Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 03:23:00 (3209)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Ég brá mér úr salnum áðan og mun víst hafa misst af merkri ræðu eftir því sem ég heyri þegar ég kem inn í salinn aftur. Ef ég nem það rétt sem ég hef heyrt mun hæstv. forsrh. hafa lýst því sem hér fer fram sem skrípaleik. Sé það svo verð ég nú að segja að hinn ,,tragíkómíski karakter`` í þeim skrípaleik er hæstv. heilbr.- og trmrh. sem nú er horfinn af vettvangi.
    Það vill þannig til að hér hófst 2. umr. um þennan svokallaða bandorm 18. des. Ég er ein þeirra sem hef beðið dögum, vikum, og núna er kominn mánuður, það liggur við að maður geti sagt mánuðum saman eftir að heyra hvað hæstv. heilbr.- og trmrh. hefði fram að færa í þeim málaflokkum sem hann snerta og voru til umræðu fyrir áramót og komu síðan í breyttu formi eftir áramót. Mér var farið að leiðast nokkuð þófið og ég var búin að spyrja hann ýmissa spurninga og hafði engin svör fengið og fór að kanna það í ræðuritun hvað hæstv. heilbr.- og trmrh. hefði sagt í þessari 2. umr. Ég hef bent á það áður að hann hefur tvisvar talað um þingsköp og tvisvar komið upp í andsvörum frá því í 2. umr. þar til núna í kvöld.
    Hann kom upp og gaf svör við sumu en það vantaði ansi mikið upp á að þau væru fullnægjandi. Þegar hann var búinn að tala gekk hann á milli manna og hann talaði m.a. við mig og tilkynnti mér að hann þyrfti að fara og ég sagði honum að ég væri ósátt við það, ég hefði ekki fengið þau svör sem ég hefði óskað eftir, mörgum spurningum væri ósvarað og ég gæti ekkert annað en fjallað um þau mál hér. Ég gaf honum ekkert samþykki mitt fyrir því að hann færi. Hann varð auðvitað að gera það upp á sína eigin ábyrgð. Hann kaus að fara og hlustaði ekkert á mitt mál, hlustaði ekkert á það þegar ég endurtók mínar spurningar eða annað sem ég hafði fram að færa. Ég hef þess vegna ekki sett mig aftur á mælendaskrá og er ekki á þeirri mælendaskrá sem forseti er með vegna þess að ég sé í sjálfu sér engan tilgang í því að vera að tala inn í þingtíðindi og hafa ekki ráðherrann til að hlusta á mitt mál því það er við hann sem ég þarf fyrst og fremst að tala. En það má kannski segja að það geri álíka mikið gagn að tala inn í þingtíðindin og að tala við hæstv. ráðherra sem ekki svarar því sem að er spurt.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur setið lengi á þingi og hann hefur verið einn af óbreyttum fótgönguliðum í nærri 20 ár. Nú er þessi maður kominn í ráðherrastól og ég verð að segja að ég fæ ekki betur séð en hann hafi ofmetnast við þá breytingu ef hann getur ekki setið þingfundi, hlustað á þingmenn og svarað spurningum þeirra og tekið til máls eins og aðrir. En það er auðvitað hans böl, flokksins, en þó því miður líka þjóðarinnar.