Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:15:00 (3217)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki óeðlilegt að hv. 8. þm. Reykn. spyrjist fyrir um áform ríkisstjórnarinnar með tilliti til þeirra óska sem fram hafa komið eða réttara sagt fram munu koma af hálfu Verkamannasambands Íslands. Það er þó þannig og það vita forustumenn Verkamannasambandsins að ríkisstjórnin er nú að fylgja eftir áformum sínum sem koma fram í fjárlögum íslenska ríkisins fyrir yfirstandandi ár. Komi það í ljós á því sem við getum kallað lokastigum samningaferilsins að aðilar vinnumarkaðarins óska eftir viðræðum við ríkisstjórnina mun ríkisstjórnin að sjálfsögðu verða við þeim tilmælum eins og svo oft hefur gerst áður. Ég minni á að bæði í samningunum 1989 og eins 1990 kláruðust samningar með óskum til viðkomandi ríkisstjórnar sem þá sat og í framhaldi af því voru gerðar breytingar á lögum og a.m.k. áformum ríkisstjórnarinnar eins og ég veit að hv. þm. man. Það er því ljóst að á lokastigum mun ríkisstjórnin ræða við aðila vinnumarkaðarins sé þess óskað sérstaklega. Þá þurfa auðvitað allir aðilar að koma að málinu. Þessu hefur forsrh. lýst yfir áður og undir það get ég tekið, en ég held að það sé útilokað fyrir löggjafarþingið og fjárveitingavaldið að hinkra með nauðsynlega löggjafarstarfsemi sem er í takt við fjárlög sem þegar hafa verið samþykkt af þessu tilefni einu, enda er síðar ávallt hægt að grípa til þeirra aðgerða sem þarf ef á þarf að halda.