Lánsfjárlög 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 11:39:00 (3244)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni síðasta frv. hjá hæstv. ríkisstjórn sem er nú 23. jan. loksins komið til 3. umr. sem tengist beint afgreiðslu fjárlaganna og er hluti af fjármálaafgreiðslu og fjármálastefnu hæstv. ríkisstjórnar, þeirrar sem hún hugðist knýja fram til afgreiðslu í desembermánuði sl. Ég hygg að það sé fremur óvenjulegt að sú staða blasi við mönnum að óvissa í efnahagsmálum, ríkisfjármálum og kjaramálum aukist við afgreiðslu fjárlaga og tengdra frumvarpa, en þau furðulegu tíðindi eru nú engu að síður að gerast þessa dagana að með því sem hæstv. ríkisstjórn er að knýja fram stefnu sína ef stefnu skyldi kalla varðandi fjárlög, efnahagsráðstafanir eða ráðstafanir í ríkisfjármálum og svo lánsfjáráætlun, þá er það svo að upplausnin vex í efnahagsmálum með afgreiðslu þessara mála. Óróleikinn fer vaxandi frekar en minnkandi á vinnumarkaði. Sérstaklega á það við um alla opinbera starfsmenn og ýmsar þær ráðstafanir sem í fjárlögunum og hinum sérstöku ráðstöfunum sem hér voru afgreiddar áðan illu heilli felst og hefur þannig áhrif í reynd að það spillir fyrir og eykur á óvissu í þessum efnum. Þetta hygg ég að sé nánast Íslandsmet, hæstv. forseti, og merkilegt í reynd að ríkisstjórninni skuli lánast þetta svo illa að ekki einu sinni afgreiðsla fjárlaga og tengdra frumvarpa komi a.m.k. einhverri ró á varðandi eitthvert svið þjóðlífsins eða efnahagsmálanna. En það er ekki svo. Óvissan um opinberan rekstur á þessu nýbyrjaða ári hefur aldrei verið meiri en einmitt núna rétt eftir að fjárlögin hafa verið afgreidd. Það lýtur m.a. að því að það er allt út og suður varðandi framkvæmd hinna sérstöku ráðstafana og hins sérstaka niðurskurðar þannig að með ólíkindum er. Og sama á við um peningamarkaðinn, um vaxtastigið og síðast en ekki síst um ástandið á vinnumarkaðnum þar sem fyrir liggja yfirlýsingar allra helstu talsmanna samtaka launafólks um að afgreiðsla þessara frumvarpa ríkisstjórnarinnar torveldi í staðinn fyrir að auðvelda gerð kjarasamninga. Það var samdóma álit aðila vinnumarkaðarins þegar þeir komu til funda við efh.- og viðskn. þingsins að fjölmörg ákvæði, bæði í fjárlögunum sjálfum, í hinum sérstöku ráðstöfunum og sem með vissum hætti koma inn í frv. til lánsfjárlaga, spilltu stórlega líkunum á því að farsælir kjarasamningar gætu tekist.
    Á vegum Alþýðusambands Íslands hefur verið reiknað út að í hinum margvíslegu skattahækkunum ríkisstjórnarinnar á sérstaka hópa eins og barnafjölskyldur, sjómenn og fleiri og gjaldtöku ýmiss konar, t.d. í heilbrigðiskerfinu, felist 2% kjaraskerðing fyrir almenna launamenn í landinu --- og leiði menn nú augnablik hugann að því hversu vænlegt er til árangurs og líklegt til að auka frið á vinnumarkaði að leggja það nesti á borðið áður en eða vonandi rétt áður en viðræður hefjast um gerð almennra kjarasamninga að skerða kjör launafólks um 2% alveg aukalega og sérstaklega með þessum hætti. Og gera menn sér virkilega vonir um að baráttuþrek launafólks í landinu sé svo lítið að það láti sér þetta lynda þegjandi og hljóðalaust? Nei, auðvitað hlýtur það að verða nánast forsenda þess og krafa fyrir því að menn geti yfir höfuð sest niður til viðræðna að menn geri það a.m.k. á hreinu borði hvað þetta snertir. Þess vegna blasir við að e.t.v. verður það eitt af fyrstu verkum aðila vinnumarkaðarins áður en þeir geta í reynd hafið samningaviðræður, ef þá tekst að koma þeim í gang, að senda hæstv. ríkisstjórn þau skilaboð að þessu verði öllu að kippa til baka. Það sé óhjákvæmilegt. Það sé ekki hægt að byrja með 2% kjaraskerðingu í forgjöf í samningunum til viðbótar ýmsu öðru óréttlæti sem hér er verið að innleiða og skerta réttarstöðu launafólks t.d. í því tilviki að fólk missi vinnu sína vegna gjaldþrota fyrirtækja.
