Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 00:45:00 (3188)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn byrja á að óska hæstv. heilbrrh. til hamingju með þann merkisdag í lífi hans sem nú er að hefjast. Og þó að sá dagur byrji e.t.v. með nokkrum óróleika vonast ég til þess að hann eigi eftir að eiga þægilegan dag. Ég hef grun um að hann ætli að ferðast eitthvað á þessum degi og ég vildi því gjarnan, virðulegi forseti, ef svo kynni að fara að ferðalag hans yrði hafið áður en ég hef lokið ræðu minni, að hér yrði líka viðstaddur hæstv. félmrh. sem er þar að auki varaformaður Alþfl. --- Ég sé að hæstv. félmrh. er hér viðstaddur. Ég vildi gjarnan að hún hlustaði á þær athugasemdir sem ég hef við málflutning hæstv. heilbrrh. og að gera þar sem hæstv. félmrh. átti líka sæti í fyrrv. ríkisstjórn og veit hvernig fjallað var um þau mál sem nú hafa verið mest til umræðu seinustu mínúturnar, klukkustundirnar og kannski má segja dægrin. Og gjarnan mætti formaður þingflokks Alþfl., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, vera hér einnig, en mér er hins vegar ljóst að það er erfitt fyrir þingmenn að krefjast þess að aðrir þingmenn sitji undir ræðum þeirra þó menn geri það gjarnan hvað varðar ráðherra þegar verið er að fjalla um þeirra málaflokka.
    En ég vil segja við hæstv. heilbrrh. að ég tel það heldur lélega röksemdafærslu að slíta hluti úr samhengi og það viðurkenndi hæstv. ráðherra reyndar í ræðu sinni áðan þegar hann sagði að það væri ekki hægt að bera saman eitt epli og eplakörfu. Ef ég skildi hann rétt átti hann við að það væri ekki hægt að slíta hluti úr samhengi og bera saman ólíka og óskylda hluti.
    Hæstv. ráðherra nefndi það líka í ræðu sinni áðan að stundum kæmi það fyrir fjölmiðla að skýra ekki alveg rétt frá, jafnvel vera með útúrsnúninga eða þá það væri fjölmiðlunum að kenna eða það væri þeirra vandi að fjalla um málin af nægjanlegri þekkingu eða setja sig nægjanlega vel inn í málin þannig að það sem þeir skýrðu frá væri ekki ævinlega satt og rétt. Þannig skildi ég alla vega hæstv. ráðherra. Þá er hann líka að kvarta undan því eða fjalla um það sama og ég þegar ég segi að það sé léleg röksemdafærsla að slíta hluti úr samhengi.
    Hæstv. ráðherra sagði t.d. í gær að framsóknarmenn ættu að geta samþykkt þær tillögur sem hann hefur lagt fram á þingi varðandi breytingar á almannatryggingalöggjöfinni af því að þær væru þær sömu og þeir hefðu áður lagt fram og ef þeir væru á móti væri það vegna þess að skerðingartillögur þeirra áður hefðu ekki gengið eins langt og skerðingartillögur hans nú. Ég verð að segja við hæstv. heilbrrh. að mér finnst þetta bæði auvirðilegur og ómerkilegur málflutningur og ég sagði það í gær og ítreka það nú að ég harma að ráðherra skuli grípa til svona málflutnings og ég býst við að það sé gert í nokkru fljótræði. Enda fannst mér hann bæði í ræðu sinni áðan og reyndar einnig í sjónvarpsþætti, sem hann tók þátt í í gærkvöld, segja að auðvitað væri fjölmargt fleira í tillögum framsóknarmanna eða fyrrv. heilbrrh. að finna en það sem hann hefði þó tekið til samanburðar og viðurkenna þá einnig þar með að hann væri að slíta hluti úr samhengi og ekki að bera saman sambærilega hluti. Það er það sem mér finnst ósanngjarnt, ómerkilegt og ég harma.
    Löggjöf um almannatryggingar er afar mikilvæg og viðkvæm löggjöf, löggjöf sem þarf að skoða mjög vandlega. Ég hef lýst því yfir margoft, bæði í þessum ræðustól og eins þegar ég var að kynna það frv. sem hér hefur verið tekið til umræðu, sem lagt var fram á seinustu dögum Alþingis í fyrra og var lagt fram til kynningar með fyrirvörum af hálfu þingflokkanna, og mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp eina setningu, sem er upphafssetning í athugasemdum við lagafrv. Þar segir:
    ,,Frv. þetta er lagt fram til kynningar og til að vekja umræðu enda þótt umfjöllun um það í ríkisstjórn sé ekki lokið og þingflokkar hafi fyrirvara um einstaka þætti þess. Þetta er gert til þess að hægt verði að leita umsagnar um það í sumar.``
    Nú fór reyndar svo, virðulegi forseti, að frv. var ekki tekið hér til umræðu og þess vegna heldur ekki sent út til umsagnar, en auðvitað gátu þeir sem vildu kynna sér málið gert það af því að frv. lá orðið fyrir í þingskjali. Ég sagði áðan að ég hefði tekið það fram, bæði þá, þegar þetta kom til umræðu og almannatryggingalöggjöfin, reyndar ítrekað á undanförnum árum hef ég lýst því yfir héðan úr þessum ræðustól, og reyndar einnig þegar ég kynnti frv., að hér væri um að ræða svo flókna og viðkvæma lagasetningu og löggjöf að það hlyti að þurfa að vinna hana mjög vel og ítarlega í þingi.
