Slippstöðin á Akureyri

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 10:59:00 (3280)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að ég sé eitthvað viðkvæmur fyrir orðum hans. Hins vegar var alveg ljóst í þeirri ræðu sem ég flutti að hann fór að slá þær ómerkilegu keilur að vandi skipasmíðastöðvarinnar á Akureyri sem núv. ríkisstjórn þyrfti að glíma við væri arfleifð frá síðustu ríkisstjórn. Það sem ég gerði var að rekja hvernig Sjálfstfl. hafði beitt sér fyrir því að smíðað var skip í Slippstöðinni án þess að það væri kaupandi og án þess að það væru veiðiheimildir. Það er eina raunverulega ástæðan fyrir vanda Slippstöðvarinnar á Akureyri.
    Fyrst umræðan hefur þróast á þessa braut held ég að nú sé réttast, virðulegi forseti, að verða við þeim óskum sem hv. þm. Svavar Gestsson bar fram að það frv. sem hann og fleiri hafa flutt verði tekið til umræðu strax í næstu viku svo að hægt verði að ræða þessi mál ítarlega án þess að vera með þær þröngu skorður sem fyrirspurnatími veitir. Ef ræða hæstv. fjmrh. hér áðan gefur til kynna að ekki sé nokkur efi í huga hans um að staðið verði við fyrirheit sem gefin voru fyrir tæpum tveimur árum til lausnar þeim vanda sem Sjálfstfl. skildi eftir sig, þá er það gott og vel. En þá skil ég ekki lokaorðin í ræðu fjmrh. nema byrðarnar frá skuldadögum Sjálfstfl. séu orðnar svo miklar að hæstv. fjmrh. þurfi að væla yfir þeim í ræðustól nánast í hvert skipti sem hann kemur upp.