Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 22:48:00 (3176)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég hef aldrei vitað til þess að Alþingi stæði í samningum um löggjöf, ég tel að við verðum að standa og falla með þeim gjörðum og þeirri löggjöf sem samþykkt er á hinu háa Alþingi. Ég tel að það hefði e.t.v. reynst mjög erfitt ef við hefðum lagt á þann brattann að ætla ná samningum og samkomulagi við öll sveitarfélögin í landinu um það hvaða leið ætti að fara í þeim þrengingum ríkissjóðs sem við stöndum frammi fyrir í dag. En það hefur hins vegar vakið athygli mína og ég benti á það í ræðu minni fyrr í þessari umræðu að umhyggja margra hv. þm. fyrir sveitarfélögunum hefur ekki verið eins áberandi oft áður og hún virðist vera núna í umræðunum. Fyrr í kvöld kom það m.a. fram að einn hv. þm. harmaði mjög að frestað skyldi útgjöldum hjá sveitarfélögum og m.a. í tengslum við grunnskóla. Þar á ég við kostnað vegna skólamáltíða sem er frestað.
    Ég minnist þess sérstaklega að ekki voru uppi mikil samráð við sveitarfélögin í landinu þegar grunnskólalögunum var breytt á síðasta þingi, þá var ekkert samráð haft um mjög veigamikil atriði í grunnskólalögunum sem valda sveitarfélögunum miklu meiri útgjöldum ( GHelg: Þetta er ekki rétt.) en verið er að tala um í dag. Þetta er hárrétt, ágæti hv. þm. Guðrún Helgadóttir. Það voru mjög útgjaldamiklar samþykktir sem fylgdu breytingum á grunnskólalögunum og það var ekki haft samráð við sveitarfélögin í landinu um þá lagasetningu.