    Eitt er það að menn gætu haft trú á að við þessar aðstæður væru menn ekki með mjög miklar kröfur uppi um beinar launahækkanir í prósentum talið. Um það ætla ég ekki að dæma eða fjölyrða. En hitt hlýtur öllum að vera ljóst að enn síður við þær aðstæður að kaupmáttur hefur verið að skerðast undanfarna mánuði, að atvinnuástandið er ótryggt, að þeim fjölgar fyrirtækjunum sem verða gjaldþrota, er mögulegt fyrir verkalýðshreyfinguna að setjast niður til samningaviðræðna með margs konar réttindaskerðingu og 2% kaupmáttarskerðingu í öfuga forgjöf. Það er bara ekki þannig að það geti gerst, hæstv. forseti, --- og hvernig er það þá með hæstv. forsrh. sem landið hefur um þessar mundir og hæstv. fjmrh.? Væri hugsanlegt að þeir tylldu í þingsalnum á meðan verið er að ræða þetta mál?
    Ég vil alveg sérstaklega, herra forseti, undirstrika við lokaumræðu þessa síðasta frv. hæstv. ríkisstjórnar sem tengist fjárlögum og ríkisfjármálum núna við áramótin undirstrika hið mikla óvissuástand og upplausnarástand sem ríkisstjórninni hefur síður en svo tekist að eyða með málatilbúnaði sínum á Alþingi. Þvert á móti er margt á ferðinni sem stórlega torveldar þau mál. Það er nöturlegt að aðilar vinnumarkaðarins og þjóðin skuli á þessum tímum sitja uppi með svona ríkisstjórn sem í staðinn fyrir að vera búin að vinna að því síðan á miðju sumri að reyna að ná breiðri samstöðu um kjaramál áfram í anda þjóðarsáttar hefur ekkert gert sem jákvætt getur talist í þeim efnum, ekki einu sinni virt þessa menn viðlits, ekki talað við þá, ekki nennt að halda fundi með aðilum vinnumarkaðarins, gefið samninganefnd sinni þau fyrirmæli að tala ekki við opinbera starfsmenn nema senda þeim helst bréf um margs konar réttindamissi og kjaraskerðingu svona sem tilboð, jólaföstutilboð. En svo bætir ríkisstjórnin gráu ofan á svart og kórónar frammistöðu sína í þessum efnum með því að standa að afgreiðslu mála á þingi sem er yfirlýst að leggja stein í götu mögulegra viðræðna um gerð kjarasamninga. Það er algerlega yfirlýst að þessar álögur á launamenn, réttindaskerðingar, t.d. varðandi ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot og álögur á atvinnulífið eða vinnumarkaðinn í því sambandi sem Vinnuveitendasamband Íslands hefur harðlega mótmælt, allt þetta torveldar mjög þessum aðilum að setjast saman niður til innbyrðis viðræðna og gefur ekki miklar vonir um að jákvætt andrúmsloft geti ríkt frá upphafi slíkra viðræðna í garð ríkisvaldsins og þátttöku þess í einhverri víðtækri þjóðarsátt um kaup og kjör á næstu mánuðum. Þetta er með hreinum ólíkindum. Það er með hreinum ólíkindum, hv. alþm., vegna þess að saga undanfarinna áratuga segir okkur að flestar ríkisstjórnir, hvort sem þær hafa verið til hægri eða vinstri í íslenskum stjórnmálum, hafa þó borið gæfu til að meta og viðurkenna gildi þess og þýðingu að vel takist til í samningum um kaup og kjör. Og ríkisstjórnir jafnt til vinstri sem hægri á undanförnum áratugum hafa yfirleitt verið tilbúnar til þess og velviljaðar því að leggja sitt af mörkum gagnvart því að slíkir samningar gætu náðst. Það var að vísu a.m.k. á hluta viðreisnartímans að sögn meiri harka í samskiptum ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins og sérstaklega verkalýðshreyfinguna en síðan þá hefur verið og er þetta þá til marks um að þessi nýja Viðeyjarviðreisn ætli einnig að þessu leyti að hverfa aftur í tímann. Ýmis ummæli sem hafa fallið benda reyndar til þess svo sem eins og frá hæstv. fjmrh. sem í ræðu hér, að mig minnir rétt eftir áramótin, taldi að menn þyrftu að átta sig á þeim grundvallarmun að þingmenn stjórnarliðsins væru kjörnir og þeir yrðu bara að gera það sem þeim sýndist í þinginu og það yrði að hafa sinn gang og þyrfti ekki mikið að taka tillit til þess sem væri á dagskrá annars staðar úti í þjóðfélaginu.
