Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:20:00 (3290)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Varðandi framhaldsskólastigið er svar mitt við fsp. hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur þetta:
    Kennsla í fjármálaumsýslu er nokkur á ýmsum brautum framhaldsskólans. Á verslunarbrautum og hagfræðibrautum er talsvert mikil kennsla í bókfærslu, skattarétti, rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði. Á öllum iðnbrautum er áfangi í bókfærslu þannig að allir verðandi iðnaðarmenn fá nokkra kennslu í fjármálaumsýslu.
    Fyrir nokkrum árum var tekin upp tilraunakennsla í svokölluðum samskiptaáfanga í nokkrum framhaldsskólum. Í þessum áfanga er nokkuð farið í fjármál einstaklinga. Þessi áfangi þykir lofa góðu og má búast við að flestir framhaldsskólar taki hann upp á næstunni.
    Varðandi grunnskólastigið er svar mitt þetta: Þingsályktun um fræðslu í fjármálaumsýslu sem samþykkt var á Alþingi 12. mars 1991 var kynnt Námsgagnastofnun sl. vor. Í þegar útgefnu námsefni eða námsefni sem var í samningu á vegum Námsgagnastofnunar á síðasta ári er fjallað almennt um fjármál og fjármálaumsýslu svo sem í samfélagsfræði og heimilisfræði. Engu að síður var það álit margra skólamanna að ekki veitti af aukinni umfjöllun um þessi mál meðal unglinga. Nokkur dæmi eru um frumkvæði að fræðslu um fjármál.
    Í Dalvíkurskóla var gerð tilraun með sérstaka námsbraut fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla, svokallaða sjálfsmennskubraut. Meginmarkmið þeirrar fræðslu var að nemendur yrðu ábyrgir í eigin fjármálum, fengju þjálfun í að gera fjárhagsáætlanir og öðluðust þekkingu á almennum bankaviðskiptum. Menntmrn. styrkti þetta verkefni og fylgist með framgangi þess.
    Bankar og sparisjóðir hafa sýnt þessu máli áhuga. Íslandsbanki hefur látið semja sérstakt námsefni sem notað er í starfsfræðslunámi í Reykjavík. Annast bankinn kennsluna sem fer fram í Gerðubergi. Þá hefur Sparisjóður Hafnarfjarðar látið semja hliðstætt námsefni sem öllum nemendum í 10. bekk í Hafnarfirði stendur til boða. Sparisjóðurinn leggur einnig til leiðbeinendur. Nemendur og foreldrar hafa látið mjög vel af þessu framtaki og efninu.
    Nú standa yfir viðræður milli Námsgagnastofnunar og fulltrúa banka og sparisjóða um útgáfu á námsefni um fjármálaumsýslu. Unnið er að kostnaðaráætlun og öðrum undirbúningi með það fyrir augum að námsefnið verði til reiðu fyrir efstu bekki grunnskóla haustið 1992. Einnig hafa komið fram hugmyndir um námsgögn við hæfi yngri nemenda. Ræddar eru hugmyndir um að bankakerfið styrki útgáfu efnisins fjárhagslega og að nýttar verði hugmyndir úr því efni sem tilraunir hafa verið gerðar með. Einnig er mikilvægt að taka mið af þeirri reynslu sem frumkvöðlar í fræðslu um þessi mál hafa aflað sér.