Slippstöðin á Akureyri

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:57:00 (3278)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að skýra frá því að í fyrirspurnatímum getur ráðherra ekki talað nema tvisvar og þess vegna er mér alveg ógerlegt að svara því sem fram kom hjá hv. 8. þm. Reykv. sem virtist, að mínu mati, vera óþarflega viðkvæmur fyrir þeim svörum sem ég gaf. Ég fyrirgef hv. þm. það sem hann sagði af því að ég hygg að hann hafi ekki hlustað á svar mitt við fyrirspurninni þar sem greinilega kom fram að unnið er að þessu máli sem og öðrum málum sem varðar það sem hér er til umræðu, þ.e. skipasmíðar hér á landi. Ljóst er að verkefnaskorturinn bitnar á skipasmíðastöðvum og hv. þm. þarf ekkert að koma upp og segja að hann og hans ríkisstjórn hafi gefið fyrirheit sem við höfum ekki staðið við. Það eina sem ég hef sagt er að í fjmrn. er fullt af fyrirheitum sem liggja fyrir og við höfum skoðað. Auðvitað gerum við það sem við teljum okkur geta gert í þeim málum sem upp koma hverju sinni. Það er óþarfi fyrir hv. þm. að vera viðkvæmur og sýna þennan árásarhug og ég held hann geti vel geymt sér það því svo sannarlega erum við tilbúnir til að ræða þessi mál þegar til umræðna um skipasmíðaiðnaðinn kemur samkvæmt frv. sem nú liggur fyrir.