    Við vitum líka að þessi lög hafa verið í endurskoðun hjá fleiri ráðherrum en fyrrv. heilbrrh. Ég minnist þess að hv. þm. Svavar Gestsson, þegar hann gegndi embætti þess ráðherra, lét vinna mikið í endurskoðun á þessari lögjöf og það er vissulega tímabært því að eins og hæstv. heilbrrh. hefur nokkrum sinnum sagt við þessa umræðu hefur hann kallað löggjöfina skóbótalöggjöf. Því til vitnis má benda á í þessu frv. að lögin eru frá 1971 og öll árin síðan að tveimur undanskildum hafa verið gerðar breytingar í þinginu og sú tafla kemur fram í þinginu, tekur yfir nærri því tvær síður, allar þær lagabreytingar sem hafa verið gerðar á lögunum á hverju einasta þingi að undanskildum þinginu 1973 og þinginu 1988. Á öllum hinum þingunum hafa verið gerðar margar, oftast fleiri en ein, oft margar breytingar á lögunum þannig að það er ekki vanþörf á að taka þau til heildarendurskoðunar. Það var það sem við vorum að leggja upp með. Það voru okkar tillögur.
    Og ég verð að fá að segja, og mig langar að segja það við hæstv heilbrrh., ef hann hyggur nú til hreyfings sem mér sýnist á honum, að ef það er hægt að álykta eins og hann gerði í gær við atkvæðagreiðslu, að vegna þess að framsóknarmenn hefðu viljað ganga lengra í skerðingu væru þeir á móti brtt. hans, sem er hreinn útúrsnúningur og ég er að reyna að rekja, bæði í gær og ætla að gera frekar núna, þá gæti ég gagnályktað og sagt, sem ég reyndar hélt að væri ekki ástæðan, að í fyrra, þegar þingflokkur Alþfl. lagðist gegn því að frv. þetta yrði tekið til efnislegrar umfjöllunar hér og afgreiðslu, hélt ég að það væri vegna þess að hann vildi ekki sætta sig við þessi skerðingarákvæði og hugmyndir um skerðingu á grunnlífeyri. En þegar það er eina tillagan sem ráðherra Alþfl. tekur út úr frv.

gæti ég ályktað að það væri það eina sem hann vildi fylgja, það væri það eina sem hann vildi samþykkja og væri á móti öllum hinum atriðunum, væri á móti því að lífeyrir örorkulífeyrisþega væri hækkaður um 14%, væri á móti því að tekjutrygging örorkulífeyrisþega væri hækkuð um 14%, væri á móti því að örorkustyrkurinn væri hækkaður um 7% o.s.frv. Það er alveg jafnmerkilegur málflutningur og sá sem ráðherrann viðhafði í gær. Nú ætla ég ekki hæstv. heilbrrh. og öðrum þingmönnum Alþfl. að hugsa þannig til almannatryggingalöggjafarinnar. En það er efnislega alveg eins og það sem ráðherra sagði í umræðum í gær.
