Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 22:25:00 (3173)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
     Virðulegi forseti. Hér er kominn til 3. umr. bandormurinn. Það hefur tognað meira úr þessum bandormi en í upphafi var ætlað vegna þess að hæstv. ríkisstjórn var alls ekki tilbúin með málið þegar það var lagt fyrir í fyrra.
    Einhvern tímann í upphafi umræðnanna um ráðstafanir í ríkisfjármálum sagði hæstv. forsrh. að ríkisstjórnin mundi halda ró sinni og rasa ekki um ráð fram. Að sumu leyti hefur hæstv. ríkisstjórn haldið ró sinni. En það hefur verið í lífshagsmunamálum þjóðarinnar og siglt því hraðbyri sofandi að feigðarósi. Það gera þeir í málefnum atvinnulífsins almennt og nýjasta dæmið er vegna síldarsamninganna við Rússa. Þar gerði ríkisstjórnin hreint ekki neitt og beið eftir því að síldin yrði ekki saltanleg lengur. Hún er orðin allt of horuð til að það sé hægt að salta hana. Þá rumskuðu þeir aðeins en það var of seint.
    Það er dálítið merkilegt sem hæstv. iðnrh. og viðskrh. sagði hér. Honum fannst ekki að ríkisstjórnin þyrfti að hafa neinar sérstakar áhyggjur af þessu máli vegna þess að þetta væri fyrst og fremst málefni Landsbankans. Landsbankastjórinn væri nú svo vel launaður að ríkisstjórnin þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af þessu.
    Þetta er almennt um það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið ró sinni. Á meðan hún heldur ró sinni í lífsafkomumálum þjóðarinnar rasar hún um ráð fram annars staðar. Það sjáum við í ráðstöfunum í ríkisfjármálum og hún fer oft offari þar. Enda hefur hæstv. heilbrrh. viðurkennt að um mikla handabakavinnu sé að ræða. Það er út af fyrir sig viðurkenning á því sem við höfum verið að segja hér.
    Ríkisstjórnin telur sig vera að spara í ríkisrekstri almennt og vera með einhverjar sérstakar sparnaðaraðgerðir í gangi. Það er mikil hugsunarvilla því það er eitt að spara og annað að láta aðra borga brúsann. En í þessu frv. felast fyrst og fremst aðgerðir þar sem er verið að svipta menn lögboðnum rétti annars vegar og láta síðan sveitarfélögin borga hins vegar. Allar þessar kostnaðarbreytingar koma hart niður víða eins og margsinnis hefur komið fram í umræðum hér á undan.
    Síðan á að selja nokkur mjög vel rekin fyrirtæki og ég minni á Búnaðarbankann í því sambandi og Sementsverksmiðju ríkisins svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru svokallaðar sparnaðaraðgerðir í hnotskurn.
    Það er ekkert óeðlilegt að endurskoða alla kostnaðarþætti ríkissjóðs og leita leiða til sparnaðar, en það verður að gerast í samvinnu og samstarfi við þá sem hlut eiga að máli en ekki blása svo í stríðslúðra sem hér hefur verið gert.
    Sjáum t.d. hvernig hefur verið farið með sjómenn. Hvernig hefur verið tekið á þeim? Alveg frá a til ö. Það eru barnabæturnar, það er ellilífeyririnn og það er skattafslátturinn. Á öllu þessu er tekið fyrir utan það að náttúruöflin höfðu fyrst minnkað aflann. Það er ansi hart vegið að sjómönnum þessa lands.
    Það er ýmislegt haft til afsökunar þegar verið er að skerða þannig lögboðinn rétt sjómanna. M.a. að þeir hafi svindlað svo á þessum afslætti að það varð að taka á þessu. Ef það er, sem ég ætla ekkert að rengja, það kann vel að vera að það hafi verið svindlað á þessum afslætti, þá á auðvitað að taka á því á réttum stöðum og það eru skattstofur landsins sem sjá um það.
    En ég er að hugsa um það núna, þegar ég horfi á hæstv. heilbrrh., þegar hann fer

vestur og ætlar að hylla hetjur hafsins á næst á sjómannadegi, hvað hann muni segja. Það verður fróðlegt. Ég er að hugsa um að semja fyrir hann ræðu eða ímynda mér hvað hann gæti sagt. Það verður eitthvað á þessa leið: Kæru vinir. Þið hafið nú um áraraðir fengið allt of mikið úr sameiginlegum sjóðum þjóðfélagsins. Það er löngu tímabært að taka hressilega á ykkur og við gerðum það og við þorðum það. Svo segir hann sennilega gleðilega hátíð ef þetta verður á sjómannadaginn.
    En það verður lengi í minnum haft þegar hæstv. utanrrh. blæddi á alla línuna vegabréfi inn í 21. öldina. Það vegabréf var kannski ekki beint falsað, en það var ógilt og þar af leiðandi ónothæft.
