Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 22:51:00 (3178)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Herra forseti. Ég ætlaði að byrja á að svara nokkrum spurningum frá hv. þm. Svavari Gestssyni, ég geri ráð fyrir að hann sé í húsinu. Nú, hann er mættur. Þá hef ég mál mitt með því að koma nokkrum orðum að þeirri ræðu sem hann hélt fyrr í kvöld.
    Hann ræddi sérstaklega bráðabirgðaákvæði grunnskólalaganna og þær breytingar sem á þeim verða við samþykkt þessa frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það er mikilvægt að réttur skilningur ríki á því sem hér er verið að gera og þess vegna vil ég fara okkrum orðum um þessi atriði.
    Hv. þm. sagði að áframhaldandi skerðing vikulegs kennslutíma gæti ekki orðið frá áramótum 1992--1993 nema nýrrar heimildar yrði aflað. Þetta er réttur skilningur hjá hv. þm. Þetta ákvæði á við árið 1992 samkvæmt 1. gr. frv. Ég hef hins vegar talað um áður að mér þætti hæpið að allur sá sparnaður sem nefndur hefur verið að ætti að koma á grunnskólann næðist á haustmissirinu einu. Og ég hef talað um að það mundi hins vegar verða til muna auðveldara að ná þessum sparnaði á heilu skólaári.
    Mér er alveg ljóst að ef það á að gerast með áframhaldandi skerðingu á kennslutíma, vikulegum kennslutíma, eftir áramótin 1992--1993, þá þarf að afla nýrra heimilda. Þetta er mér ljóst. 1. gr. frv. segir þetta alveg örugglega. Hins vegar raknar við 46. gr. laganna. B-liður 1. gr. frv. segir það líka. Sú grein er aðeins tekin úr sambandi á árinu 1992. Þetta held ég að ætti ekki að vera neinn ágreiningur um.
    Síðan hélt hv. þm. áfram og sagði efnislega, ég vona að ég hafi rétt eftir honum, að bráðabirgðaákvæði grunnskólalaganna lifnuðu við um áramót. Það er hins vegar misskilningur hjá hv. þm. vegna þess að bráðabirgðaákvæði grunnskólalaganna þau falla öll brott með samþykkt 3. gr. frv., nema síðasta málsgreinin sem segir fyrir um endurskoðun grunnskólalaganna, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: ,,Að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna skal menntmrh. gera Alþingi grein fyrir framkvæmd og undirbúningi þeirra bráðabirgðaákvæða sem hér eru talin.`` Þetta ákvæði er látið standa.
    Ég vil bæta nokkrum orðum við þetta. Annars vona ég að við þurfum ekki að hafa uppi ágreining um þennan skilning á hvað verður um bráðabirgðaákvæði grunnskólalaganna við samþykkt 3. gr. frv. Ákvæði 3. gr. grunnskólalaganna standa. Þau standa áfram, þ.e. að stefnt verður að einsetnum skóla eins og þar segir. Tímamörkin eru hins vegar numin brott. Tímamörkin eru numin brott, þau sem voru og eru í dag í bráðabirgðaákvæðum laganna.
    Við endurskoðun grunnskólalaganna, sem fer fram núna í vetur, kann að verða efni til að setja ný tímamörk. Annars stendur þetta í 3. gr.: ,,Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé einsetinn.``
    Ákvæði 4. gr. laganna um málsverði á skólatíma standa einnig áfram. (Gripið fram í.) Ja, það eru aðeins tímamörkin sem falla brott við það að bráðabirgðaákvæðin falla brott. --- Um málsverðina segir í bráðabirgðaákvæðunum: ,,Ákvæði 4. gr. um málsverði á skólatíma komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.`` Í 3. gr. í frv. segir ekkert um þetta þannig að 4. gr. stendur.
    Ákvæðið um námsráðgjafana stendur einnig áfram í 35. gr., en tímamörkin um það á hvaða tíma þau skuli koma til framkvæmda eru numin brott. Inn á þetta atriði kom einnig hv. þm. Kristín Einarsdóttir í sínu máli. Og ég held að þingmaðurinn hafi haft þann skilning að við það að tímamörkin féllu brott skyldu námsráðgjafarnir ráðnir. Ég hef þann skilning að það hljóti að fara eftir framlögum á fjárlögum. Og á fjárlögum ársins 1992 er ekki gert ráð fyrir að fleiri námsráðgjafar verði ráðnir. En ákvæðið í lögunum stendur áfram.