    Mig langar til að gera nánari grein fyrir því, þegar ég segi að þetta sé ekki sambærilegt, hvað ég á þar við með því að benda á að á móti hugmyndum og tillögum sem við lögðum fram í fyrra og stóðum að, að gera breytingar á útreikningi svokallaðs grunnlífeyris, þess almenna lífeyris sem tryggingalöggjöfin hefur byggt á, og skerða hann með tilliti til tekna viðkomandi einstaklinga, gerðum við ráð fyrir margvíslegum öðrum réttarbótum á móti og það var líka það sem ég tók margsinnis fram í sambandi við allar umræður um frv. að endurskoðunin á almannatryggingalöggjöfinni væri til þess að jafna milli einstaklinga og beita almannatryggingalöggjöfinni í þágu þeirra sem þyrftu á aðstoð hins opinbera að halda og það bitnaði þá á þeim sem betur mættu sín, hefðu tekjur annars staðar frá og þeir létu nokkuð af hendi til þess að hægt væri að veita hinum réttarbótina. Flestar, sennilega allar brtt. sem unnar hafa verið á árunum frá 1971 eru í þá veru að bæta réttarstöðu einstaklinga, hafa átt að gera það, en hafa verið til að auka útgjöld ríkisins, almannatryggingakerfisins og þar með ríkissjóðs. Og fjölmargar tillögur sem komu fram í þingi þau ár sem ég gegndi embætti heilbrrh. voru allar í þá veru líka að auka útgjöld almannatrygginganna og skapa betri réttarstöðu þeirra sem á því þurfa að halda. Mín niðurstaða varð sú að við yrðum að reyna að leita lags innan tryggingakerfisins sjálfs til að mæta þessum réttarbótum. Til þess að veita réttarbæturnar yrðum við að leita leiða innan tryggingakerfisins. Það var rökstuðningurinn fyrir því að leggja til breytingar á grunnlífeyrinum, að skerða hann í hlutfalli við tekjur. Þær réttarbætur sem við vildum gera á móti og verja í þeim sparnaði sem á þennan hátt næðist voru m.a. fólgnar í því að bæta hag öryrkja stórlega. Það voru verulegar umbætur á sviði sem varðar málefni öryrkja. Örorkulífeyrinn átti að hækka um 14% eins og áður hefur verið nefnt, tekjutrygging örorkulífeyrisins átti að hækka um 14% og frítekjumark hjóna sem bæði njóta ellilífeyris var hækkað úr 70% í 75% af frítekjumarki tveggja einstaklinga, afnumið það ákvæði í núgildandi lögum að lífeyrir hjóna sem bæði fá lífeyri skuli vera 90% af lífeyri tveggja einstaklinga. Þá var í frv. gert ráð fyrir að hjón fái fullan lífeyri. Skerðingarhlutfall tekjutryggingar vegna tekna er lækkað úr 45 í 40%, bótaflokkar, heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót eru lagðir niður en í staðinn koma heimildarbætur. Þær gerðu ráð fyrir að greiða megi örorkulífeyrisþegum uppbót á tekjutryggingu, en skilyrði fyrir greiðslu uppbótarinnar eru önnur en eru fyrir greiðslu heimilisuppbótar og munar þar mestu um að einbýli verður ekki lengur skilyrði fyrir greiðslum heimildaruppbótanna eins og nú er með heimilisuppbót. Örorkustyrkinn átti að hækka um 7%.
    Ég gæti lesið upp í langan tíma þessar bætur allar og þær breytingar sem átti að gera og vitna kannski til nokkurra í viðbót, en mig langar til að nefna það, af því að hæstv. heilbrrh. var í málflutningi sínum áðan að gera samanburð á því að einstakir bótaflokkar hafa átt að lækka, aðrir að hækka, leika sér með tölur og fá fyrst 400 millj. kr. skerðingu, síðan 260 millj. kr. skerðingu og ein tala sem hann nefndi var 135 millj. kr., að þetta er allt saman mjög erfitt að bera saman nema taka málið allt í heild.
    Ég nefni t.d. að hér var lagt til að slysatryggingarnar væru lagðar niður. Slysatryggingarnar væru færðar á hendur annarra aðila, fyrst og fremst atvinnurekenda, sem reyndar greiða í tryggingakerfið ákveðið slysatryggingagjald, en slysatryggingarnar ættu bara að vera í hinum frjálsu tryggingafélögum. Þar er gert ráð fyrir að slysatryggingarnar skiptist á atvinnurekendur, á lífeyristryggingarnar og á sjúkratryggingarnar. Þannig er ómögulegt að taka einn bótaflokkinn og segja: Þessi bótaflokkur hækkar um svona mikið, hinn lækkar um svona mikið og ætla að finna út einhverja jöfnu í sambandi við það. Reynt var

að gera heildarmat á því hvernig þessar breytingar gætu orðið og niðurstaða þess varð að það kynni að verða um það bil 154 millj. kr. sparnaður í heildina á öllum þessum breytingum. Á öllum þessum breytingum gæti það orðið. En eins og allir vita sem til þekkja í almannatryggingakerfinu og hafa komið að þeim málum er hér um afar flókna löggjöf að ræða og það þarf ekki miklar breytingar til þess að tugir milljóna færist á milli og 100 millj. eru ekki lengi að hverfa ef gerðar eru smávægilegar breytingar á löggjöf sem kostar tugi milljarða, ég minni menn á það. Þær réttarbætur sem hér voru lagðar til voru svo mikilvægar að við töldum réttlætanlegt að leggja til þá breytingu á ellilífeyrinum að tengja grunnlífeyrinn svokallaða.