    Þetta voru ákaflega óskynsamleg ummæli hjá hæstv. fjmrh. Vonandi hafa þau verið mælt í hugsunarleysi og bera ekki vott um að alvarlegustu áhyggjur manna um þessar mundir séu á rökum reistar gagnvart því að ekki bara sé ríkisstjórnin viljalaus og ólánssöm í verkum sínum gagnvart þessum hlutum heldur að verra gæti legið þar á bak við, sem sagt beinhörð afstaða ríkisstjórnar sem fæli þá í sér thatcherísk viðhorf eða viðhorf sem ríktu að hluta til á tíma hinnar gömlu ósælu viðreisnar að beita fullri hörku í samskiptum við samtök launafólks og aðila vinnumarkaðarins.
    Herra forseti. Þetta liggur allt saman fyrir hér og það er m.a. með vísan til þessarar óvissu og þessarar stöðu gagnvart kjarasamningum sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til að þessu máli yrði frestað, það væri ótímabært að ljúka þeirri vinnu sem tengist fjárlögum og ríkisfjármálum með afgreiðslu lánsfjárlaga enn sem komið er. Og það er merkilegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa velt þeim möguleika fyrir sér að láta þetta mál bíða í þinginu.
    Nú er það svo að oft og iðulega hafa lánsfjárlög ekki verið afgreidd fyrr en á útmánuðum. Það

er e.t.v. ekki til sérstakrar fyrirmyndar og eftirbreytni, en hefur þó ekki valdið neinum stórfelldum vandkvæðum við stjórn mála. Yfirleitt hefur það ekki gert það, hæstv. forsrh., að menn telja, enda mögulegt að leysa slík mál tímabundið með margvíslegum hætti. En kosturinn fyrir hæstv. ríkisstjórn, ef hún hefði hugleitt að skilja þetta mál eftir í þinginu opið a.m.k. fram í febrúarmánuð, hefði verið sá að ríkisstjórnin hefði átt þar útleið og möguleika á að taka í gegnum lánsfjárlögin við endanlega afgreiðslu þeirra, t.d. eftir að kjarasamningar væru komnir á dagskrá, ég segi nú ekki komnir vel áleiðis eða á lokastig, taka þá í gegn með afgreiðslu lánsfjárlaganna að lokum ýmsar þær ráðstafanir sem skynsamlegt hefði reynst og nauðsynlegt að gera til að innsigla einhverja kjarasamninga.
