Lánsfjárlög 1992

74. fundur
Fimmtudaginn 23. janúar 1992, kl. 12:27:00 (3251)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég skal gera tilraun til að svara þessari fyrirspurn hv. 2. þm. Suðurl.
    Það er rétt, sem hann segir, að það er gert ráð fyrir að á allra næstu dögum verði safnliðum dreift á ákveðin viðfangsefni í fjárlögum og enn fremur að forstöðumenn fyrirtækja og stofnana og aðrir þeir sem fara með ábyrgð á framkvæmd fjárlaga skili greiðsluáætlunum fyrir þetta ár. Við gerum ráð fyrir því að um 10. febrúar liggi þessi vinna fyrir og ég skal gera mitt besta til að gefa upplýsingar um hvernig þessum safnliðum hefur verið ráðstafað.
    Í fjárlögum eru safnliðirnir settir inn í viðkomandi ráðuneyti í heilu lagi og ráðherrum ætlað að deila þeim út samkvæmt lýsingu sem kemur jafnframt fram í lagagr. fjárlaganna, en mér finnst vera eðlilegt og eðlileg krafa af hálfu fjárveitingavaldsins að þegar þessi vinna liggur fyrir þá verði niðurstöðunni komið á framfæri. Í hvaða formi það verður get ég ekki sagt á þessari stundu, en tel að við getum fundið okkur það þegar þing kemur saman aftur.
    Varðandi ummæli hv. þm. um fjarstýringu mína á forseta held ég að hér gæti nokkurs misskilnings og ég held að hv. þm. hafi verið fullfljótur á sér að trúa hv. 8. þm. Reykn. sem gerði þetta að sjónarspili í gær þegar ég átti orð við hæstv. forseta. Það eina sem ég var spurður um og benti á í leiðinni af því að leitað var ráða var hvort 3. umr í þessu máli hefði hafist eða ekki eða væri að hefjast. Það var nú öll fjarstýringin. Og af því tilefni er mér ljúft að rifja upp að sú var tíðin hér á hinu háa Alþingi að hv. 2. þm. Suðurl. sat í forsetastól sem forseti sameinaðs þings og við hlið hans hægra megin sat þá ungur þingmaður, sem stendur í þessum stól núna, og ég man ekki betur en á milli okkar hafi oft farið ýmis orð og stundum hafi mér tekist að benda honum á eitthvað sem betur mátti fara og hann oftar mér án þess að við töluðum um nokkra fjarstýringu í því sambandi.