    Auðvitað er það fjölmargt sem breytist í tímans rás og þess vegna eðlilegt að skoða þá hluti einnig. Við vitum að tekjubil hefur farið vaxandi og er þá ekki eðlilegt að athuga það, skoða hvort hægt er að hnika einhverju til um ellilífeyri þeirra aldraðra sem búa við tiltölulega góðar aðstæður, sumar reyndar mjög góðar?
    Ég veit ekki, virðulegur forseti, hvort það er ástæða til að eyða í það mjög löngu máli að bera þetta saman. Reyndar gerði hæstv. ráðherra það nokkuð. Hann fór yfir þær hugmyndir sem eru í hinni svokölluðu grænu bók, þ.e. nefndarálitinu sem unnið var af nefnd sem ég skipaði 17. des. 1987 þannig að þessi endurskoðun hófst snemma á mínum ráðherraferli og tók langan tíma af því að sú endurskoðun er flókin eins og margsinnis hefur komið fram. Ráðherra fór nokkuð ítarlega yfir þetta og gerði grein fyrir hvað hefði verið lagt til og hverjar breytingar væru hér, ræddi m.a. um umönnunarbæturnar sem er afar mikilvægt atriði, og ég vil líka nefna að það var lögð til veruleg hækkun á vasapeningum hjá þeim einstaklingum sem liggja á stofnunum. Nýr liður er uppihaldsstyrkur til sjúklinga og fygldarmanna sem þurfa að dvelja lengi utan heimabyggðar vegna læknismeðferðar og er afar mikilvægt ákvæði fyrir landsbyggðafólk sem þarf að leita a.m.k. allrar flóknari heilbrigðisþjónustu eða stærri og sérhæfðari aðgerða utan sinnar heimabyggðar, t.d. á höfuðborgarsvæðinu eða á Akureyri. Slíkar bætur eru mikilvægar fyrir þá og þær eru ekki teknar inn í þann samanburð sem ráðherra var að fjalla um áðan.
    Allt þetta er þess eðlis að hægt er að hafa um það langt mál, en þar sem hér er ekki verið að mæla fyrir nýju frv. til laga um almannatryggingar er ekki tímabært að fara ítarlega í það núna, en ég vonast til þess að þegar hæstv. ráðherra sér ástæðu til, sem ég vona að hann geri fyrr en síðar, ástæðu til þess að endurskoða þessa löggjöf í heild, nýti nokkuð þær hugmyndir sem hér hafa verið settar fram.
    Í þeirri nefnd sem vann nefndarálitið sem er grunnurinn að frv. áttu sæti fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga aðild að ríkisstjórn. Þar sat t.d. þáv. hv. alþm. Árni Gunnarsson. Hann var fulltrúi Alþfl. í þessari nefnd og mig langar til, með leyfi forseta, að vitna til þess sem Árni Gunnarsson setur fram sérstaklega í þessu nál. Þó svo að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokksins, þekki álitið er ekki víst að allir þingmenn geri það, kannski ekki einu sinni allir þingmenn Alþfl., og ég ætla að leyfa mér að lesa þetta álit Árna Gunnarssonar þar sem hann segir:
    ,,Um leið og ég samþykki fyrir mína hönd þau drög er fyrir liggja um breytingu á lögum um almannatryggingar vil ég koma eftirfarandi bókun á framfæri:
    Í þessu frv. eru gerðar tillögur um grundvallarbreytingar á kerfi almannatrygginga. Þar vegur þyngst tillaga um tekjutengingu aðalbótaflokka lífeyristrygginga, þ.e. elli- og örorkulífeyris. Ég geri mér ljóst að þessi tillaga er og verður umdeild og hefur þegar verið hafnað af nokkrum fulltrúum í nefndinni sem frv. samdi.
