Varnir gegn vímuefnum

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 11:47:00 (3294)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er eins og fram kom í máli hv. 11. þm. Reykn. þannig að þetta mál, vímuefna- og fíkniefnavandi, hefur býsna oft verið til meðferðar hér á hv. Alþingi með þeim hætti að menn hafa flutt tillögur til þingsályktunar, fyrirspurnir o.fl. í þeim dúr. Menn hafa einnig flutt tillögur um breytingar á fjárlögum varðandi t.d. möguleika Áfengisvarnaráðs og heilbrrn. til að taka á þessum málum. Í rauninni má segja að í þessum málaflokki stöndum við kannski frammi fyrir því ekki síður en í mörgum öðrum að eftir áramótin birtist venjulega hinn almenni jákvæði vilji þingmanna til þjóðfélagsumbóta en fyrir áramótin erum við að saxa niður fjárlögin og draga úr ríkisútgjöldunum. Staðreyndin er sú, eins og víðar annars staðar, að ef eitthvað á að gera í þeim málum sem hér um ræðir, þá þarf peninga, það þarf fjármuni og í raun og veru sáralitla fjármuni miðað við þann alvarlega vanda sem hér er um að ræða úti í þjóðfélaginu og það hvað kostnaðarsamur hann er. Hann er gríðarlega dýr fyrir einstaklinga, fyrir sveitarfélög, fyrir ríki, heilbrigðisstofnanir og aðra aðila og þá er ég bara að tala um fjármunina, að ég minnist ekki á hin mannlegu sárindi sem verða auðvitað aldrei reiknuð út með sama hætti.
    Ég tel hins vegar að þær almennu hugmyndir sem hér er hreyft í tillögum hv. þm. Alþfl. séu allra góðra gjalda verðar og það sem vantar hér sé ekkert annað en ákvörðun um að t.d. á þessu ári verði varið einhverjum tilteknum fjármunum í þessu skyni og að á Alþingi bindist menn samtökum um það, þvert á alla flokka, að verja verulegum fjármunum í þessu skyni til að auka varnir gegn vímuefnum á árinu 1993. Menn bindi sig fasta í þeim efnum og ákveði að standa við það. Og ég held að það sé mikilvægast að það verði gert vegna þess að um hinn góða vilja efast enginn í þessu efni en góður vilji gerir litla stoð ef ekki eru til fjármunir.
    Ég tel að vandinn við að taka á þessum málum sem hér um ræðir hafi aðallega verið tvíþættur á undanförnum árum. Annars vegar fjárhagslegur og hins vegar stjórnkerfislegur, ef svo má að orði kveða. Vímuefnavandamál spyrja ekki um heimilisfang, þau spyrja ekki um ráðuneyti, þau eru þvert á ráðuneyti. Þau snerta auðvitað öll ráðuneyti. Þau snerta menntmrn., þau snerta heilbrrn., þau snerta dóms- og kirkjumrn., þau snerta fjmrn. Vandinn hefur verið sá að mjög erfitt hefur verið að fá þessi ráðuneyti til að vinna saman með eðlilegum og faglegum hætti og fallast á að eitthvert eitt þeirra fari að lokum með það mál sem um er að ræða á hverjum tíma. Ég þekki þetta afar vel úr samstarfsnefnd um fíkniefnavarnir sem starfaði á vegum nokkurra ráðuneyta á síðustu missirum. Þessi nefnd fór af stað með myndarlegum hætti og setti sér tiltekna dagskrá. Ég hygg að hún hafi haft hliðsjón til að byrja með af því áliti sem birtist á árinu 1987. Niðurstaða þessarar nefndar var sú að það væri í raun og veru langsamlega brýnast að koma á fót meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur. Það væri langbrýnasta verkefnið. Niðurstaða þessarar nefndar, eftir mjög vandlega, faglega umfjöllun, var sú að skynsamlegt væri að það gerðist í tengslum við Unglingaheimili ríkisins, þ.e. starfsemi sem var til hvort eð er og sérfræðiþekkingu sem var til hvort eð er, til þess að setja ekki upp nýja stofnun sem yrði enn þá dýrari þar sem um væri að ræða kannski tvöföldun á faglegum starfskröftum frá því sem ella hefði verið.