    Ákvæði 6. mgr. í bráðabirgðaákvæðum laganna eru hins vegar tekin upp óbreytt í 3. gr. frv., þ.e. um sérskólana, og ég er ekki að lesa það upp. Það er fært óbreytt inn í 3. gr. frv. Ég vona að þetta sé alveg ljóst og það þurfi ekki að vera uppi ágreiningur á milli okkar um skilning á þessum atriðum.
    Ég ítreka að varðandi skertan kennslutíma er um að ræða aðgerð sem stendur í eitt ár. ( ÓÞÞ: Nema nýrra heimilda verði aflað.) Já, að sjálfsögðu, nema nýrra heimilda verði aflað. Og það eru ekki uppi í dag neinar sérstakar ráðagerðir um það. Ég hef bara haft þennan fyrirvara um hvort þyrfti að færa þetta yfir eitt skólaár og ef það verður gert þarf nýja heimild. Það er mér alveg ljóst.
    Hv. þm. Svavar Gestsson beindi til mín fyrirspurn varðandi 40. gr. frv., þ.e. um Kvikmyndasjóðinn. Nú hefur verið lögð fram brtt. að nýju við 3. umr., hún var kölluð aftur við 2. umr., að við greinina bætist nýr málsliður sem orðist svo: ,,Þar af skulu 14 millj. kr. renna til norræns kvikmyndaverkefnis.`` Hér er um að ræða samningsbundna greiðslu eins og hv. þm. rakti alveg réttilega. Það var samkomulag á milli fulltrúa allra flokka í þinginu í fyrra um að tryggja framlag til þessa norræna kvikmyndaverkefnis. Það fór hins vegar svo við afgreiðslu fjárlaganna að það var ekki sérstök fjárveiting til þessa og kom þá til afgreiðslu til að taka af öll tvímæli um að þessi upphæð yrði greidd úr Kvikmyndasjóði. Til að fá heimild til þess, ótvíræða heimild, að Kvikmyndasjóður innti þessa greiðslu af hendi er þessi tillaga flutt. Hún skerðir auðvitað Kvikmyndasjóð um 14 millj.
    Ég get því miður ekki gefið yfirlýsingu um það hér og nú hvort unnt verði síðar á árinu að bæta Kvikmyndasjóði þetta upp. Það treysti ég mér ekki til að gera, en það þarf ekkert að efast um vilja manna til að gera svo ef mögulegt reynist. En ég get ekki gefið neina yfirlýsingu um það nú að svo verði. En þessi brtt. er flutt til að taka af öll tvímæli um heimildir Kvikmyndasjóðsins til að inna þessa greiðslu af hendi til hins norræna verkefnis.
    Hv. þm. ræddi svo 36. gr. um tilsjónarmennina. Hæstv. fjmrh. hefur svarað þeim spurningum ítarlega og ég hef svo sem ekki neinu við það að bæta. Hv. þm. nefndi það, sem komið hefur víst áður upp í umræðunni, að hann sem menntmrh. setti fjármálastjóra yfir Þjóðleikhúsið, hliðstætt því sem hér er talað um með tilsjónarmennina. Hann hafði víðtækt vald, sá fjármálastjóri. Hann hafði að vísu fengið erindisbréf sem þjóðleikhússtjóri skrifaði upp á líka að því er hv. þm. upplýsti, ég vissi það nú ekki. Það breytir kannski engu.
    En hv. þm. gat ekki um eitt atriði sem fjármálastjórinn hafði heimild til að gera og það var að segja upp starfsfólki. Nú veit ég ekki hvort það var tekið fram í erindisbréfinu, ég hef ekki forvitnast um þetta erindisbréf. En hvort sem hann hafði heimild til þess samkvæmt erindisbréfinu eða ekki gerði hann það. Ég veit það vegna þess að ég fékk fyrirspurn á sl. sumri frá starfsmanni sem þessi fjármálastjóri hafði sagt upp starfi og sá sem fékk uppsögnina hætti starfi, hætti störfum samdægurs reyndar. En það vöknuðu hjá honum efasemdir um að réttilega hefði verið staðið að þessari uppsögn þegar hann sá úrskurðinn um að viðtakandi þjóðleikhússtjóri hefði ekki haft heimild til að segja upp starfsmönnum við Þjóðleikhúsið. Það var eðlilegt að efasemdir vöknuðu hjá viðkomandi starfsmanni þegar sá úrskurður féll.