    Í þingflokki Alþfl. hefur málið verið rætt einu sinni, en ekki til fullnustu. Fram komu andmæli gegn þessari tillögu, enda hefur Alþfl. litið á þessa bótaflokka sem áunninn rétt einstaklinga en ekki sem ölmusu. Ég tel hins vegar að forsendur í þjóðfélaginu fyrir þessum tryggingum hafi á síðustu áratugum tekið slíkum breytingum að fyllilega sé réttlætanlegt að tekjutengja þessa bótaflokka. Þeir útreikningar sem fram hafa verið lagðir í nefndinni sýna ljóslega að tekjutenging bætir stöðu hinna verr settu en skaðar ekki hina tekjuhæstu. Þeir fjármunir sem sparast með tekjutengingunni nýtast til að auka greiðslur til þeirra er annast sjúka og aldraða í heimahúsum og til að auka réttindi innan sjúkratryggingageirans. Að öðru leyti vísa ég til skýringa sem með frv. fylgja.``
    Ég vil undirstrika þetta. (Gripið fram í.) Það eru auðvitað launin, já, sem Árni Gunnarsson hefur fengið, eins og hv. þm. bendir á, að þeir felldu hann bara. Þeir vildu nefnilega ekkert annað en taka tekjutenginguna en skilja allt hitt eftir, allt sem var rökstuðningur Árna Gunnarssonar fyrir frv., fyrir nefndarsetunni, fyrir undirskrift hans við nál. Það var það að fjármunirnir sem sparast með tekjutengingunni nýtast til þess að bæta réttarstöðu ýmissa annarra aðila innan tryggingakerfisins. Það er sá reginmunur sem er á tillögunum eins og þær voru lagðar fram í vor og á tillögunum sem Alþfl. stendur nú að og hæstv. heilbr.- og trmrh. leggur fram. En ég ætla, með leyfi forseta, að ljúka við að lesa bréf þessa ágæta nefndarmanns þannig að öllu sé til skila haldið, en þar segir áfram:
    ,,Það er síðan á valdi ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort þessar tillögur, ef samþykktar verða, samrýmast þeirri endurskoðun sem nú er hafin á lífeyrissjóðakerfinu. Þá vil ég að sú skoðun mín komi fram að verði fallist á niðurfellingu slysatryggingakaflans þurfi að tryggja í einu og öllu að þjóðfélagshópar eins og húsmæður og sjómenn njóti fyllstu slysatrygginga. Ég lýsi þeirri skoðun minni að í þessu frv. komi fram margvíslegar breytingar sem koma almannatryggingakerfinu og almenningi til góða og verði til mikilla bóta. Ég undirrita tillögur nefndarinnar eingöngu fyrir mína hönd, en skuldbind í engu þingflokk Alþfl. með undirskrift minni.``
    Undir þetta skrifar síðan þessi ágæti fyrrv. þingmaður og félagi okkar Árni Gunnarsson. Tilvitnun er sem sagt lokið í hans bréf.
    Þetta undirstrikar einu sinni enn þá áherslu sem við höfum lagt á okkar mál, fulltrúar Framsfl., hér í umræðunum, ekki bara í gær og í dag heldur í allri umræðunni marga undanfarna daga þegar þetta hefur komið fram. (Gripið fram í.) Ég veit ekki alveg hvaða athugasemd þetta var hjá hæstv. samgrh. og landbrh., sem kom áðan, en e.t.v. hefði hann gott af því að sitja af og til í þingsalnum og hlusta á þær upplýsingar sem hér er verið að bera á borð. (Gripið fram í.) Það er innanbúðarvandamál hjá stjórnarliðum. Ég blanda mér ekkert í þær athugasemdir hv. formanns þingflokks Alþfl. ef hann hefur einhverjar athugasemdir við það að gera að hæstv. samgrh. sitji í salnum.
    Mig langar aðeins að koma inn á að hæstv. heilbrrh. hefur ítrekað látið það fylgja í sínum umræðum um þetta mál að það hafi verið farið alveg eins með sjómenn í tillögum þeim sem ég lagði fram á þingi í fyrra og þeim tillögum sem hann leggur fram núna. Vissulega er rétt að efnislega eru þær brtt. sem hann leggur fram á almannatryggingalöggjöfinni hliðstæðar þessum þætti í heildarendurskoðuninni sem ég lagði fram, en undirstrika það einu sinni enn að frv. þetta átti auðvitað eftir að fá ítarlega endurskoðun í þinginu og að sjálfsögðu ekki óeðlilegt að taka tillit til margvíslegra breytinga sem hefðu komið fram. Ég er alveg sannfærður um að það hefði ekki verið sú eina athugasemd sem hér hefði komið fram að það þyrfti að taka þátt eins og þennan, sem varðaði sjómennina, til athugunar og endurskoðunar og breytingar. Ég er alveg sannfærður um að það hefði verið margt fleira. En þetta er ein af þeim athugasemdum sem nú hafa komið fram við frv. og hefði verið sjálfsagt að taka til skoðunar, en hæstv. ráðherra og hv. stjórnarliðar hafa ekki séð neina ástæðu til þess að verða við því þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem þingmenn, sem nú eru í virðingarstöðum í stjórnarliðinu, gáfu á sínum tíma þegar verið var að fjalla um þessi mál á Alþingi fyrir nokkrum árum og ég reyndar vitnaði til í gær og ætla ekki að lesa upp aftur núna, en annar þeirra var hv. þm. Karl Steinar Guðnason, sem nú gegnir stöðu formanns fjárln. þingins, og hitt voru ummæli hæstv. núv. samgrh. Halldórs Blöndal þegar hann fjallaði um það mál. En nú eru þau ummæli gleymd og grafin og ekki talin ástæða til að fara mjög ítarlega yfir þá þætti að þessu sinni.