    Það er alveg ljóst að þessi ákvörðun, sem ríkisstjórnin tók á sínum tíma og Alþingi féllst á að lokum, kom að nokkru leyti þvert á þær hugmyndir sem höfðu verið uppi um stofnun heimilis í Krýsuvík. Ég

er hins vegar þeirrar skoðunar, var þá og er enn, að þessi niðurstaða varðandi meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur, Tinda, hafi verið mjög skynsamleg vegna þess að þarna var safnað saman þeirri sérfræðiþekkingu sem til var í landinu og á Tindum hafa þegar dvalist tugir ungmenna sem hafa fengið þar mjög góða meðferð að mörgu leyti. Í framhaldi af meðferðinni á Tindum er um að ræða tiltekna endurhæfingu og endurmenntun sem einnig er kostuð úr ríkissjóði. Ég held satt að segja að meðferðarheimilið að Tindum sé allrar athygli vert og ég vil benda þeim þingmönnum á, sem eru að kynna sér þessi mál, að fara í heimsókn að Tindum og fara yfir þau prógröm sem þar er verið að vinna eftir og einnig að fara yfir að einhverju leyti vanda þess unga fólks sem þar hefur verið þ.e. hvernig vandi þess er til kominn og hvert fólk fer eftir að hafa verið á Tindum.
    Ég vil einnig segja að ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt að það tókst á síðustu árum að koma því fyrir í aðalnámskrá grunnskóla að varnir gegn vímuefnum og fíkniefnum væru hluti af grunnskólastarfinu, algjörlega ófrávíkjanlegur hluti af grunnskólastarfinu. Til þess að undirbúa þetta var varið árlega 1989, 1990 og 1991 1,5 millj. kr. í sérstök fræðsluverkefni til þess að þróa starf sem gæti orðið öðrum grunnskólum eða öllum grunnskólum til styrktar á þessu sviði á komandi árum. Ég tel að þetta skipti mjög miklu máli og er í raun viðbót við það sem ég ætlaði að koma að næst sem er Lions-quest verkefnið sem Lions-hreyfingin fór af stað með og við ákváðum að styðja á sínum tíma. Ríkið lagði fram verulega fjármuni, ég hygg á milli 5 og 10 millj. kr. í þetta verkefni, ég man ekki nákvæmlega hvað það var mikið, og m.a. með sérstakri aukafjárveitingu á árinu 1991. Það er þáttur af hinum mikla fortíðarvanda sem stundum er talað um hér í öðru samhengi úr þessum ræðustól, það var 1,5 eða 2 millj. sem fóru í þetta Lions-quest verkefni.
    Ég tel að þarna hafi sem sagt verið um að ræða mjög myndarlegar ákvarðanir og byggja eigi á þeim áfram. Menn þurfa að gæta þess að nota þá þekkingu og reynslu sem er til og byggja á þeim áfram. Það sem ég legg áherslu á í þessum efnum er fyrst og fremst tvennt.
    Í fyrsta lagi að um verði að ræða samræmda opinbera stefnumótun á vegum allra þeirra ráðuneyta sem hér um ræðir. Það er númer eitt. Í öðru lagi vantar ákvörðun og vilja Alþingis um að setja fjármuni í þetta verkefni. Ég sé þetta þannig fyrir mér að samstarfsnefnd yrði til á vegum margra ráðuneyta strax. Hún fengi starfsmann og fjármuni til að vinna að hluta þeirra verkefna sem hér er um að ræða. Það mætti auðvitað telja upp einhver fleiri verkefni en aðalatriðið er að það sé til þverfaglegur aðili sem heldur utan um allt málið en menn séu ekki að potast í þessu hver í sínu ráðuneyti.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til þess að koma á framfæri mínum sjónarmiðum í þessu efni. Ég tel að margt hafi verið vel gert en það verður að gera miklu meira. Þar þarf almenna, samræmda, opinbera stefnumótun og vilja til að láta í þetta fjármuni vegna þess að góð orð gera enga stoð ef þeim fylgja ekki peningar.
    Ég vona að ég fái tækifæri til þess að fjalla um þessa tillögu frekar ef henni verður vísað til hv. heilbr.- og trn. þar sem ég á sæti. Mér skilst á hv. 11. þm. Reykn. að það sé að koma frv. um vímuefna- og fíkniefnavarnir frá hæstv. ríkisstjórn. Ég hef ekki séð frv. en mér skilst að það sé væntanlegt og þá er hægt að skoða þessa hluti í samhengi.