Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 23:12:00 (3180)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans og ég verð að segja að hann hefur setið mjög vel yfir þessari umræðu og svarað því sem hann hefur verið spurður um sem og skýrt þessar greinar, það get ég staðfest miðað við þann tíma sem ég hef setið hér í salnum.
    Ég held að nauðsynlegt sé að sett verði tímamörk á það hvenær 35. gr. grunnskólalaganna eigi að taka gildi. Að vísu finnst mér eins og lögin hljóma, og þau tóku gildi 27. mars 1991, að það sé algjörlega ótvírætt að við grunnskóla eða fræðsluskrifstofu skuli starfa námsráðgjafar. Það á í sjálfu sér ekki að þurfa að setja nein tímamörk, en miðað við þá túlkun sem hæstv. menntmrh. hafði á þessari grein er það e.t.v. nauðsynlegt. Eftir mínum skilningi á það ekki að þurfa vegna þess að það er ótvírætt í lögunum eins og þau eru núna. Þess vegna skil ég ekki, ef hann telur ekki að það þurfi að ráða námsráðgjafa nú þegar við hvern skóla, af hverju þetta ákvæði var fellt út því það hefði þá verið miðað við ákvæðið eins og það hljómar í núgildandi lögum þar sem segir að það sé samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni og hefði kannski verið auðveldara fyrir hæstv. ráðherra hverju sinni að hafa þetta ákvæði óbreytt en að vera að fella það burtu.
    Ég verð að lýsa ánægju minni með að ráðherra telji að það eigi frekar að flýta en seinka því að koma á einsetnum skóla og skal ég styðja hann svo lengi sem ég er hér í því markmiði. Að sjálfsögðu verður að hafa samstarf við sveitarfélögin, en það þarf ekki síður að gera það í þessu máli en mörgum öðrum málum og er ánægjulegt að hæstv. ríkisstjórn ætlar að breyta um verklag í samskiptum við sveitarfélögin.