    Mig langar, virðulegi forseti, að nefna nokkur önnur mál sem tengjast bandorminum, önnur en bara þau skoðanaskipti sem hafa farið fram um endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni og þær brtt. sem hv. stjórnarliðar leggja nú til að teknar séu út úr og raska öllu samhengi og samræmi innan löggjafarinnar sem slíkrar ef það er tekið fram eitt og sér. Þá langar mig fyrst til að nefna að ég hef bent á það í umræðunum áður að það kynni að vera skynsamlegt í vissum tilfellum þegar leita á sparnaðar að ráða fólk í vinnu

í stað þess að segja fólki upp. Það virðist vera ein af megintillögunum nú að segja fólki upp, draga úr yfirvinnu, beita ýmsum slíkum aðgerðum, en ég hef hér bréf fyrir framan mig frá lyflækningadeild Landspítalans þar sem gerð er grein fyrir verkefni einstaklings sem þar vinnur og ég ætla ekki að lesa það erindi allt upp, en tilefni bréfsins er að viðkomandi hefur aðeins verið í 40% stöðuhlutfalli og auðvitað unnið yfirvinnu á móti þessu stöðuhlutfalli þannig að hann hefur skilað mikið meiru en 40% vinnu. Hann hefur þurft þess vegna mikilvægis stöðu hans. Nú, með þessum nýju aðgerðum, er gert ráð fyrir því að yfirvinna hans verði skorin niður. Vegna þess að hann hefur unnið þetta verk og þessi störf er það nánast óframkvæmanlegt vegna mikilvægis starfsins, sem varðar þjónustu við t.d. nýrnasjúklinga, og mundi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar og ólýsanlegar ef starfið yrði fellt niður. Það væri auðvitað ódýrara að ráða þennan mann í 70% eða 100% starf eins og hér er lagt til í staðinn fyrir að skera starfið hans niður.
    Svona geta hlutirnir snúist í höndunum á manni og á þeim sem ætla sér þó að reyna að ná fram sparnaði með slíkum aðhaldsaðgerðum að menn ganga í öfuga átt. Ég beini þessu til hæstv. fjmrh., sem ég veit að ætlar að leggja sig mjög fram um að fylgja þessari löggjöf eftir, þ.e. fjárlögunum að sjálfsögðu, að skoða svona hluti. Kannski gætu tilsjónarmennirnir hans komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri í einhverjum tilfellum ekki óskynsamlegt og hin aðferðin leiddi ekki til raunverulegs sparnaðar að skera niður yfirvinnu eða starfshlutföll án þess að skoða til hvers það í raun kann að leiða.
    Það hefði verið fróðlegt að spyrja hæstv. heilbrrh. að því í sambandi við það hversu fjálglega hann talaði um að skerðingin, sem á nú að hefjast á ellilífeyrinum eða grunnlífeyrinum 1. febr. nk., gengi vel, allur útreikningur væri auðveldur og öll sú vinna í Tryggingastofnuninni gengi auðveldlega, hvort það kynni ekki að vera, þó að framtölin séu ekki nema 3.000 og allt sé tölvuvætt og allt liggi vel fyrir eins og hæstv. heilbrrh. lýsti áðan fjálglega, að einhver yfirvinna hafi verið unnin við að koma þessu í framkvæmd fyrir mánaðamót og hvort það hefði þá ekki kostað einhverja viðbótarpeninga og hvort það hefði samrýmst reglum hæstv. ríkisstjórnar til að ná fram markmiðum fjárlaganna. En látum það eiga sig fyrst hæstv. ráðherra er vikinn af vettvangi, enda vafalaust hægt að fá um það upplýsingar þó síðar verði.
    Annað atriði úr ræðu hæstv. heilbrrh. langar mig að nefna líka þó að hann sé farinn og varðaði umræður hans um jaðarskatta og hversu það skerðingarkerfi sem nú væri upp tekið og hefði verið boðað í grænu bókinni svokölluðu hefði leitt til ef fram hefði verið fylgt eins og þar var boðað. Mig langar til að velta aðeins upp þeirri hugsun hjá hv. þm. að velta því fyrir sér hvað þýðir í raun tekjutrygging. Hvað erum við að gera með því að veita einstaklingum greiðslur úr tryggingakerfi og kalla það tekjutryggingu? Við erum í raun að tryggja að viðkomandi aðilar hafi einhvern lífeyri. Við erum að tryggja að þeir hafi einhverjar lágmarksgreiðslur til þess að framfleyta lífinu, þeir sem ekki hafa úr öðru að spila. Og þegar þær greiðslur fara að skerðast, þegar þessi trygging minnkar af því að viðkomandi einstaklingar hafi tekjur annars staðar frá, þá finnst mér í raun óeðlilegt að vera að eltast eitthvað við það eða leika sér eitthvað að því hvað slík trygging á ákveðnu bili þýðir mikinn skatt þegar hún skerðist eða þegar dregur úr henni af því að það koma tekjur annars staðar frá. Mér finnst þetta vera hálfgerður skollaleikur, en ég geri ekki lítið úr því að reyna að reikna svona skerðingu út á þann hátt að hún komi sem skynsamlegast niður og hún komi á þann hátt fram að hún sé sem ásættanlegust fyrir þá einstaklinga sem hennar njóta. Ég er líka alveg viss um að þetta er t.d. eitt af þeim atriðum sem hv. Alþingi hefði tekið til ítarlegrar umfjöllunar í sinni vinnu við að endurskoða og yfirfara þetta frv. hefði það fengið hér nánari umfjöllun í þinginu og hefði kannski verið ástæða til að skoða enn betur en gert hefði verið það frv. sem nú liggur fyrir, þ.e. tillögur hæstv. heilbrrh. og hæstv. ríkisstjórnar varðandi breytingarnar á almannatryggingalöggjöfinni.
