Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 03:01:00 (3202)

     Finnur Ingólfsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið fram í máli þeirra þingmanna sem hafa tekið til máls að það er af sérstökum ástæðum sem menn óska ekki eftir því að hæstv. heilbr.- og trmrh. komi hingað í hús. Það er vegna tímamóta í lífi hans. Ég held hins vegar að það sé hægt að finna lausn á þessu máli. Mér fyndist eðlilegt að nú þegar hann yfirgefur landið kl. kannski 6 í dag, en þá tekur annar ráðherra við og gegnir störfum fyrir hann þann tíma sem hann er í burtu, sitji sá ráðherra fyrir svörum og svari þeim spurningum sem þingmenn hafa borið upp og ekki hafa fengist svör við. Ég geri mér grein fyrir því að það getur verið erfitt verk fyrir ráðherra sem ekki er inni í málaflokknum og þar sem um mjög flókna og torskilda löggjöf oft og tíðum er um að ræða. En það væri eðlilegt að við sem teljum okkur eiga spurningar inni hjá ráðherranum sem ekki hefur verið svarað getum borið þær spurningar upp við þann ráðherra sem mun gegna hans starfi á meðan hann er í burtu og sá ráðherra fengi tíma til að leita svara hjá embættismönnum við ýmsum þeim hlutum sem þar er ósvarað. Staðreyndin er sú að mikið af þeim spurningum sem eftir er að svara eru beinlínis spurningar sem snúa að því hvort hægt sé að framkvæma og sumt af því sem ráðherra lýsti yfir standist lög.
    Þessu vil ég beina til formanns þingflokks Alþfl., hvort þetta sé möguleiki, og þá kannski ekki síður til forsrh., hvort þetta sé leið í málinu.