Slippstöðin á Akureyri

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:37:00 (3269)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að koma fram með fsp. til hæstv. fjmrh. á þskj. 211, um Slippstöðina á Akureyri, sem hljóðar svo:
    ,,1. Á hvern hátt mun ríkisstjórnin bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu Slippstöðvarinnar á Akureyri?
     2. Mun ríkissjóður að einhverju leyti taka á sig þann gífurlega fjármagnskostnað sem safnast hefur upp síðan 1987 vegna smíða á svokölluðu B-70 skipi sem nú er nýselt til Vestmannaeyja?``

    Ástæða þess að ég kem fram með þessa fsp. er sú að fjárhagsstaða fyrirtækisins er mjög erfið og tap hefur verið á rekstrinum fjögur ár í röð og sennilega aldrei meira en á sl. ári þótt endanlegar niðurstöðutölur rekstrar liggi ekki fyrir.
    Forráðamenn fyrirtækisins telja að 130 millj. kr. vanti inn í fyrirtækið til að það geti aftur náð eðlilegum rekstrargrundvelli. Aðalástæður þess að svona er komið fyrir þessu fyrirtæki eru tvær. Í fyrsta lagi sú að nýsmíðar hafa svo til algerlega færst úr landi á síðustu árum fyrir tilskuðlan ríkisstyrkja með skipasmíðum erlendis, sem er mál sem oft hefur komið til umfjöllunar hér á hv. Alþingi, og hins vegar er ástæðan sú að stöðin sat uppi með skip í mörg ár, svokallað B-70 skip, sem ekki seldist og safnaði á sig gífurlegum fjármagnskostnaði. Samtals eru það líklega um 80--90 millj. kr. umfram það sem gæti talist eðlilegt. Tapið á smíði B-70 skipsins var í heild um 180 millj. kr.
    Á síðasta kjörtímabili kom Slippstöðin á Akureyri oft til umfjöllunar hér á hv. Alþingi vegna frv. um gjald á erlendum lánum í skipasmíðaiðnaði. Þetta frv. var lagt fram af núv. hæstv. samgrh., hv. 2. þm. Norðurl. e., þar sem var lagt til að gjaldið yrði endurgreitt. Það mál náði ekki fram að ganga. En þáv. fjmrh. gaf forsvarsmönnum fyrirtækisins góð orð um að þegar skipið yrði endanlega selt og fyrir lægi hversu mikill fjármagnskostnaður hefði safnast upp á þetta skip tæki ríkissjóður hugsanlega á sig einhvern hluta hans. Þetta eru aðalatriðin sem ég vil að komi hér fram sem greinargerð með fsp.