    Hæstv. ráðherra undirstrikaði að auðvitað væri þetta ekki heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni og því væri ekki hægt að taka þetta til þess samanburðar sem hann reyndi þó að viðhafa í málflutningi sínu í gær og læt ég lokið umræðu um það sérstaklega.

    Hæstv. ráðherrar munu þurfa að glíma við ýmis vandamál í að framfylgja þeim tillögum sem hér eru áætlaðar í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum ef að lögum verður og í fjárlögunum sem þegar eru búin að taka gildi. Og að gera mikið veður út af dálítið sérkennilegri auglýsingu sem hengd var upp í Borgarspítalanum á dögunum finnst mér bera keim af því að nokkur taugaveiklun sé hjá ráðherrum því að þetta er það sem þeir eru að leggja til og þeir eru að biðja um. Það er það sem hæstv. heilbrrh. var búinn að skikka sjúkrahúsin í landinu til að gera og einstaklingarnir sem hengdu upp þessa auglýsingu gera það í góðri trú og þeir eru að vinna sitt verk. Þeir eru að reyna að ná fram þeim sparnaði sem ráðherrann hefur fyrirskipað og þeir ætla að gera það með því að hætta að taka gamla fólkið fram úr rúminu og þvo því sem allra minnst, hætta t.d. að þvo því á bringunni eins og ég sá einhvers staðar í blaði í gær. Það er auðvitað sjálfsagt hægt að spara eitthvað við það þó að maður e.t.v. skilji ekki almennilega hvað átt er við með því að minnka bringuþvott.
    En það er annað sem ég held að verði enn erfiðara, auðvitað margt, en eitt af því sem mig langar að nefna er það að ég þurfti að glíma við það þau ár sem ég sat í heilbrrn. að aðstandendur geðfatlaðra einstaklinga koma iðulega til mín með sín vandamál, erfiðleika sem eru miklir og við reyndum að taka á því eftir því sem mögulegt var, en ég veit að hér á eftir að herða enn að og mig langar að vitna í örstutt viðtal sem fram kemur í fréttabréfi Öryrkjabandalagsins, 4. tbl. frá 1991, þar sem aðstandandi lýsir því hvernig þetta ástand er og segir, með leyfi forseta:
    ,,Eins og málum er háttað í dag er ekki óalgengt að sjúklingur útskrifist af geðdeild eftir 2--3 mánuði, í alls ófullnægjandi ástandi, þegar lyf hafa slegið á sjúkdómseinkennin og sendur heim til aðstandenda, sem enga fræðslu hafa fengið um sjúkdóminn og engar leiðbeiningar fengið um hvernig beri að meðhöndla og umgangast sjúklinginn. Enga hjálp er að fá fyrir aðstandendur af neinu tagi, enginn sem maður getur leitað til --- vinir hverfa --- maður einangrast með sjúklingnum og stendur frammi fyrir þeirri ægilegu staðreynd að maður er aleinn daga og nætur með fársjúkum einstaklingi, sem oft á tíðum er hættulegur sjálfum sér og öðrum í verstu köstunum, sökum þeirra ranghugmynda sem halda sjúklingnum í heljargreipum og hann ræður ekki við það. Það er hörmulegt ástand sem skapast og reyndar engum ætlandi, hvorki ungum né gömlum, að lifa við slíkt til langframa. Óraunhæfar kröfur sjúklingsins, ásakanir og hótanir, ásamt endalausum næturvökum og reykingum, sýkja umhverfið og heimilislífið og brjóta niður lífsvilja og þrótt, vinir hverfa flestir og jafnvel fjölskyldan fjarlægist.``
    Þetta er auðvitað ekki skemmtileg lýsing og hún er því miður ekki ný. En ég veit að þær eiga eftir að versna og þeim á eftir að fjölga.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að hafa þetta öllu lengra þó að það væri hægt að hafa uppi langt mál enn vegna þess að svo er að þessum málum staðið. Aðrir hafa rætt við hæstv. menntmrh. um málefni skólanna og ég ætla því ekki að gera það.
