Slippstöðin á Akureyri

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:48:00 (3273)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Mig langar að minnast á örfá atriði. Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. fyrirspyrjanda að gífurlegur samdráttur hefur orðið í starfsemi Slippstöðvarinnar hf. Það sama má segja um fjölmörg önnur fyrirtæki í sömu grein eins og ég veit að hv. alþingismenn þekkja. Á morgun verður stjórnarfundur í fyrirtækinu og þá verða þessi mál til umræðu eins og svo oft áður. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði áðan að stjórnarmenn fyrirtækisins, þeir sem eru á vegum íslenska ríkisins, hafa fyrirmæli um að velta upp þeim hugmyndum sem til greina koma við lausn á vandamálum fyrirtækisins.
    Ég minntist á að hugsanlega kæmi nýtt hlutafé inn frá öðrum en þeim sem nú eiga hlut í fyrirtækinu sem eru að langstærstum hluta ríkið, Akureyrarbær og að litlum hluta Eimskipafélag Íslands og síðan enn minni aðilar. Á staðnum eru sterk fyrirtæki sem hafa gagn af þessari þjónustu og skipasmíðastöð og ætla ég ekki að fara frekar út í þá sálma. En vegna orða hv. þm. vil ég að það komi mjög skýrt fram um leið og ég þakka traust sem mér er sýnt í þessu máli ( Gripið fram í: Sem öðrum.) já, sem öðrum, ég þakka hv. frammíkallanda, þá hefur ráðherra kynnt sér fyrirheit fyrrv. ríkisstjórnar í þessum málum og fjölmörgum öðrum sem fyrir liggja og sum hver eru ansi dýr.