Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 11:30:00 (3240)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Allt hefur sinn tíma og einnig það að vegferð þessa óhappamáls í gegnum þingið ljúki, a.m.k. um sinn. Að vísu standa vonir margra aðila til þess að efni frv., ef að lögum verður, fái ekki að standa lengi. Það er samdóma álit manna að hér séu á ferðinni í fyrsta lagi einhver verstu vinnubrögð sem sést hafa í háa herrans tíð hvað lagasetningarundirbúning snertir, en því miður á það einnig við hér að þrátt fyrir ófrýnilegt útlit er innrætið samt enn verra. Það er innihald þessa máls sem að sjálfsögðu er verst. Hér er í flestum tilvikum þar sem um íþyngjandi aðgerðir er að ræða ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, skertar tekjur aðila sem standa veikar að vígi í lífsbaráttu sinni á sama tíma sem ekki er hróflað við hátekjufólki landsins og eigna- og fjármagnsstéttinni.
    Við lokameðferð þessa máls hér á þingi vil ég í fyrsta lagi mótmæla þessum vinnubrögðum, ég vil í öðru lagi mótmæla þeirri framkomu sem fjölmörgum aðilum hefur verið sýnd við alla meðferð málsins og í þriðja lagi sérstaklega mótmæla innihaldinu sem boðar afturför á fjölmörgum sviðum. Þetta er ójafnaðarfrv. sem ber núverandi stjórnarstefnu ójafnaðar og ranglætis alveg óhrekjandi vitni. En því miður er það svo, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan, aðilar vinnumarkaðarins og þjóðin situr uppi með þessa ríkisstjórn sem vitinu verður greinilega ekki komið fyrir. Og þó svo það sé óhrekjandi að lögfesting þessa máls spilli stórlega fyrir líkum á kjarasamningum og farsælum tökum við stjórn þjóðmála hér á næstu mánuðum er ríkisstjórnin svo heillum horfin að hún er að knýja þetta mál í gegn. En það verður að vera upp á hennar ábyrgð og ég tel að stjórnarandstaðan hér á Alþingi hafi gert það sem í hennar valdi hafi staðið innan ramma þingræðisins til að afstýra þessu slysi. Ég segi nei.