    Nú hefur skólafólk hér í landi fengið vegabréf, splunkunýtt vegabréf inn í framtíðina. Það er vegabréf sem dregur verulega úr þeim möguleikum sem hingað til hefur verið stefnt að. Einhvers staðar stendur að framtíðin sé þeirrar þjóðar sem bestu skólana á. Við vitum nákvæmlega hvað skeður ef bóndi dregur verulega úr áburðargjöf á tún. Það dregur bara úr sprettu. Unga fólkið í landinu er hagvaxtarvon okkar. Því er kvíðvænlegt að draga svo úr fjármagni til grunnskólanna eins og raun ber vitni.
    Mér finnst, eins og fleirum hér, að það skorti mikið á að hæstv. ríkisstjórn hafi framtíðarsýn. Hún hefur mikla víðsýni inn í fortíðina. Þetta eru eiginlega fornleifafræðingar að mestum hluta til og vita nákvæmlega hvað er hverjum að kenna og hver hefur sagt og gert hvað tugi ára aftur í tímann. Þetta er út af fyrir sig afskaplega góð kunnátta. En ég hjó eftir því um daginn í sjónvarpsviðtali við hæstv. forsrh. þegar var verið að ræða við hann um Perluna og þau fjárhagsglöp sem þar fóru fram að þá sagði hæstv. forsrh. eitthvað á þá leið: Mér finnst að þessi umræða hljóti að vera komin fram úr áætlun. Nú langar mig að spyrja hæstv. forsrh., ef hann er einhvers staðar nálægt --- hann er kannski að tefla --- hvenær við megum eiga von á því að fortíðarvandi hans á þessu þingi sé kominn á áætlun og hvenær við megum búast við því að hann fari að hugsa til framtíðar og að öllum þeim möguleikum sem við eigum hér. En hann er kannski einhvers staðar, hæstv. forsrh., að kafa í einhverjum fornleifagögnum og heyrir ekki mál mitt og það þykir mér svolítil synd því ég er búin að bíða eftir að komast að held ég síðan 18. des. þegar þessi bandormur var til umræðu.
    En bragð er að þá barnið finnur og ég var hissa þegar ég sá í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag að þá skrifar greinarhöfundur: Hvað gerir núverandi ríkisstjórn rangt? --- Og svarar sjálfum sér: Hún talar of lítið við þjóðina. Hún á til að gleyma hvaðan umboð hennar er komið. Og það held ég að sé nokkuð sem þessi hæstv. ríkisstjórn þarf að fara að athuga, hvaðan umboð hennar er komið.
    En ég ætla að hrósa ríkisstjórninni líka vegna þess að ríkisstjórnin hæstv. hefur oft tekið mark á okkur í stjórnarandstöðunni og ég ætla að hrósa félmrh. sérstaklega fyrir það að hún skyldi ekki fara þá leið, sem tillögur voru uppi um um tíma, að setja málefni fatlaðra yfir á sveitarfélögin algjörlega óundirbúið eins og var í umræðunni. En í staðinn kom lögguskatturinn margumtalaði. Mér dettur í hug í því sambandi, þegar verið var að tala um lögguskattinn, að það var gamall maður sem sagði við mig um daginn: Er þessi lögguskattur til að borga tilsjónarmennina? Hann tók það nefnilega þannig, þessi gamli maður, að einhvern veginn þyrfti að borga þessar nýju löggur, þessa tilsjónarmenn, og hélt að sveitarfélögin ættu að borga það. ( Gripið fram í: Svo eru sums staðar engar löggur.) Svo kem ég að því. En þessi svokallaði lögguskattur er svo mikil svívirða og hann er svo mikið út í hött og svo langt frá því sem um hefur verið samið því það fer alls ekki saman þarna fjárhagsleg og stjórnunarleg ábyrgð sem hingað til hefur verið talið alveg nauðsynlegt. En mig langar til þess að spyrja félmrh., þar sem þetta verður trúlega að lögum og það væri gaman að vita það fyrir sveitarstjórnarmenn almennt, hvort sveitarstjórnarmenn hafi eitthvað meira um lögregluna að segja hér eftir. Geta t.d. sveitarstjórnir ráðið meiru um framkvæmdamál lögreglunnar og geta þær fengið lögregluna á dauðum tíma til að vinna ýmis verkefni fyrir sveitarfélögin sem sveitarfélögin eru núna farin að borga fyrir? Það væri gaman að vita það. Mér dettur t.d. í hug núna að það væri mikill snjór og kannski lítið að gera hjá lögreglunni einhvers staðar í einhverju krummaskuði og hvort það væri hægt

að fá að nýta hana til að moka snjó.
