Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 22:20:00 (3170)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Svar hæstv. fjmrh. svaraði örlitlu af því sem ég spurði um. Mér var ekki ljóst og er ekki ljóst enn hvað verður um stjórn stofnunarinnar. Ég hélt einnig að forstöðumenn stofnana hefðu embættisbréf, þeir hefðu ákveðnar skyldur og hefðu ákveðin völd og ábyrgð. Þarf þá ekki jafnframt að skerða þeirra völd? Ég átta mig ekki á því hvernig þetta kemur inn í réttindi og skyldur starfsmanna. Og mér finnst ekki nægjanlega skýrt af þeim svörum sem ég hef fengið og þessu ákvæði í frv. hvernig á að fara með þá sem fyrir eru. Þá er ég aðallega að velta fyrir mér að mér finnst völd þeirra vera svo skert. Hvaða ábyrgð eiga þeir að hafa? Ja, það á e.t.v. að segja upp ákveðnum mönnum, væntanlega er það það sem á að gera ef farið hefur verið fram úr fjárlögum, en það eina sem eftir er hjá forstöðumönnum er að segja hvort það er Jón eða Pétur sem á að fara en ekki hversu margir eiga að fara eða taka þátt í fjármálalegri endurskipulagningu fyrirtækisins eða stofnunarinnar ef um það er að ræða.