Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:21:00 (3153)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. er nú svo tröllaukinn útúrsnúningameistari að það þarf aðeins lengri tíma en eina og hálfa mínútu til að svara því sem hann segir. Af hverju var verðbreytingafærslan sett í skattalög? Jú, hún var sett í skattalög af því að búið var að taka upp verðtryggingu. Hverjir börðust harðast fyrir verðtryggingu hér á landi? Það var Alþfl. En hvernig stendur á því að þeir alþýðuflokksmenn vilja ekki samþykkja að strax verði sett rannsóknarnefnd í þetta mál? Hvað hafa þeir að fela? Í rauninni stendur málið beinlínis þannig pólitískt að Sjálfstfl. getur látið úthluta þessum peningum til gæðinga sinna upp á 900--1.000 millj. kr. í skjóli Alþfl. Það er Alþfl. sem veitir Sjálfstfl. skjól til þess að þola þessi ósköp sem þarna er um að ræða. Þetta er auðvitað grundvallaratriði þó að ég vilji um leið leggja á það áherslu að hér er um svo stóran hlut að ræða að þingmenn og ráðherrar þurfa að hafa manndóm í sér til þess að taka á málinu almennt og af fullri alvöru svo að vinnubrögð af þessu tagi endurtaki sig ekki því að þau eru gersamlega óþolandi.