Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum

75. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:25:00 (3292)

     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka menntmrh. ágæt svör og fagna því að tilraunakennsla hefur verið tekin upp í þeim framhaldsskólum sem hann greindi frá og einnig að verið er að gera tilraunir í sérstökum áföngum í grunnskólanum.
    Mér var fullkunnugt um þau námsgögn sem fyrir hendi eru þar sem fjallað er almennt um afmarkaða þætti þess sem ég spurði um. Reyndar kom það fram í nefnd þegar málið var til umfjöllunar. En eins og kom líka fram þar sem þessi gögn hafa verið notuð hefur það verið í valkennslu og í sumum skólum hafa nákvæmlega þessi gögn alls ekki verið notuð. Og um það snerist umfjöllun þeirrar tillögu sem hv. 14. þm. Reykv. stóð að, ef ég man rétt. Alla vega tók þingmaðurinn þátt í framsögu og studdi þetta mál dyggilega og þakka ég fyrir það.
    Það kom líka fram við umfjöllun málsins og í máli mínu að þá þegar voru þau starfskynningarnámskeið sem vísað er í hjá Íslandsbanka komin vel í gang og voru tilraunaverkefni með stuðningi menntmrn. og Reykjavíkurborgar sem lagði til húsnæði. Mjög vel hefur verið látið af þeim en á það bent að ekki væri nægilega gott að hafa umfjöllun um málið sem valkost heldur væri mjög æskilegt að flétta það inn í lögbundið námsefni.
    Hv. 14. þm. Reykv. gagnrýndi mig fyrir að koma og spyrja um aukna kennslu á niðurskurðartímum. Það er alveg hárrétt að ég hef stutt og styð ríkisstjórnina og hún hefur verið að skera niður. Það hefur líka komið fram aftur og aftur að þeim þáttum sem hefur verið frestað núna í grunnskólalögunum, sem hún vísaði til, hefur verið frestað á þessu ári. Ég trúi því að þeir erfiðleikar sem við erum að fara í gegnum nú verði leystir og sannarlega ætla ég að halda áfram að líta til framtíðar með þau mál sem betur mega fara. Þetta er einn af þeim þáttum sem við hljótum öll að vera sammála um að eigi að vera í grunnskóla og fyrstu bekkjum framhaldsskóla. Að sjálfsögðu mun ég berjast dyggilega fyrir því að þetta geti orðið, jafnvel þótt hægt gangi.