    Nei, ríkisstjórnin velur ekki þennan kost og var hann henni þó tiltölulega auðveldur og ekki hefði neinn héraðsbrestur orðið þó að hæstv. ríkisstjórn hefði haft vaðið fyrir neðan sig og beðið með afgreiðslu lánsfjárlaga af þessum sökum. En einnig í þessu efni er hæstv. ríkisstjórn heillum horfin og sér ekki hvað henni sjálfri ætti að vera fyrir bestu í þessu efni sem auðvitað hefði verið að eiga þarna áfram opna möguleika á að leggja eitthvað af mörkum í þessum efnum. Eða er það virkilega svo að það sé komin til valda á Íslandi ríkisstjórn sem skortir þennan skilning á þýðingu þess að vel takist til í samningum aðila vinnumarkaðarins? Er það kannski afstaða hæstv. ríkisstjórnar að það skipti engu máli? Manni finnst það stundum þegar hinar endalausu ræður eru haldnar hér um t.d. úrslitaþýðingu þess að hallinn á fjárlögum sé nákvæmlega 3,5 milljarðar eða 4 milljarðar en alls ekki 5 eða 2. Stundum tala hæstv. ráðherrar, sérstaklega fjmrh., eins og það sé algert úrslitaatriði og allt standi og falli með því. En á sama tíma virðast þeir ekki hafa ýkjamiklar áhyggjur af þeirri einu stóru breytu sem stendur langt upp úr öllu öðru í íslenskum þjóðarbúskap eins og yfirleitt annars staðar þar sem er ákvörðun launasummunnar í þjóðfélaginu sem er langstærsta einstaka breytan sem úrslitum ræður í okkar efnahagsmálum, líklega um 70% af þjóðarveltunni sem þar er á einu bretti afgreidd með tilteknum hætti ef tekin er heildarvelta launasummunnar sem hlutfall af okkar þjóðarbúskap. Jafnvel fjárlögin upp á sína rúma 100 milljarða eru lítil í samanburði við launasummuna í heild sinni í þjóðfélaginu. Þess vegna er það svo að flestir hafa borið gæfu til að átta sig á því hversu geysilega afdrifarík málin í samningum aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör eru nema þessi ríkisstjórn virðir að vettugi afstöðu Alþýðusambands Íslands, Verkamannasambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna og fjölmargra fleiri samtaka sem lagst hafa eindregið gegn því, beðið um það, mælst til þess með ýmsum hætti að ákveðin atriði sem lúta að afgreiðslu fjárlaga og ríkisfjármála á þessum tímamótum yrðu ekki látin ganga fram. Ég held að það hljóti að vera hæstv. forsrh., sem er nýr í starfi sínu, umhugsunarefni, a.m.k. í einrúmi, ef hann á einhverjar stundir einn með sjálfum sér, hæstv. forsrh., --- þær eru sjálfsagt fáar eins og hjá okkur fleirum þessa dagana --- hvort hann sé kannski kominn þarna út á dálítið þunnan ís.
    Herra forseti. Það hefur talsvert verið rætt í tengslum við frv. til lánsfjárlaga eins og eðlilegt er um vexti. Þar er á ferðinni ein ákaflega afdrifarík stærð í þjóðfélaginu þar sem eru vextirnir eða vaxtastigið. Það liggur fyrir að sú raunvaxtahækkun sem hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir á sl. vori hefur fært til í þjóðfélaginu 3--5 milljarða kr. síðan í maí sl. Á ársgrundvelli má áætla að um 4--7 milljarðar kr. færist til bara vegna vaxtahækkunarinnar frá skuldsettu atvinnulífi og skuldsettum heimilum í landinu yfir til fjármagnseigendanna, m.a. til eigenda Sameinaðra verktaka sem voru að borga sér svolitla skamdegisuppbót á launin í gær eða fyrradag, litlar 900 millj. kr. skattfrjálsar. Það er m.a. til þessa hóps eignamanna og forréttindastéttarinnar í landinu sem vaxtahækkunin frá sl. vori hefur fært gífurlegar fjárhæðir --- frá hverjum? Frá skuldsettum atvinnuvegum, sjávarútveginum t.d. þar sem tvíhöfða nefndin er núna að skoða um 70 milljarða skuldir sjávarútvegsins ef ég man rétt eða 100 milljarða og velta því fyrir sér hvort þessi burðarás íslenskrar útflutningsstarfsemi geti yfir höfuð nokkurn tíma endurgreitt þessar skuldir, a.m.k. miðað við núverandi rekstrarumhverfi. Það er m.a. frá sjávarútveginum, sem skuldar þessa 100 milljarða, sem peningar hafa verið færðir í vasann á liðinu sem stendur að Sameinuðum verktökum með sérstakri vaxtahækkun ríkisstjórnarinnar og frá skuldugum einstaklingum og fjölskyldum í landinu, ekki síst þeim sem ráðist hafa í að koma sér þaki yfir höfuðið á undanförnum árum og bera þungar byrðar af verðtryggðum lánum og okurvöxtum í því sambandi. En einnig í þessu efni, hvað vaxtamálin varðar, er ríkisstjórnin gersamlega heillum horfin. Þar situr allt fast og hæstv. fjmrh. heldur vöxtunum á ríkisskuldabréfunum föstum í um 8% raunvöxtum og fyrir liggja yfirlýsingar frá bankakerfinu um að meðan svo er gerist ekki neitt. Þá standi um 10% raunávöxtun verðtryggðra lána og 16--18% raunávöxtun skuldabréfa föst. Það er þannig að þeir sem eru að taka lán hjá t.d. Íslandsbanka þessa dagana og eru með svo veikan fjárhag sem einstaklingar eða fyrirtæki að lenda niðri í lánsflokki C borga 18% raunvexti, hæstv. fjmrh., af slíkum lántökum. Einnig hér liggur það fyrir að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins eru algerlega sammála um að það sé ógerlegt og óhugsandi að nokkur sátt geti tekist á vinnumarkaði að óbreyttu vaxtastigi. Það er alveg sama hvor kemur í sjónvarpið eða útvarpið, Einar Oddur, Þórarinn V., Ásmundur Stefánsson, Björn Grétar eða Ögmundur, þeir eru allir hjartanlega sammála um að í öllu falli geti þetta ekki gengið svona. Vextirnir verði að lækka. En hvað hefur gerst? Hefur ríkisstjórninni orðið eitthvað ágengt í þessum efnum? Svarið er nei. Þvert á móti situr allt fast og hið háa raunvaxtastig, okurvextirnir, eru frosnir fastir m.a. vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki getað bakkað út úr ógöngunum sem hún kom sjálfri sér í með vaxtahækkuninni í maí sl.
