Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 22:23:00 (3172)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég get ekki skilið annað á svörum hæstv. fjmrh. en að þetta ákvæði heimili þá jafnframt viðkomandi ráðherra að gefa út erindisbréf líka til stjórna og

forstöðumanna sem skerði þeirra valdsvið jafnframt því sem erindisbréf tilsjónarmannsins gefur honum ákveðið vald. ( Fjmrh.: Ef þeir sækja vald sitt og ábyrgð til ráðherra.) Ef þeir sækja vald sitt og ábyrgð til ráðherrans, segir hæstv. ráðherra. Ef ég veit rétt eru stjórnir ríkisstofnana kjörnar á Alþingi ( Fjmrh.: Ekki allar.) Ekki allar að vísu, nei, en mjög margar. Í því tilviki væri það alla vega ekki hægt.
    Ég held að það sé greinilegt af því sem hér hefur komið fram að þetta er mjög óljóst ákvæði, enda hefur því verið breytt núna í meðförum þingsins og kannski til nokkurra bóta. En mér sýnist að það hefði þurft að nota heldur meiri tíma til að fara ofan í þetta mál og gera þetta ákvæði með þeim hætti að það væri sæmilega skiljanlegt fyrir þá sem eftir þessu eiga að fara.