Lánsfjárlög 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 11:37:00 (3243)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 401 við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1992 frá meiri hluta efh.- og viðskn.
    1. Á eftir 5. gr. komi tvær nýjar greinar svohljóðandi:
    a. (6. gr.)
    5. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands, með síðari breytingum, orðast svo:
    Ríkissjóður ber eigi ábyrgð á þeim skuldbindingum sem Fiskveiðasjóður stofnar til eftir 1. mars 1992. --- Þarna var dagsetningin 31. des. og verið er að gefa Fiskveiðasjóði svigrúm með þessari breytingu.
    b. (7. gr.)
    Heimilt er að afnema ábyrgð ríkissjóðs á nýjum skuldbindingum sem Iðnþróunarsjóður stofnar til eftir gildistöku laga þessara, enda sé leitað eftir staðfestingu ríkisstjórnar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um viðeigandi breytingu á samningi um norrænan iðnþróunarsjóð fyrir Ísland, sbr. lög nr. 9/1970, með síðari breytingum. --- Þarna var dagsetning einnig 31. des.
    2. Við 6. gr. (er verður 8. gr.) Greinin orðist svo:
    Fjmrh. er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán að hluta eða öllu leyti í stað þess að veita ríkisábyrgð á lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í 2.--4. tölul. 4. gr. og í 5. gr. og endurlána til þeirra með þeim kjörum og skilmálum sem hann ákveður.
    Erlendar lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í 1. mgr. og ríkissjóðs mega nema allt að 8.581 millj. kr. á árinu 1992.
    Frá hámarki því er um getur í 2. mgr. má víkja svo fremi að nettó innstreymi erlends lánsfjár sé í samræmi við forsendur fjárlaga og lánsfjárlaga. --- Þarna er síðasta grein brtt. ný, en að öðru leyti er verið að sameina tvær brtt. varðandi hámark á erlendum lántökum.
    3. Við 7. gr. Greinin falli brott, enda eru efnisatriði hennar komin inn í lið 2 í brtt.
    Í greinargerðinni segir að gerð sé grein fyrir þeim brtt., sem hér er lagt til að verði samþykktar, í nál. meiri hluta efh.- og viðskn. á þskj. 245.
    Auk þess er lagt til að eftir 1. mars 1992 beri ríkissjóður ekki ábyrgð á þeim skuldbindingum sem Fiskveiðasjóður stofnar til. Þessi breyting hefur engin áhrif á eldri skuldbindingar sjóðsins sem ríkissjóður kann að ábyrgjast.