Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 23:08:00 (3179)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Þau voru gagnleg og það er nauðsynlegt að bera sig saman um efnisleg atriði í umræðu af þessu tagi vegna þess að þetta frv. er býsna flókið og kemur mjög víða inn í lög og breytir lögunum. Ég tel því að það sé mjög mikilvægt að skilningur þingsins sé á hreinu varðandi ákveðin grundvallaratriði.
    Ég vil aðeins vegna þess sem sagt var fyrr í kvöld í andsvari við ræðu hv. 2. þm. Vesturl. láta það koma fram að samkvæmt hinum nýju grunnskólalögum er gert ráð fyrir lögbundnu samráði við sveitarfélögin sem aldrei hefur áður verið í lögum. Skv. 1. mgr. 10. gr. er sérstakt ákvæði um það. Það er hlutverk menntmrh. að tryggja að þetta samráð gangi fyrir sig.
    Svör hæstv. menntmrh. byggðust m.a. á því að áframhaldandi skerðing á tímum skv. 46. gr. gæti í raun og veru ekki átt sér stað eftir næstu áramót nema til kæmu ný lagaákvæði. Það var mikilvægt að það var skýrt. Í öðru lagi lagði hann á það áherslu að bráðabirgðaákvæðin lifna ekki við vegna þess að þau eru felld út gildi með 3. gr. frv. eins og það var upphaflega lagt fram. En síðan segir hann: Ákvæðin sem bráðabirgðaákvæðin vísa til halda sér inni í lögunum, t.d. varðandi námsráðgjafana og fleiri aðila og einsetinn skóla líka. Það er út af fyrir sig rétt. En gallinn er sá að þar með verða hin almennu ákvæði innihaldslaus sem skólaþróun og skólaþróunarstefna. Þess vegna er mjög mikilvægt að það verði á ný sett inn tímamörk eins og hæstv. menntmrh. gaf reyndar í skyn að hann mundi beita sér fyrir að gert yrði.
    Varðandi ákvæðið um málsverði finnst mér að þar standi eftir einhver misskilningur hjá okkur vegna þess að það er tekið út í bráðabirgðaákvæðinu, við erum sammála um það. En það ákvæði er líka tekið út á árinu 1992 skv. 1. gr. því þar stendur: ,,Eftirtalin ákvæði laganna munu ekki koma til framkvæmda á árinu 1992: a. 3. mgr. 4. gr.`` --- 3.

málsgr. 4. gr. eru skólamáltíðirnar þannig að skólamáltíðirnar eru teknar út á árinu 1992 en lifna við um áramótin samkvæmt orðanna hljóðan hér. Ég skil það svo. Og þá erum við sammála um það.
    Ég skildi hæstv. ráðherra svo að hann mundi út af fyrir sig vera tilbúinn til að beita sér fyrir því að reyna að líta á ný á málefni Kvikmyndasjóðs þó ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með að hann vildi ekki gera það nú þegar.
    Varðandi tilsjónarmanninn og dæmið úr Þjóðleikhúsinu. Mér finnst satt að segja ekki viðkunnanlegt að ræða það í smáatriðum gagnvart einstöku fólki, enda er tíminn bersýnilega liðinn og ég get þá komið að því einhvern tímann síðar ef ástæða er til. En ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir efnisleg svör.