    Enn eru það svo að lokum, hæstv. forseti, nokkur orð um forsendur þessa alls, þ.e. þær forsendur og þá þjóðhagsspá og horfurnar sem fjárlögin, lánsfjárlögin, ráðstafanirnar og allt þetta ,,gúmmolaði`` á nú að byggja á. Þrisvar til fjórum sinnum hefur þurft að taka þá hluti upp og endurskoða á þessu hausti og þessum vetri og enn er það svo að nú í janúarmánuði eru þessar aðstæður sjáanlega að breytast nokkuð og sem betur fer í þetta sinn að flestu leyti til jákvæðrar áttar að ég tel, þ.e. það liggur fyrir að sjávarafli verður að líkindum meiri á þessu ári en menn höfðu áður spáð, bæði loðnuveiði og rækjuveiði, og e.t.v. lítur ástandið heldur betur út með verðmæti þess sjávarafla en menn höfðu áður ástæðu til að ætla. Olíuverð er á niðurleið og það þýðir bætt viðskiptakjör auk þess sem þau eru að öðru leyti tiltölulega hagstæð. Og það var svo broslegt sem það nú er að einmitt núna í morgun komu í blöðunum upplýsingar um það frá Þjóðhagsstofnun að það væri ástæða til að fara enn einu sinni yfir þjóðhagsforsendurnar því að þær væru greinilega að breytast. Guð láti gott á vita að þetta gangi nú eftir og menn geti með hækkandi sól farið að rífa sig upp úr svartsýniskastinu sem hæstv. ríkisstjórn hefur komið mönnum í á þessu hausti og haft alveg sérstaka forgöngu um það, alveg frá miðju sumri reyndar þegar hæstv. forsrh. upphóf sína svartagallsraust um fortíðarvandann og hinar dökku kringumstæður allar.
    Þegar ríkisstjórnin lagði fram efnahagsstefnu sína og þjóðhagsáætlun birtist á öndverðu hausti voru sérstaklega dregin fram tvö stór mál sem væru fánarnir í þessu fylkingarbrjósti ríkisstjórnarinnar hvað efnahags- og atvinnumál snertir á komandi mánuðum og missirum. Það var bygging álvers og það voru samningar um Evrópskt efnahagssvæði. Hvort tveggja í senn voru af talsmönnum ríkisstjórnarinnar talin vera mikil stórmál og úrslitamál um velgengni íslensks atvinnulífs og efnahagslífs á næstu mánuðum og árum. Og frv. sem við erum að ræða í dag er enn þannig úr garði gert, þ.e. frv. sjálft, upphaflega þingskjalið, að í 4. gr. þess 1. tölul. stendur að Landsvirkjun eigi að taka að láni 6.650 millj. kr. á næsta ári, þ.e. því ári sem nú er í garð gengið, og meira að segja á aumingja Vatnsleysustrandarhreppur að taka að láni 500 millj. kr. til hafnarframkvæmda á þessu ári. Það mun að vísu hafa fallið út við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr., en eftir sem áður er mönnum stundum frv. í hendi eins og það var lagt fram hérna í byrjun, hv. þm., (Gripið fram í.) og þar standa þessi ósköp. Nú verður ekkert álver byggt og eins og segir í ágætri vísu sem var kveðin hér á Alþingi: Álver sem enginn byggir/er ekki mikils virði. Það er svo.
