Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 02:43:00 (3196)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er nokkuð erfitt, og ég segi það með virðingu fyrir þeim sem situr í forsetastól, að fjalla um þetta mál og framhaldið við þær aðstæður að aðalforseti er ekki í forsetastól vegna þess að það hefur skeð hér hvað eftir annað að þeir sem gegna störfum fyrir hana treysta sér ekki til að draga einhverjar ályktanir af því sem fram kemur og þess vegna vil ég almennt koma þeirri ábendingu á framfæri við forsetadæmið að þegar þingskapaumræður af þessu tagi hefjast er yfirleitt nauðsynlegt að gera aðalforseta viðvart.
    Í öðru lagi vil ég segja það við formann þingflokks Alþýðuflokksins og Alþýðuflokkinn og ríkisstjórnina almennt séð að ef hæstv. heilbrrh. væri ekki fimmtugur í dag er alveg ljóst að sú ræða sem hann flutti hefði sprengt þessa umræðu í loft upp. Það er eingöngu sú staðreynd að þingmenn sýna hæstv. heilbrrh. þá manneskjulegu kurteisi að taka tillit til þess að fyrir þremur stundum hófst merkisdagur í lífi hans og umræðunni er stillt í hóf því ræðan var náttúrlega með endemum. Þetta var fyrsta og eina ræðan sem hæstv. heilbrrh. flutti í þinginu um þetta mál þótt hann hafi verið sá sem aðallega hefur verið

gagnrýndur í þinginu fyrir málið. Hann kaus í ræðu sinni að skilja eftir fjölmargar spurningar sem til hans hafa borist, en var í staðinn með ýmiss konar árásir á aðra þingmenn, m.a. á þann sem hér stendur. Það er svo sem allt í lagi. Ég kveinka mér ekkert undan því. En það er einn formgalli á því árásarefni. Ég hef ekkert talað í þessu máli, hvorki við 1., 2. eða 3. umr. svo ég muni, a.m.k. ekki við 2. eða 3. umr. Það er því nokkuð sérkennilegt hjá hæstv. heilbrrh. að nota þessa einu ræðu sína til að flytja hér hvað eftir annað mín verk og mínar tillögur og mína persónu inn í sína ræðu. Það væri tilefni til þess að ég færi að koma inn í umræðuna og hrekja ýmislegt af því sem hann var með. Ég hef hins vegar ekki beðið um orðið enn þá.
    Ég vil hins vegar lýsa þeim skilningi mínum, svo það sé alveg ljóst, að það er eingöngu vegna þess að hv. þm. taka tillit til þeirrar staðreyndar að fyrir 50 árum fæddist skólastjóranum á Ísafirði myndarlegur drengur, skólastjórahjónunum, og hann hefur dafnað vel og hélt upp á afmælið sitt í ræðustólnum um miðnættið --- ( Gripið fram í: Hvað var hann þungur?) hann var nokkuð þungur eins og fleiri sem fæddust á Ísafirði á þessum árum --- að umræðan er nokkuð hógvær. Ég vona að formaður þingflokks Alþfl. og þeir alþýðuflokksmenn, sem hafa sýnt mikinn skilning í þessum umræðum, skilji að þetta er nokkur vandi fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. Eigum við að láta það viðgangast að heilbrrh. komi, flytji mikla þrumuræðu, láti höggin dynja fram og aftur í þingsalnum og fari svo í burtu í skjóli þess að hann er fimmtugur?
    Ég vil einnig segja við forsetadæmið að margt viljum við gera til að greiða fyrir störfum, en nú hefur fundur staðið í þinginu nokkuð samfleytt í 17 klukkustundir. Ég held að það þurfi að leita nokkuð langt aftur til að finna fordæmi fyrir því. Þetta er að gerast aftur og aftur. Hér eru haldnir langir fundir af þessu tagi, það er hringlað með fundatíma þingsins fram og aftur, hefðbundinn þingtími er ekki virtur, stundum byrja fundir klukkan ellefu, stundum hálfellefu, stundum tíu, stundum hálftvö og engin regla virðist vera á þessu. Það er kannski íhaldssemi, en almennt séð finnst mér að þjóðþingið eigi að vera nokkuð fastheldið á sínar venjur í þessum efnum.
    Þegar búinn er að standa hér fundur í 17 klukkustundir vil ég spyrja að því hvort ekki er tími til kominn að fara að huga að því hvernig menn geta lokið þessu með skaplegum hætti eða hvort það er virkilega ætlunin að hér standi fundur í margar klukkustundir enn ef þingmenn telja sig þurfa að tala.