    Ég lét kanna hvort fjármálastjórinn hefði haft heimild til að gera þetta og fékk þann úrskurð að svo væri. Við það lét viðkomandi starfsmaður sitja. Þetta er til upprifjunar og til að sýna hvert vald viðkomandi geta haft. Raunar held ég að það sé enginn vafi að ráðherrar hafa stöðug umboð til að gera eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerði í sinni ráðherratíð. Og ég efast ekkert um að hann stóð þar réttilega að verki og gerði rétt. En með þessu er sem sagt verið að taka af öll tvímæli að þetta sé heimilt.
    Ég get ekki stillt mig um aðeins að nefna að gefnu tilefni að hv. þm. sagði á einum stað í ræðu sinni, því var svo sem ekki beint sérstaklega að mér, að ráðherrar, væntanlega viðkomandi málaflokka, hefðu aldrei talað fyrir málunum sem undir þá heyrðu og eru í þessu frv. Það er auðvitað ekki rétt, a.m.k. ekki að því er mig varðar. Ég hef rætt hverja grein sem varðar grunnskólann þó ég hafi hins vegar af eðlilegum ástæðum ekki talað fyrir frv., það gerði hæstv. forsrh., og ég tel mig einnig hafa svarað þeim spurningum sem til mín hefur verið beint í umræðunni allri.
    Ég held að ég hafi jafnframt þessu svarað flestum þeim spurningum sem komu fram í máli hv. þm. Kristínar Einarsdóttur. Ég er búinn að fara yfir það held ég allt saman. Ég nefndi 3. gr. þar sem eftir stendur áfram að stefnt skuli að því að hver skóli sé einsetinn. Hv. þm. lét í ljós ótta um að það yrði kannski lengri tími í að því markmiði yrði náð við það að bráðabirgðaákvæði laganna eru numin brott. Ég sé enga ástæðu til að ætla það. Það má alveg eins ætla að það verði lögð meiri áhersla við endurskoðun laganna á að þetta mikilvæga markmið náist. En þá verður að hafa samstarf við sveitarfélögin, það held ég að sé ekki nokkur minnsti vafi, því þetta kallar á aukið húsrými og það er viðfangsefni sveitarfélaganna. Ég held að það hljóti að vera áhugamál allra að það markmið náist sem allra fyrst.
    Hv. þm. spurði svo hvað ég ætti við með því að segja að skerðing á vikulegum kennslutíma yrði aðeins í efstu bekkjum grunnskólans. Það má vel vera að ég hafi tekið svona til orða, ,,í efstu bekkjum``, en ég hef látið það jafnframt fylgja, held ég ábyggilega, að ég hef nefnt 4.--10. bekk sem þýðir auðvitað, og ég hef reyndar sagt það beinum orðum, að ég hafi ekki hyggju að beita þessari heimild til að skerða kennslutíma hjá þremur yngstu árgöngunum. Þetta á að vera alveg ljóst.
    Um fjölgun í bekkjardeildum. Því atriði hef ég svarað ítarlega. Ég gerði það í gær og ætla ekki að endurtaka það þótt einhverjir séu kannski nú í salnum sem ekki voru þá. Ég endurtek það aðeins einu sinni enn að með þessu heimildarákvæði er ekki verið að efna til einhverra skipulegra flutninga á milli bekkja, hvorki hér í Reykjavík né annars staðar. Eins og ég hef áður sagt er óskað eftir þessari heimild um að fara megi um allt að tvo umfram hámarkið úr 28 í 30, úr 22 í 24, til að koma í veg fyrir skiptingu bekkja. Það er eini tilgangurinn með því að leita þessarar heimildar.
    Ég held að þetta séu atriðin sem beint var til mín og ég vona að ég hafi svarað þeim.