Varnir gegn vímuefnum

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 12:09:00 (3300)

     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra umræðna sem í lokin hafa farið fram hér í þessum stól vil ég taka það fram að það var rétt hjá hv. 2. þm. Vestf. að 200--300 nemendur hurfu út úr skrám skólanna. Það voru fleiri ástæður fyrir því en að þeir væru allir reknir, sem betur fer. En of stór hluti er samt rekinn.
    Ég minnist í þessu sambandi að til mín kom einu sinni ungur maður, þar sem ég hef haft skólaforstöðu, og vildi komast í skólann til mín. Ég spurði: Af hverju? Hann sagðist hafa verið rekinn í viku. Og ég spurði hann hvort hann vildi ekki reyna að fara aftur í gamla skólann sinn og nota sér þennan ,,séns``, að mega koma einu sinni aftur. Þá svaraði blessaður drengurinn: Já, en þetta er svo fljótt að fara, þ.e. sénsinn. Hann vildi vera öruggur um að hann kæmist inn annars staðar. Og því miður er að mínum dómi of mikið gert af því að reka nemendur úr skóla. Ég veit ekki hvernig það er nákvæmlega á þessum vetri en allt fram undir þetta hefur sú aðferð verið notuð allt of mikið. Stundum hefur það endað með skelfingu og jafnvel sjálfsmorði nemanda. Ég veit dæmi þess.
    Að öðru leyti vildi ég víkja að þáltill. sem lögð var fram um auknar varnir gegn vímuefnum. Þetta er alvörumál, sem hefur verið til umræðu, og sívaxandi alvörumál. Það er alveg rétt sem komið hefur fram í umræðum að um leið og við innleiddum bjórinn færðist neysla áfengis neðar í aldursstigann þannig að yngri börn og unglingar fóru að neyta alkóhóls. Það hafa rannsóknir sýnt. Og það vita líka flestir sem vita vilja að upphafið að vímuefnaneyslu, þ.e. ólöglegra vímuefna, má oftast rekja til neyslu alkóhóls. Fæstir nemendur eða fæst ungmenni byrja á að neyta einhverra ,,harðra`` efna, sem kallað er. Þau byrja á alkóhólinu. Því vorum við, ég og hv. 2. þm. Vestf., hrædd þegar búið var að samþykkja í þinginu að gefa bjórinn frjálsan.
    Á hinn bóginn er líka vaxandi ótti í mér við ástandið í samfélaginu. Fleiri og fleiri komast á atvinnuleysisskrá. Og eins og niðurskurðurinn er í skólunum núna, munu fleiri og fleiri flosna úr skólum eða ekki komast í skóla áfram. Þetta fólk mun í örvæntingu sinni eiga á hættu að leita á náðir vímuefna, bæði löglegra og ólöglegra. Þar af leiðandi horfum við fram á það einmitt núna að þörfin muni vaxa fyrir varnir og störf til að hindra að fólk lendi í klóm þessa vágests sem hér um ræðir.
    Það vill svo til að ég hef þekkt nemendur sem hafa farið inn á Tinda, sem hv. 9. þm. Reykv. ræddi áðan. Ég tel að stofnun Tinda hafi verið til mikilla bóta. Ég hef þekkt til og unnið með fíkniefnanemendur sem áttu engra kosta völ og horft upp á þá skelfingu sem þeir áttu við að búa. Nú eiga þessi ungmenni þó þann möguleika að fara inn á Tinda og reyna að rétta sig af. Ég er ekki viss um að þeim takist það öllum, því miður, vegna þess að ástæðan fyrir því að þau lentu í þessum vandamálum er af öðrum toga spunnin en lönguninni í vímuefni. Hún er yfirleitt af félagslegum toga spunnin, þ.e. fólkið hefur búið við afskaplega erfiðar félagslegar og heimilislegar aðstæður og lent í þessum vanda þess vegna. Fjárhagsvandinn vex stanslaust í samfélaginu við aukið atvinnuleysi. Þá mun hættan á að nemendur og ungmenni lendi inn á þessar brautir líka tvímælalaust vaxa.
    Ég veit ekki hvort þið hafið gert ykkur grein fyrir því að upphaf vímuefnaflóðs á Íslandi átti rætur suður á Keflavíkurflugvelli. Þaðan rann það á fyrstu árunum inn í samfélagið. Í mannúðarskyni er nú búið að opna leiðir þeirra sem búa á Keflavíkurflugvelli inn í íslenskt samfélag. Þeir eiga alltaf greiðan aðgang hingað inn. Ég get ekki sagt annað en að það sé eðlilegt að fólki sé ekki alltaf haldið á bak við gaddavírsgirðingar en um leið og við opnuðum hliðin, opnuðum við líka fyrir meiri mögulegum innflutningi fíkniefna. Ég veit ekki hvort þeir, sem afnámu reglurnar um aðgengi fólks á Keflavíkurflugvellinum í okkar samfélag, hafi gert sér grein fyrir því að þeir opnuðu líka leiðir fyrir öðru en þessum mannlega þætti.
    Ég vil fagna þeirri þáltill. sem komið hefur fram. Það getur vel verið að hún heyri undir fleiri en eitt ráðuneyti og fleiri en einn aðila. Það er bara vel því að hvert einasta ráðuneyti, hvert einasta bæjarfélag og hvert einasta heimili í landinu þarf að leggjast á eitt um varnir gegn fíkniefnum. Svo það er ekki af hinu slæma að þetta skuli heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti.
    Tillaga hv. 9. þm. Reykv. eða hugmyndir um að stofna til samstarfsnefndar eða samstarfs milli ráðuneyta um þessi mál held ég að sé mjög góð og þurfi að takast alvarlega eins og flest það sem sagt hefur verið í ræðustól í dag um málin. Þau eru það alvarleg að allir verða að leggjast á eitt. Ég mun þess vegna fagna því og leggja til að þessi þáltill. verði samþykkt hið fyrsta og fé verði veitt til þessa. Það er

alveg rétt að fé verður að koma til. En það er ekki bara fé sem þarf, það þarf fyrst og fremst vilja til að gera eitthvað og ég held að hann sé fyrir hendi.