    Þegar það var ljóst með álverið að ekkert yrði úr því og allar hinar fjölmörgu skrautsýningar og undirskriftir hæstv. iðnrh. höfðu verið til einskis og sennilega, eins og við vöruðum hann við, jafnvel spillt fyrir málinu barnalegir tilburðir til að knýja fram gagnslausar og einskis nýtar undirskriftir um álver sem aldrei verður byggt, hvað gerðu talsmenn ríkisstjórnarinnar þá? Mér er það mjög vel í fersku minni. Þeir hörfuðu í síðasta vígið sem eftir var, EES. EES er það, lausnarorðið í þrengingum íslenskra atvinnuvega og íslensks efnahagslífs. Það verður EES sem bjargar þessu þrátt fyrir allt, þó að ekkert álver komi. En svo er þetta vígi fallið. Og það var hæstv. forsrh. sjálfur sem gaf því þá miklu einkunn að það þyrfti kraftaverk að gerast til þess að Evrópusamningarnir næðust og hinn sleipi stjórnmálamaður Uffe Elleman Jensen sagði: ,,Ja, men jeg tror på mirakel`` og leysti vandann þannig snilldarlega og gætu íslenskir stjórnmálamenn greinilega lært ýmislegt af þessum Dana í þrengingum, í kastþröng í viðskiptum við fréttamenn. ,,Ja, men jeg tror på mirakel``, sagði Elleman og þar með var það leyst. En forsrh. sló þetta af með þessum afdráttarlausa hætti.
    Þetta var svipuð líking og þegar knattspyrnulið okkar Norðlendinga, IBA, var einu sinni í ákaflega erfiðri stöðu í 1. deild, hafði fengið eitt stig þegar tveir leikir voru eftir í mótinu og fréttamaður spurði þjálfarann: En er ekki nokkurn veginn öruggt að liðið falli? Og þjálfarinn sagði: Ja, það eru svona svipaðar líkur fyrir okkur að halda okkur í deildinni og fyrir mann sem dettur út úr flugvél á miðju Atlantshafinu. Og þetta reyndust orð að sönnu. Það voru ekki miklar líkur og liðið féll. Ég held að það megi orða þetta eitthvað svipað með EES. Kraftaverkið er um það bil svo stórt sem þyrfti að gerast eins og maður sem vaknar allt í einu upp úti á miðju Atlantshafi og hefði ekkert nema hendurnar til að komast til lands.
    Og þar með er þetta vígi einnig fallið og þess vegna er óhjákvæmilegt að draga upp þessa mynd og spyrja hæstv. ríkisstjórn að því: Hvað er það þá sem hæstv. ríkisstjórn hefur til málanna að leggja í þessum efnum, þegar þessi tvö stóru mál sem voru af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar sjálfrar útlistuð sem sérstakar undirstöður efnahags- og atvinnustefnunnar á komandi mánuðum eru hér að engu orðin? Og þær breytingar hafa verið gerðar á frv. að í staðinn fyrir að Landsvirkjun taki í lán til framkvæmda innan lands á þessu ári hátt á 700. millj. kr. framkvæmdir hún fyrir nokkur hundruð millj. kr., að mestu leyti fyrir eigið aflafé. Hefur að vísu lántökuheimildir upp á um 800 millj. sem fyrst og fremst eru lántökuheimildir, að ég skil það, til að koma á móti afborgunargreiðslum hennar og framkvæmd að lokum í Blöndu og slíkum hlutum. Og ég held að það séu ekki miklar líkur á að Vatnsleysustrandarhreppur standi í hafnarframkvæmdum upp á 500 millj. fyrir eigið aflafé úr því að hann hefur ekki lengur þá lántökuheimild sem var á ferðinni.
    Þetta er, hæstv. forseti, mikið umhugsunarefni við lokaafgreiðslu lánsfjárlaga, hvernig hornsteinar efnahags- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar, þeir litlu sem fyrirfundust og voru af hennar hálfu tíundaðir í haust, eru nú í burtu teknir og húsið hlýtur því að standa harla veikt og því hlýtur að vera fokgjarnt, þessu hátimbraða húsi, atvinnustefnu hæstv. ríkisstjórnar.
