðan koma við sögu einstaklingar, Þorkell Ingibergsson 21 millj. kr., Ingólfur Finnbogason 20 millj. kr., Kristín Guðmundsdóttir 18 millj. kr., Jón G. Halldórsson 16 millj. kr. --- gæti verið skyldur einhverjum öðrum sem áður hefur komið við sögu hér --- Vélsmiðjan Héðinn hf. 14 millj. kr., Stálhamar sf. 12,3 millj. kr., Skipasmíðastöðin Dröfn 11,4 millj. kr., Katrín Magnúsdóttir 11,4 millj. kr., Jónína Þórðardóttir 11,4 millj. kr., Verktakafyrirtækið Málarameistarar 10,4 millj. kr., Anton Sigurðsson 10 millj. kr., Katrín Vigfússon 10 millj. kr., Sigurbergur Árnason 9 millj. kr., Snorri Tómasson 8 millj. kr., Sveinbjörn Sigurðsson 8 millj. kr., og Thor Ó. Thors rekur svo lestina með 8,5 millj. kr. Samtals er um 107 aðila að ræða sem hafa fengið 1 millj. eða meira upp úr þessum skiptum þar sem 946 millj. kr. er úthlutað skattfrjálst. Það er tvöföld sú upphæð sem hæstv. menntmrh. ætlar að skera niður af skólum landsins. Ég er hræddur um að það geti munað um þetta í húsnæðiskerfinu eða í Framkvæmdasjóði fatlaðra. Ég er hræddur um að það yrði upplit á vinkonu minni, hæstv. félmrh., þó hún fengi ekki nema part af þessu. Ég er hræddur um að menn hefðu t.d. getað sloppið við að skera niður skólann í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp ef þeir hefðu fengið eins og einn af þessum einstaklingum fékk sem hér eru nefndir. En þar er verið að spara 8--10 millj. kr. Ég er ansi hræddur um að þær upphæðir sem hér er um að ræða hefðu getað breytt ýmsu.
    Hæstv. forsrh. hefur verið að setja á langar ræður um að fyrrv. ríkisstjórn hafi staðið þannig að málum að hún hafi farið heldur illa með almannafé og fjárfest hafi verið í alls konar vitleysu út og suður. Við höfum auðvitað mótmælt því vegna þess að við teljum að hér sé ekki rétt með farið af hendi hæstv. forsrh. Hins vegar er honum að sjálfsögðu skylt að líta yfir landið allt og sviðið og skoða bæði fortíð og nútíð og þá sérstaklega framtíðina ef hann skyldi einhvern tímann komast frá fortíðinni.
    En hefur hann nokkurn tímann rætt um þessa sóun á forréttindastéttirnar í þjóðfélaginu þar sem verið er að kasta til þeirra hundruðum milljóna kr.? Í framhaldi af þessu held ég að óhjákvæmilegt sé að Alþingi taki þetta sérstaka mál fyrir. Ég hefði talið að strax í kvöld ætti að semja brtt. við skattalögin sem gerir það ófært og ókleift að taka fjármuni með þessum hætti. Í öðru lagi ætti auðvitað að standa þannig að málum að allir þessir peningar rynnu í ríkissjóð. Af hverju? Vegna þess að hér er um að ræða tekjur af aðstöðu sem þjóðin lét Ameríkönunum í té með samþykkt meiri hluta Alþingis á sínum tíma. Þess vegna væri auðvitað vel hugsanlegt að taka þetta fé eignarnámi eins og að þessu er staðið af því að þjóðin á það og vissulega eru þarfirnar miklar hjá ríkissjóði. Hins vegar er ljóst að fáist ríkisstjórnin ekki til þess að taka á þessu máli strax í dag eða í kvöld, þá hljótum við að standa þannig að málum hér, stjórnarandstæðingar, a.m.k. mun ég beita mér fyrir því í mínum flokki hvað sem aðrir gera, að efnt verði til sérstakrar rannsóknar á þessari fjármunamyndun, á þessari auðsöfnun, sem nú er verið að dreifa til þessara aðila upp á 950 millj. kr. án skatta. Flutt hefur verið tillaga um rannsóknarnefnd samkvæmt stjórnarskránni af minna tilefni. Það er algerlega nauðsynlegt að rekja það þó að það sé langt aftur í tímann hvernig stendur á því að þessir peningar eru þarna komnir með þessum hætti um leið og gerðar verða ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir það að svona hneyksli endurtaki sig.
    Ég vil spyrja í fyrsta lagi hæstv. fjmrh.: Til hvaða aðgerða hyggst hann grípa? Ég vil í öðru lagi spyrja hæstv. ráðherra Alþfl.: Hvað vilja þeir sem alþýðuflokksmenn gera í þessu máli burt séð frá því hvað kann að hafa verið rætt í ríkisstjórninni áður um mál af þessu tagi? Ég geri ekki ráð fyrir því að menn hafi rætt sérstaklega svona mál en þó hljóta þeir alþýðuflokksmenn að geta brugðist við þessu eins og aðrir stjórnmálamenn. Ég hlýt þess vegna að spyrja þá hæstv. ráðherra Alþfl. sem hér kunna að tala og kannski ekki síst hæstv. heilbr.- og trmrh. sem stendur í því að skera niður velferðarkerfið með þeim hætti sem við höfum hér rætt: Hvað ætlar hann að gera sem alþýðuflokksmaður og heilbrrh. og verndari velferðarkerfisins, eins og hann segist vera sjálfur, til að koma í veg

fyrir að svona hlutir gangi áfram í íslensku þjóðfélagi? Þetta er algerlega ólíðandi. Þessi tíðindi sem hér hafa birst eru móðgun við þjóðina og þingið.
    Ég hef, virðulegi forseti, farið yfir nokkur atriði. Í fyrsta lagi yfir tæknileg atriði varðandi menntmrn. og heilbrrn. Í öðru lagi hef ég sérstaklega spurt um tilsjónarmennina. Ég hef spurt hæstv. ráðherra um tilsjónarmennina. Ég hef sömuleiðis spurt hæstv. fjmrh. um hvað hann hyggst gera í þessu 900 millj. kr. máli og ég hef beint þeirri sérstöku fyrirspurn til ráðherra Alþfl., heilbrrh. eða félmrh., kannski ekki síst heilbrrh.: Hvað vill Alþfl. gera í máli af þessu tagi? Þetta er óþolandi, virðulegi forseti.