Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:27:00 (3222)

     Finnur Ingólfsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. var ekki í salnum þegar ég tók áðan til máls um gæslu þingskapa. Honum vil ég segja að mér þykir afar erfitt að ljúka þessari umræðu án þess að fá svör við mjög veigamiklum spurningum er snúa að því frv. sem hér er til umfjöllunar og þeim þætti frv. sem kom inn á síðustu stigum málsins, þ.e. tekjutengingu elli- örorkulífeyris. Það eru t.d. þær spurningar sem ég hef ítrekað í umræðunni, lagt fram við hæstv. heilbr.- og trmrh. um það hvað verði t.d. um bensínstyrk fyrir þann hóp öryrkja sem er yfir þessum tekjumörkum og flokkast þar af leiðandi ekki lengur sem örorkulífeyrisþegar. Í öðru lagi spyr ég um kaup á hjálpartækjum í bíla þeirra öryrkja sem eru yfir þessum tekjumörkum. Þannig er ég með ótal spurningar --- sex spurningar --- sem ég hef ekki fengið svar við í þessari umræðu og fór þess vegna fram á fyrr í nótt hvort ekki væri eðlilegt að sá ráðherra yrði kallaður til sem mun fara með málaflokkinn meðan hæstv. heilbr.- og trmrh. er ekki á landinu.
    Ég vil því spyrja forsrh., ég reyndar spurði hann að því áðan í þessari umræðu, hvort honum fyndist það ósanngjörn krafa okkar þingmanna, sem höfum borið fram spurningar í þessari umræðu um mjög þýðingarmikil mál, að við fáum svör við þeim áður en þessari umræðu lýkur og ef hægt er að fá svör er ég sannfærður um að það geti stytt mjög umræðuna.
    Eins þá það: Er hugsanlegt að sá ráðherra sem kemur til með að stýra málaflokknum meðan hæstv. heilbr.- og trmrh. er erlendis komi hingað í þingsalinn og fái þá ráðrúm til að spyrja eða ráðgast við embættismenn um svör við spurningum sem eftir er að svara. Þetta vil ég spyrja hæstv. forsrh. um.