    Það er mér mikið áhyggjuefni og mikið umhugsunarmál vegna þess að ég er sannfærður um að ef það er eitthvað sem við Íslendingar þurfum á að halda til að rífa okkur upp úr doðanum fyrir utan að skipta um ríkisstjórn er það að reyna að blása nýju lífi í og hleypa þrótti í atvinnustarfsemina og nýsköpun og uppbyggingu á því sviði. Það er algerlega lífsnauðsynlegt, hæstv. forseti. Og einhver mýraljós eins og EES eða álver sem aldrei rísa gera ekkert annað en þvælast fyrir okkur í þeim efnum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar og er ekki einn um það að telja að málflutningur ríkisstjórnarinnar og sérstaklega hæstv. utanrrh. um að EES gæti orðið það bjargráð sem þá var rætt um hafi verið út í hött. Þar var með engum sannfærandi rökum sýnt fram á hvernig þessir samningar ættu að koma okkur í einhverjum veigamiklum atriðum til góðs, a.m.k. í framtíðinni sem nær okkur liggur. En hvað sem því nú líður og hvort sem tiltrú manna á því að samningar um Evrópskt efnahagssvæði hefðu til viðbótar álverinu getað orðið einhver lyftistöng eða ekki liggur hitt ósköp einfaldlega fyrir að þetta er nú hvort tveggja fallið. Og þess vegna er, hæstv. forseti, verið að afgreiða frv. til lánsfjárlaga á brostnum forsendum og úreltum og við þær átakanlegu aðstæður að hæstv. ríkisstjórn hefur enga atvinnustefnu og enga efnahagsstefnu fram að færa þjóðinni á þessum tímamótum.
    Það er þess vegna að vonum, hæstv. forseti, að við í stjórnarandstöðunni viljum ekki bera ábyrgð á frv. og munum ekki greiða götu þess fram á veginn og satt best að segja undrar mig stórlega að ríkisstjórnin skuli ekki hafa hugleitt, eins og ég sagði áður, þann kost að bíða með þetta mál, a.m.k. um sinn, átekta og sjá hverju fram vindur annars staðar í þjóðfélaginu. Greinilegt er að ríkisstjórnin sjálf hefur ekki frumkvæði að neinu, en það hefðu þó verið hyggindi af hennar hálfu að bíða átekta og sjá til hvort aðrir aðilar gætu leyst málin, þ.e. þá fyrst og fremst aðilar vinnumarkaðarins, en því miður virðist niðurstaðan sú að einnig í þessum efnum er hæstv. ríkisstjórn gersamlega heillum horfin.
    Herra forseti. Þetta kann að verða síðasta ræðan sem sá sem hér talar flytur að sinni í þessari lotu umræðna um ráðstafanir í ríkisfjármálum, lánsfjárlög, Hagræðingarsjóð og annað sem hér hefur staðið á þinginu og eru það talsverð tímamót að manni finnst eftir þau ósköp sem hafa yfir gengið á sl. tveimur mánuðum í desember á árinu 1991 og í janúar á nýbyrjuðu ári 1992.
    En það er að lokum ljóst að eigi hér að takast betur til en á horfist erum við ekki að sjá þessi mál í síðasta sinn. Það er eitt sem er algerlega borðleggjandi og öruggt, að eigi okkur Íslendingum að hlotnast sú farsæld á árinu að þeim stórslysum og skerjum öllum sem fram undan eru verði fram hjá komist, þá munu þessi mál þurfa að koma fyrir Alþingi á nýjan leik og þeim þarf að breyta í veigamiklum mæli, fjárlögunum, lögunum um ráðstafanir í ríkisfjármálum og að sjálfsögðu mun þá einnig þurfa að taka upp áform um lántökur innan lands og utan á árinu. Þess vegna kann svo að fara að að nokkru leyti hafi það verið tímasóun, sérstaklega hjá hæstv. ríkisstjórn, að reyna að knýja þessi mál með jafnóskynsamlegum hætti og raun ber vitni í gegnum Alþingi því að hún verður fyrr eða síðar og vonandi rekin til þess að koma með þau fyrir þingið á nýjan leik og lagfæra þau.
    Herra forseti. Ég lýk þá máli mínu rétt um hádegisbilið 23. janúar um þetta lánsfjárlagafrv.