Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:24:00 (3291)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ánægjulegt er að heyra að Sparisjóður Hafnarfjarðar og Íslandsbanki hafa tekið að sér að búa til námsgögn í íslenska skólann. Ekki veitir af hjálp einhvers staðar frá.
    Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli manna á því leikriti sem hér fer fram. Einn öflugasti og ötulasti stuðningsmaður núv. ríkisstjórnar, hv. 11. þm. Reykn., er að spyrja um aukna kennslu í grunnskóla og framhaldsskóla á meðan verið er að skera niður tímafjölda í öllum skólum. Ég hlýt að spyrja: Hvað á þetta að þýða? Á síðasta kjörtímabili var unnið ötullega að því að efla skólann með nýjum lögum um grunnskóla og leikskóla. Rætt var um að efla verkmenntun í skólum, rætt var um skólamáltíðir og flest það sem hv. þm. hafa verið að berjast fyrir árum saman. Öllu þessu hefur verið snúið við og frestað með öflugum stuðningi hv. fyrirspyrjanda. Nú kemur hún og fer að spyrja ráðherra sinn hvort ekki eigi að taka upp kennslu í fjármálaumsýslu. Ég hlýt að spyrja: Í hvaða tímum? Þessum sem lagðir hafa verið niður?