Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 23:14:00 (3181)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Það er búið að reyna ítrekað í umræðu um þennan bandorm um ráðstafanir í ríkisfjármálum að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina og einstaka ráðherra í þeim óheillaverkum sem stendur til að setja í framkvæmd þegar þessi bandormur verður að lögum. Þetta hefur verið reynt í mörgum umræðum. Ég ætla ekki við 3. umr. að halda þeim tilraunum mínum lengur áfram, en vil fyrst og fremst að ræða um þá útúrsnúninga og þær rangfærslur sem hæstv. heilbr.- og trmrh. var með í gær við atkvæðagreiðsluna um bandorminn sem varð að fresta í miðju kafi og það vil ég gera við 3. umr. þar sem ég því miður var ekki viðstaddur atkvæðagreiðslur í gær.
    Ég er með útskrift af ræðu hæstv. heilbrrh. og það er sagt þar að bein tilvitnun sé óheimil því það á eftir að lesa þessa ræðu yfir, en hæstv. heilbr.- og trmrh. segir eitthvað á þessa leið: Í öllum þeim stóru orðum sem hér hafa fallið hefur því ekki verið mótmælt að ég hafi vitnað í réttar upplýsingar um frv. hæstv. fyrrv. heilbrrh. Það sem ég hef gert er það eitt að rifja upp fyrir flm. þess frv. hvað í því stóð. Það er auðvitað auðheyrt að þeim sárnar það, en það verður þá bara svo að vera því sannleikanum er hver sárreiðastur.
    Þegar ráðherrann heldur þessu fram er auðvitað bara um tvennt að ræða. Annars vegar að ráðherrann er að segja ósatt og það vísvitandi eða hitt að ráðherrann þekkir ekki málin betur en svo að hann veit hvorki hvað stendur í þeim tillögum og því frv. sem hér liggur fyrir og ríkisstjórnin ber ábyrgð á né heldur því frv. sem fyrrv. ráðherra lagði fram

í þinginu á sl. ári. Þessum orðum mínum til stuðnings ætla ég á nokkrum stöðum að vitna í þau ummæli hæstv. ráðherra við þessa makalausu atkvæðagreiðslu í gær og færa rök fyrir því að allt sem hann sagði þar er rangt og ég skil ekki öðruvísi en svo að það er af þessum tveimur ástæðum, annarri hvorri, sem ég ætla ekki að leggja mat á hvort er til staðar, bein ósannindi af hálfu ráðherrans eða þekkingarleysi.
    Á einum stað segir hæstv. ráðherra: Skerðingartillögur Framsfl. gerðu ráð fyrir að skerðingin næmi 30%. Hér er aðeins stigið það skref að láta skerðinguna nema 25%. Það er eini munurinn á tillögum fyrrv. heilbrrh. og þeirri tillögu sem hér er flutt og ég lít á mótmæli Framsfl. við þessari tillögu sem mótmæli við því að skerðingin skuli ekki vera sú sama í þessum tillögum og hún var í þeirri tillögu. Ég segi já --- eins og ráðherrann orðaði það.
    Hér er náttúrlega um beinan útúrsnúning að ræða. Það er rétt að skerðingarprósentan var 30% í frv. fyrrv. ráðherra, en er 25% í því frv. sem hæstv. heilbrrh. flytur nú. En hvað hafði áður verið gert í frv. því sem fyrrv. heilbrrh. flutti? Og það er þetta sem heilbrrh. veit ekki eða kýs að segja ekki frá til þess beinlínis að segja ósatt. Það er í fyrsta lagi um svokallaða 90%-reglu, ef hæstv. ráðherra veit hvað það þýðir, en það er að tveir einstaklingar sem eru giftir eða njóta hagræðis af sambýli eins og það er orðað í lögunum verða fyrir 10% skerðingu á grunnlífeyri ef þessar aðstæður eru til staðar, gifting eða hagræði af sambýli. Þetta ákvæði hafði verið afnumið í því frv. sem Guðmundur Bjarnason lagði hér fram í þinginu. Sú aðgerð ein, hæstv. ráðherra, vegur auðvitað miklu þyngra en munurinn á 25% og 30% skerðingu sem er mismunurinn á frv. núv. hæstv. heilbrrh. og þess fyrri. Þar að auki var gert ráð fyrir að skerðingarmörk vegna tekjutryggingar væru lækkuð úr 45% niður í 40% og ég býst við að heilbr.- og trmrh. viti að tekjutryggingin er meira en helmingi hærri en grunnlífeyririnn. Þar að auki vega þessi 5% mun meira en mismunurinn á 25% og 30%. Og í þriðja lagi eru viðmiðunarteknamörk hjónanna hækkuð úr 70% í 75%. Þetta þrennt gerir margfalt að vega upp það sem er mismunurinn á 25% og 30%.
