Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:36:00 (3227)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu mjög og snúa mér því beint að þeim spurningum sem ég átti eftir að fá svör við hjá hæstv. heilbr.- og trmrh.
    Það er þá í fyrsta lagi að ráðherra hefur fullyrt að frá og með 1. febrúar nk. verði hægt að greiða út öllum þeim öryrkjum og ellilífeyrisþegum sem eiga að fá greiðslur í upphafi febrúarmánaðar og þær greiðslur verði þannig framkvæmdar að þá komi þessi tekjutenging til framkvæmda. Það kom fram í umræðunni í dag að til þess að þetta sé hægt þurfa allar upplýsingar um tekjur hvers einstaklings, eða hefðu þurft, að liggja fyrir fyrir

15. janúar. Ef svo er ekki, að hægt sé að undirbúa þær keyrslur sem kallað er fyrir Skýrsluvélar ríkisins, þurfi að grípa til þess sem menn hafa kallað sérstakra greiðslna eða sérstakrar meðhöndlunar á greiðslum sem gætu þá verið 2.800 ellilífeyrisþegar og öryrkjar sem þyrftu að koma til Tryggingastofnunar ríkisins um næstu mánaðamót til að sækja sínar ávísanir. Ráðherra fullyrðir reyndar að þetta verði framkvæmt með þessum hætti og því spyr ég: Getur þessi hópur öryrkja og ellilífeyrisþega ekki örugglega treyst því að svo verði?
    Í öðru lagi fullyrti ráðherrann fyrr í kvöld í umræðunni að það yrði gefinn þriggja mánaða frestur gagnvart þeim aðilum sem búa erlendis og hafa tekjur í því landi sem þeir búa, þeim yrði gefinn þriggja mánaða umþóttunartími til að senda inn tekjuvottorð í tryggingarnar. Eftir þessa þrjá mánuði, hafi tekjuvottorð ekki borist, verði ellilífeyrir felldur niður til þessa hóps. Ég spyr hæstv. félmrh.: Á grundvelli hvaða greinar í almannatryggingalögunum ætlar heilbr.- og trmrh. að grípa til þessarar aðgerðar?
    Þannig er að hluti ellilífeyrisþega og ellilífeyrir nokkurra ellilífeyrisþega ræðst af því hversu lengi þeir hafa búið í landinu og eru þar af leiðandi margir hverjir með hlutfallslífeyri. Hvernig er meiningin að meðhöndla slíkan lífeyri í þessari tekjutengingu? Við þessu hafa ekki fengist svör þrátt fyrir ítrekaðar óskir.
    Ég minntist áðan á að nokkur hópur, sennilega yfir 100 örorkulífeyrisþegar, og margir hverjir þeirra eru með bensínstyrk svokallaðan. Bensínstyrkur er greiddur til allra örorkulífeyrisþega sem þess óska, misjafnlega hár, en er úrskurðaður eftir tekjum og hefur þá verið miðað við 100 þús. kr. markið. Nú, þegar örorkulífeyrisþegar hafa náð þessu 100 þús. kr. marki, hætta þeir samkvæmt skilgreiningunni eins og hún er í frv. að verða örorkulífeyrisþegar. Hvernig á að meðhöndla þennan hóp eftir þessa lagabreytingu eða er hugsunin sú að skerða þessar greiðslur til þessa hóps?
    Sama gildir með kaup á hjálpartækjum við fatlaða í bíla. Ég spyr því félmrh. hvort félmrh. viti hvernig hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi hugsað sér að framkvæma þetta atriði.
    Það er áætlað að spara 260 millj. kr. með þessari tekjutengingu. Nú þegar er ljóst að 1 / 12 hluti þessa sparnaðar er fallinn út. Það stefnir í það að mínu viti að a.m.k. 2 / 12 muni falla í burtu. En það er líka ljóst að við þessa breytingu mun verða tilhneiging hjá ellilífeyrisþegum að hætta vinnu. Þar af leiðandi mun einhver hópur ellilífeyrisþega koma inn í tryggingarnar á öðrum stað, þ.e. með því að fá greiðslur í gegnum tekjutryggingu, heimilisuppbót eða sérstaka heimilisuppbót. Hafa verið gerðar áætlanir um það og eru þær áætlanir í þessum 260 millj. kr. sparnaði hvaða útgjaldaauka þetta mun hafa í för með sér fyrir tryggingarnar?