Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 22:46:00 (3175)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svarið svo langt sem það nær. En ég var bara að spyrja. Ég sagði ekki að ég vildi draga úr framkvæmdum. Ég spurði aðeins hvort sveitarfélögin hefðu fengið að velja um að draga úr framkvæmdum eða borga þennan skatt. Mér finnst að ekki hafi nógu mikil samvinna ríkt um þetta og það kemur greinilega fram í ræðu hv. þm. að það voru engir samningar í gangi og það var ekkert reynt að koma á móts við hugmyndir sveitarfélaganna. Það kemur greinilega fram þarna, þau voru aldrei spurð. Auðvitað vill enginn draga úr framkvæmdum, en ef einhver stendur frammi fyrir vali velur viðkomandi.
    Þessi lögguskattur er mjög óraunsær og einn hv. þm. kallaði fram í einmitt áðan og sagði að það væru mörg sveitarfélög sem hefðu aldrei séð lögregluþjón. Það eru mörg lítil sveitarfélög þar sem aldrei kemur lögregluþjónn en þessi sveitarfélög borga þennan skatt. Það er þetta sem ég er að reyna að koma fram, að það var aldrei neitt val. Ég efast ekki um að flestar þær framkvæmdir sem vitnað er til á Vesturlandi eru allar bráðnauðsynlegar, en það er spurning ef einhver stendur frammi fyrir vali en á ekki fjármuni hvort hann vill frekar um tíma draga úr framkvæmdum en taka lán á þeim vöxtum sem eru í boði.