Varnir gegn vímuefnum

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 12:05:00 (3296)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt grunnskólalögum eins og þau voru afgreidd hér á síðasta þingi er óheimilt að víkja börnum úr grunnskóla á sama hátt og áður var gert. Ég segi þetta vegna orða hv. 2. þm. Vestf. um að á milli 200 og 300 börn, sem ættu að vera skráð í grunnskóla, séu ekki skráð í grunnskóla. Sú breyting var gerð á síðasta þingi með nýju grunnskólalögunum að óheimilt er að reka börn úr grunnskóla á sama hátt og áður var gert. Það verður að tryggja að barnið fái viðunandi uppeldisúrræði annars staðar ef sérstök hegðunarvandamál koma upp sem eru óleysanleg innan viðkomandi skóla. Þetta er mjög mikilvægt atriði og eitt af allra stærstu og þýðingarmestu atriðum síðustu grunnskólalaga og í raun um leið eitt af stærstu forvarnaatriðunum sem Alþingi hefur nokkurn tímann fest í löggjöf eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson benti að nokkru leyti á.
    Ég vil svo taka undir með honum í þeim efnum að auðvitað snýst þetta mál allt um peninga. Auðvitað snýst síðasta ákvæði tillögunnar ekki um neitt annað en það að skora á utanrrh. að skrifa undir þennan alþjóðlega samning og ég vil spyrja hv. flm.: Er einhver ágreiningur um það? Af hverju gerir utanrrh. það ekki, eru einhver vandkvæði á því að skrifa undir þennan alþjóðlega samning?