Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 21:59:00 (3166)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að þegar ég gerði mér grein fyrir því að núv. hæstv. fjmrh. hafði tekist að mynda meiri hluta með nokkrum framsóknarmönnum hér í Alþingi reyndi ég að koma í nokkru vitinu fyrir þann meiri hluta. Ég varaði hann m.a. við að það væri allt of langt gengið í því að veita skattafslátt vegna hlutabréfakaupa. Engu að síður vildu menn ekki hlusta á þau viðvörunarorð mín í upphafi, en þeir gerðu það á næsta þingi og ég þakka fyrir þá samvinnu. Ég tek eftir því að nú síðustu daga er meira að segja hæstv. núv. fjmrh. farinn að gagnrýna það að menn séu aðallega að kaupa hlutabréfin út á skattafsláttinn. Hann hefði betur hlustað á mig í upphafi fyrir tveimur árum þegar ég var að reyna að koma í veg fyrir þennan tímabundna meiri hluta hluta Framsfl. og Sjálfstfl. á Alþingi á síðasta kjörtímabili.
    Grundvallarspurningin er þessi: Er forusta Sjálfstfl. reiðubúin í fyrsta sinn að ganga gegn fjárhagshagsmunum fjölskyldnanna fjórtán, kolkrabbans, þar sem Sameinaðir verktakar hafa verið hornsteinn um mjög langan tíma og ágætlega er lýst í bók sem sést hefur í þingsölum í rúman mánuð og er það ritverk sem flestir þingmenn hafa verið að lesa í þingsölum, Á slóð kolkrabbans, síðan hún kom út. Er núv. forusta Sjálfstfl. reiðubúin í fyrsta sinn í sögu flokksins að ganga gegn hagsmunum þessa batterís? Það er grundvallarspurningin. Svo geta menn leitað lagaleiða til þess, hæstv. fjmrh., í sameiningu og ég er alveg reiðubúinn til samvinnu við hæstv. fjmrh. til þess ef hann vill vera fyrsti forustumaðurinn í sögu Sjálfstfl. sem vill ganga gegn hagsmunum þessa anga kolkrabbans.