Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 02:29:00 (3192)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Vegna fyrirspurnarinnar um nefndina sem ætlunin var að skipa varðandi Reykjanesskóla vil ég segja að það er rétt, sem formaður fjárln. hafði eftir mér við afgreiðslu fjárlaganna, að nefnd verði skipuð til að ræða um framtíð Reykjanesskóla. Ég hafði hugsað mér að þessu verki væri nú þegar lokið, en það hefur dregist og það er mín sök. Ég hafði lýst því yfir að samráð yrði haft við þingmenn Vestfjarða og það ætla ég mér gera og tel eðlilegt að það samráð fari um hendur 1. þm. Vestf. Matthíasar Bjarnasonar, en hann hefur verið fjarverandi. Ég hef aðeins rætt þetta við hv. 2. þm. Vestf. og ég mun láta verða af því allra næstu daga að ganga frá þessari nefndarskipan að höfðu samráði við 1. þm. Vestf. sem væntanlega hefur svo samband við hópinn. Ég mun óska eindregið eftir því við þessa nefnd, hún verður jafnframt skipuð heimamönnum, að hún skili áliti eigi síðar en í maímánuði.