    Eins og ég sagði áðan ætla ég ekki að leggja dóm á hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur valið það í umræðunni í gær að segja ekki frá þessu og segja þannig ósatt eða að hann hefur ekki vitað hvað það var sem í þessu fólst og hefur aldrei lesið frv. Ég verð þó að segja að ég hallast frekar að því að hæstv. ráðherra hafi aldrei lesið frv. fyrrv. heilbrrh. af þeirri ástæðu að það er svo ótrúlega margt sem hefur komið fram almennt í umræðunni um heilbrigðis- og tryggingamál sem ráðherrann er að vitna í að hafi verið í hinum og þessum gögnum sem fyrrv. ráðherra hafi flutt og er yfirleitt alltaf rangt með farið.
    Á enn einum stað við þessa atkvæðagreiðslu segir hæstv. ráðherra: Að öllu öðru leyti er um sömu framkvæmd að ræða, þ.e. á tekjutengingu lífeyrisins, eins og fyrrv. heilbrrh. lagði til og þeirri sem hæstv. heilbrrh. leggur nú til.
    Ég vil líka upplýsa menn um að í þessu skjali hæstv. ráðherra sjálfs kemur fram að ellilífeyrir er samkvæmt hans tillögum skertur um 400 millj. eða allmiklu meira en tillaga sem hér er gerð. Nú þykist ég vera viss um að hæstv. heilbr.- og trmrh. veit að þessi bók, nefndarálit frá október 1990, er til í heilbr.- og trmrn. Ég þykist líka vera alveg viss um að hann hefur séð þessa bók, en að hann hafi einhvers staðar séð í þessari grænu bók að lífeyrinn ætti að skerða um 400 millj. er hvergi nokkurs staðar, ekki neina slíka tölu þar að finna. Þá er aðeins um tvennt að ræða, að hann hafi lesið vitlausa bók eða að hann hafi kosið að segja ósatt við atkvæðagreiðsluna.
    Staðreyndin er sú, hæstv. ráðherra, að þessi skýrsla og frv. það sem fyrrv. ráðherra lagði fram í þinginu byggir í öllum meginatriðum á þessu nál. að öðru leyti en því þó að nál. gerði ráð fyrir að lífeyrir lífeyrissjóðanna hefði áhrif til skerðingar á ellilífeyri og örorkulífeyri. Því var breytt og því var breytt í kjölfar þess að flokksþing framsóknarmanna í nóvember 1990 samþykkti að ekki skyldi koma til þessarar skerðingar eða lífeyrir lífeyrissjóðanna skyldi ekki hafa áhrif á þessa skerðingu. En það frv. fól í sér að það voru færðar 180 millj. kr. til öryrkja. 180 millj. kr. voru færðar frá þeim sem betur mega sín

yfir til þeirra sem þurfa á aðstoð trygginganna að halda sem eru að mínu viti í dag engir frekar en öryrkjar.
    Þetta frv. fyrrv. heilbrrh. gerði einnig ráð fyrir að skerðing ellilífeyris yrði 235 millj. Og ef ráðherrann vill fletta upp í bókinni --- ég held það sé á bls. 72 --- sér hann þetta í þeim nákvæma samanburði sem þar er gerður á frv. og gildandi lögum. Þá kemur fram að þessi sparnaður, sem hugsanlega hefði náðst með tekjutengingu ellilífeyris, hefði verið 235 millj., en til hjónanna vegna breytinga á skerðingarmörkum tekjutryggingar sem voru lækkuð úr 45% niður í 40% og afnámi 90%-reglunnar og breyttum viðmiðunarteknamörkum, þá hafa verið færðar til í tekjutryggingunni 100 millj. kr. til ellilífeyrisþega frá þeim þó sem búa einir, en yfir til hjóna eða þeirra sem njóta hagræðis af sambýli. Nettóskerðingin er 135 millj. kr.
    Í sjónvarpinu í gærkvöld fullyrti hæstv. heilbr.- og trmrh. að ef frv. fyrrv. ráðherra hefði náð fram að ganga hefði orðið um 80% jaðarskatt að ræða fyrir þennan hóp. Í síðustu viku, þegar hv. þm. Svavar Gestsson stóð í ræðustól og hrósaði þeim í heilbrrn. fyrir sérstaka stærðfræðikunnáttu, kinkaði hæstv. heilbr.- og trmrh. mjög kolli og ég sá að hann tók það til sín að hv. þm. Svavar Gestsson átti við hann, þó svo að hv. þm. hafi tekið fram að það væri aðstoðarmaðurinn sem hann ætti við.
    En þá var einfalt fyrir hæstv. ráðherra að reikna út og það gerði hann að frv. sem hann hefur lagt fram mun leiða til 75% jaðarskatts fyrir ellilífeyrisþegana. En hann gleymdi í þessum útreikningum eins og svo oft áður, hæstv. heilbr.- og trmrh., að taka tillit til þess að 90%-reglan hafði verið afnumin. Hann gleymdi að taka tillit til þess að 45% skerðingin var komin niður í 40% skerðingu í tekjutryggingunni. Hann gleymdi einnig að taka tillit til þess að viðmiðunarteknamörkin höfðu verið hækkuð úr 70% í 75%. Og þegar tillit hefur verið tekið til þessara hluta var um langtum lægri jaðarskatt að ræða samkvæmt þessu en gert er ráð fyrir með því frv. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur nú lagt fram í þinginu.