    En það var sl. mánudag sem hæstv. fjmrh. --- ég gaf honum sérstakt leyfi til að fara í kaffi vegna þess að ég get bara hvíslað þessu að honum á eftir --- talaði um að í ráðstöfunum um ríkisfjármál væri ekki þrengt svo að að það þyrfti ekki að taka lán hjá ríkissjóði, ég læt það nú vera, og hann sagði að það væri verið að sníða sér stakk eftir vexti. En ég held að þessi stakkur sé afar illa skorinn og ég held að stakkurinn sé allt of þröngur í hálsinn. Ég held það séu víðar á honum skálmarnar en hann sé allt of þröngur í hálsinn sem sést best á því að það er verið að þrengja að þeim sem síst skyldi á meðan lekur niður úr skálmunum þar sem fjármagnið er. Ég held að það þurfi að taka þennan stakk og hanna hann upp á nýtt.
    En ég hefði sennilega hætt við að tala í kvöld ef hæstv. 1. þm. Vesturl., sem er ekki lengur í forsetastóli en er kannski einhvers staðar hér . . .   ( Gripið fram í: Hann er háttvirtur.) Hann var í forsetastóli og var á meðan hæstv. en er nú hv. 1. þm. Vesturl. Hann er gamall sveitarstjórnarmaður til næstum 20 ára og ég er búin að starfa mikið með þessum ágæta 1. þm., virðulegum, Vesturl. Hann hefur sem sveitarstjórnarmaður barist fyrir sveitarfélögin í landinu. Hann hefur talað af svo miklum kyngikrafti að ég hef hrifist og ég hef tárast og ég hef snýtt mér vegna þess að hann hafði svo mikinn skilning á málefnum sveitarfélaga. Svo kemur hann í ræðustól á mánudaginn --- og hvað segir maðurinn? Það er búið að snúa honum algjörlega við. Hann var bara í ranghverfu sinni því hann sagði að honum fyndist tími til kominn, kannski orðaði hann það ekki alveg svona, en honum fannst samt réttlætanlegt og færði rök fyrir máli sínu að hann hefði heyrt það eftir fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í haust að sveitarfélögin væru prýðilega vel stödd. Ég taldi hv. þm. vita betur. Þó svo að sveitarfélögin væru ekki alveg á horriminni tel ég að þau geti ekki tekið á sig þá byrði sem nú er verið að leggja á þau og ég er viss um að hv. þm. er sammála mér innst í hjarta sínu.
    En hann fann önnur rök líka fyrir því að leggja þennan skatt á sveitarfélögin. Það voru þau rök að ekki væri dregið neitt úr hafnaframkvæmdum á þessu ári. Ég mundi gjarnan vilja, ef hv. þm. væri í salnum, spyrja hann að því . . .  Virðulegi forseti, er hann er í salnum? ( Forseti: Það er verið að ná í hv. þm.) Takk fyrir, ég mun þá bíða. ( ÓÞÞ: Er Sturla með fjarvistarleyfi?) Forseti, er hann í húsinu? ( Forseti: Samkvæmt viðveruskránni er hann í húsinu.) Þarna gengur hv. 1. þm. Vesturl. í salinn.
    Það sem ég var að ræða um hérna áðan var sem sé þessi skattur á sveitarfélögin og sú ræða sem hv. þm. flutti á mánudaginn í þessari bandormsumræðu þar sem ég skildi svo að þar sem ekki væri dregið úr hafnaframkvæmdum á þessu ári væri réttlætanlegt að leggja lögguskattinn á sveitarfélögin. Þá langar mig til að spyrja: Voru Samtök sveitarfélaga spurð að því hvort þau væru tilbúin að draga eitthvað úr hafnaframkvæmdum almennt þannig að þessi lögguskattur félli ekki á sveitarfélögin? Ég er nefnilega alveg viss um það að mörg sveitarfélög hefðu frekar viljað bíða með framkvæmdir í eitt eða tvö ár, sem eru kannski ekki afar brýnar, í staðinn fyrir að taka á sig milljónir og sum sveitarfélög milljónatugi og þurfa jafnvel að taka lán fyrir því sem ekki er hagstætt fyrir þjóðfélagið í heild þar sem á að draga úr lántökum. Ég vona að þessi spurning mín hafi skilist.
    En ég ætla ekki að draga þetta mikið á langinn. Ég hef einu sinni áður kynnst bandormi. Það eru mörg ár síðan, ætli það séu ekki ein 25 ár síðan. Þá vann ég í sláturhúsi fyrir austan fjall. Þá man ég og hugsa með hryllingi til þess hvað það var ógeðslegt kvikindi sem var innvortis í einu lambinu og ég man alltaf hvað hausinn á skepnunni var tómur og stjarfur. Ég hef hugsað mikið um það af hverju þetta nafn, bandormur, er á þessu frv., en ég skil það vel núna. Og ég veit satt að segja ekki hvort mér þykir ógeðfelldari sá sullur sem ég sá í sláturhúsinu fyrir austan fjall fyrir 25 árum eða þær ráðstafanir í ríkisfjármálum sem kallaðar eru bandormur og eru nú til 3. umr.