Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

73. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 04:49:00 (3230)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það var afar merkileg afhjúpun sem átti sér stað á samskiptum forráðamanna ríkisstjórnarinnar við forsetaembættið. Það sem hefur gerst í dag er að aðalforseti er búin að vera fjarverandi forsetasætið frá því löngu fyrir miðnætti. Formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna tjáðu mér fyrir nokkru að forseti þingsins Salome Þorkelsdóttir hefði boðað þá til samráðsfundar í herbergi sínu til að ræða framhald mála. Ég tek eftir því að allir formenn þingflokkanna eru fjarverandi nema nú gengur í salinn varaformaður þingflokks Alþb.
    Ég hélt satt að segja að það væri þannig að verið væri að leita samkomulags og kom þess vegna fullkomlega á óvart að fjmrh. byrjar að kalla fram úr sæti sínu til forsetaembættisins að nú eigi að taka fyrir næsta mál og síðan stendur fjmrh. á fætur og fer upp í forsetastól og fer að ,,dirigera`` forsetanum um að taka fyrir næsta mál. Ég vil biðja um að þeirri niðurstöðu samninga sem orðið hefur verði lýst áður en hæstv. fjmrh. heldur áfram að stjórna fundi. Vegna þess að ég hef grun um að það hafi kannski náðst samkomulag milli mála sem hæstv. fjmrh. hins vegar er greinilega að hafa að engu með því að fjarstýra forsetaembættinu og ganga síðan beint í forsetastólinn til að segja forsetadæminu fyrir verkum.