    Á enn einum stað við þessa atkvæðagreiðslu segir hæstv. ráðherra, og ég ætla að lesa svarið í heild eins og það birtist í útskrift sem ég hef fengið frá ræðuriturum, en er óyfirlesið af hæstv. heilbr.- og trmrh.: Vegna þeirrar efnislegu umræðu sem hér hefur orðið við atkvæðagreiðsluna, sem hv. þm. mótmæltu að ættu sér stað, vil ég gjarnan upplýsa að það er rétt að það var gert ráð fyrir því í frv. fyrrv. heilbrrh., sem flokkur hans væntanlega stóð að, var gert ráð fyrir um 14% hækkun grunnlífeyris örorkulífeyrisþega og 14% hækkun á tekjutryggingu. En það var líka gert ráð fyrir því að skerða grunnlífeyri með nákvæmlega sömu aðferðinni eins og hér er gerð tillaga um að öðru leyti en því að það var gert ráð fyrir að hefja skerðingu grunnlífeyris við nokkuð lægri atvinnutekjur en hér er gerð tillaga um og að grunnlífeyrir örorkulífeyrisþega yrði að fullu skertur við mun lægri atvinnutekjur en hér er gerð tillaga um. (Gripið fram í.) Já, ég held að hæstv. samgrh. hefði gott af því að lesa þetta vegna þess að hann þekkir ekkert til í þessum málaflokki. (Gripið fram í.) Hann hafði áhuga fyrir því, ég sá það.
    Þetta er líka rangt hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. vegna þess að mismunurinn á þeim tölum sem fram komu í frv. fyrrv. heilbrrh. og því frv. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. leggur nú fyrir þingið er aðeins verðlagsbreytingar. Og ef hæstv. ráðherra vill sannfærast um þetta þarf hann ekki annað en reikna út prósentumuninn á 11.181 kr., sem var grunnlífeyririnn á þeim tíma sem þetta frv. var lagt fram, og því sem hann er í dag, 12.123 kr., og finna síðan út hver er mismunurinn á skerðingarmörkunum. Þá kemst hann að raun um að hér er aðeins um verðlagshækkanir að ræða. Þetta held ég að ráðherrann hafi hlotið að vita við umræðuna í gær, en kaus ekki að segja frá heldur að fara rangt með staðreyndir.
    Nú er það svo að Alþýðuflokkurinn -- Jafnaðarmannaflokkur Íslands skammast sín fyrir þær tillögur sem hann er að leggja fyrir þingið. Og af hverju skyldi hann gera það? Jú, vegna þess að honum var boðið upp á það í síðustu ríkisstjórn að standa að heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni og fá hana samþykkta hér á Alþingi, ný heildarlög fyrir almannatryggingarnar. Hæstv. núv. ráðherra og aðrir ráðherrar sem þá voru í

þeirri ríkisstjórn ásamt öllum þingflokki Alþfl. treystu sér ekki til að standa að þessu frv. sem fyrrv. ráðherra hafði lagt fram í þinginu af þeirri ástæðu að það fól í sér tekjutengingu elli- og örorkulífeyris. Þegar nú í haust er tilkynnt í fjárlögum að það eigi að skerða lífeyrinn hjá lífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum um 260 millj. kr. hafa þeir ekki önnur úrræði en þau að tekjutengja hann og hafa því beinlínis með því að sýna andstöðu við frv. fyrrv. ráðherra staðið gegn öllum þeim réttarbótum sem fólust í því frv., eins og 14% hækkun á örorkulífeyri, eins og 14% hækkun á tekjutryggingu, 55% hækkun á sjúkradagpeningum, 55% hækkun á vasapeningum. En núna er komið inn í þingið af hálfu Alþýðuflokksins -- Jafnaðarmannaflokks Íslands, frv. sem gerir ráð fyrir beinni skerðingu og sparnaði fyrir lífeyristryggingarnar og þannig á þessi hópur, gamla fólkið, að leggja sérstaklega af mörkum á þessum óskaplegu erfiðu tímum sem ríkisstjórnin er núna að upplifa og er að fást við og kýs að leggja milljarða kr. skatt á þá sem þurfa á lyfjum að halda, 700 millj. kr. skatt á þá sem þurfa að sækja til sérfræðinga, 370 millj. kr. skatt á þá sem þurfa að sækja þjónustu heilsugæslustöðva. En allar aðstæður í þjóðfélaginu eru þannig í dag fyrir þessa ríkisstjórn að vandinn er heimatilbúinn og ríkisstjórnin hefur svo til algerlega útbúið þennan vanda sjálf.
    Ég veit að það munu aðrir í þessari umræðu gera enn efnislegri grein fyrir því hver var og er munurinn á því frv. sem fyrrv. heilbrrh. lagði fram í þinginu og þeim tillögum sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur nú lagt fram.