    Mig langar í lokin aðeins að koma inn á þá umræðu sem fór fram áðan um 900 millj. nokkrar sem greiddar voru fyrirtækjum og einstaklingum á seinustu dögum og eru að því er sagt er skattfrjálsar þannig að einstaklingarnir þurfa ekki að borga neitt til samfélagsins af þessum peningum. ( ÓÞÞ: Það skerðir ekki ellilífeyrinn.) Nei, gerir það ekki heldur eins og aðstæður eru í dag, en þó ber að fagna því að ráðherrar hafa keppst við í þessum umræðum að lýsa því yfir og strengja þess heit að þeir ætli að taka upp skatt á fjármagnstekjur eða eignatekjuskatt og þeir fá ábyggilega stuðning við að koma því máli áleiðis. Ég vona að þeir standi við stóru orðin í því sambandi. En það sem mig langar að segja um þá umræðu sem fór fram áðan aðeins í örfáum setningum er það að mér fannst heldur lélegt að eigna þetta allt saman einhverjum ákveðnum einstaklingum. Þetta væri að kenna, eins og mátti nánast lesa út úr ræðum manna áðan, einstaklingum eins og fyrrv. fjmrh., Tómasi Árnasyni, núv. hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni og fyrrv. hæstv. fjmrh., Ragnari Arnalds. Þetta voru einhverjir sökudólgar fyrir því að þessar 900 millj. skyldu vera skattfrjálsar og kennt um verðbreytingafærslu. Ég er enginn skattasérfræðingur og ætla ekki að hætta mér mikið út í þessa skattaumræðu, en ég hélt að verðbreytingafærslan hefði fyrst

og fremst verið til að tryggja óbreytt verðmæti og menn héldu sínum verðmætum. Það kann að vera að þessir einstaklingar hafi einhvern tíma lagt 900 millj. inn í þetta fyrirtæki og þess vegna sé réttlátt að þeir taki þessar 900 millj. aftur út skattfrjálsar. ( GHelg: Þeir gætu aldrei lagt það inn.) Ég sagði kann að vera. Ég veit ekkert um það. Ég leyfi mér að efast um það. En hafi svo verið getur vel verið að það væri réttlætanlegt að verðbreytingarfærslan verji þessa eign þeirra.
    En það sem ég vil aðeins segja um þetta mál er að mér finnst að við svona löguðu þurfi að bregðast og ég heyrði reyndar hæstv. fjmrh. lýsa því yfir að hann hefði fullan hug á að skoða þetta til þrautar, skoða það til hlítar. Ég er ekki að láta mér detta í hug að þeir aðilar sem hér eiga hlut að máli séu að brjóta nein lög. Þeir eru sjálfsagt að nýta sér það sem lög segja í dag, en það þarf að skoða hvort er rétt að málum staðið.
    Og aðeins að lokum, hæstv. forseti, langar mig að segja að ég get með góðri samvisku sagt að ég geti alls ekki fylgt þessu frv. hæstv. heilbrrh. Ég bið hv. þm. að taka eftir þessari setningu af því að ég er að tala um breytingarnar á almannatryggingalöggjöfinni sem hann sagði að ég ætti að geta auðveldlega framfylgt af því að ég hafði lagt þær til áður sjálfur. Ég segi aftur: Ég get með góðri samvisku sagt að ég get alls ekki fylgt þessu frv. hæstv. heilbrrh.
    Nú getur tröllaukinn útúrsnúningameistari, eins og var sagt áðan í annarri ræðu, auðvitað búið til nýja setningu úr þessum orðum mínum með allt annarri merkingu. Hann þarf engu að breyta, hann þarf engu að bæta inn í, hann þarf aðeins að fella út nokkur orð, sem sagt ekki að segja setninguna alveg alla og segja samt: Hv. þm. sagði þetta, þetta eru þau orð sem hann sagði. Ef felld eru nú niður tvö orð, ,,alls ekki``, hljóðar setningin svona: ,,Ég get með góðri samvisku sagt að ég get fylgt þessu frv. hæstv. heilbrrh.`` og síðan yrði komið í ræðustólinn á eftir og sagt að það væri það sem maðurinn sagði. Það er aðeins búið að taka út hluta af orðunum sem hann viðhafði. Það er nákvæmlega sama meðferð og viðhöfð er á því frv. sem ég lagði fram í vor þegar sagt er að ég geti fylgt einhverjum hluta þess af því að ég hafi lagt til einhvern hluta þess. Það er líka hægt að fara svona með setningar sem menn láta frá sér fara og gerbreyta merkingu þeirra.