Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 12:56:00 (3304)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Fyrst er spurning um það hvort hér sé fyllilega þinglega að málum staðið. Alþingi hefur ályktað um þetta mál og talið ótímabært að það ályktaði um tillöguna sem slíka. Atvinnumálanefnd tók afstöðu til málsins á 113. löggjafarþingi og því er mér nokkuð til efs að rök séu fyrir því að taka málið upp með þessum hætti aftur. Ég beini því til forseta til umhugsunar til hvort ástæða sé til að endurflytja tillögur sem nýlega hafa verið afgreiddar. Mér fyndist eðlilegra að taka málið upp með þeim hætti að spyrja ráðherrann. Hin þinglega aðferð væri að spyrja ráðherrann hvað hann hafi gert í málinu og það mundi ég ráðleggja í svipuðum tilfellum.
    Í þessari tillögu er í sjálfu sér falleg framtíðarmúsík og ekkert nema gott um það að segja og góð hugsun sem liggur á bak við þetta. En þróun vetnisframleiðslu á langt í land þangað til hún getur orðið almenningi til hagsbóta og eftir er að leysa fjölmörg vandamál. Það kostar mikla peninga að leysa þessi vandamál og ég tel heppilegra að láta aðra um að leysa þau. Við Íslendingar höfum mörg verkefni að vinna sem eru brýnni en þetta. Þó að það sé mikilsvert og ég sé út af fyrir sig mjög spenntur fyrir því að unnið sé að málinu, þá held ég að við getum ekki sett þetta verkefni fremst í forgangsröðina, enda eru aðrir að fást við þessi vandamál. Við munum að sjálfsögðu geta notið ávaxta af þeirra starfi þegar fram líða stundir.
    Það er alveg sjálfsagt að hafa eyru og augu opin í þessu máli og fylgjast með þróuninni. En ég vil vara við óraunhæfum bjartsýnishugmyndum um orkunotkun. Við höfum haft allt of mikið af slíkum hugmyndum. Við höfum fengið nóg af þeim og ég vil biðja menn að reyna að vera raunsæir. Við höfum jafnvel farið út fjárfestingar í dýrum virkjunum til þess að skaffa einhverjum draumaverksmiðjum orku og síðan reyndust þessar verksmiðjur bara vera vindur í görnunum á viðkomandi draumamönnum. Við höfum gert mikil mistök í uppbyggingu íslenskra raforkuvera. Við höfum flýtt okkur of mikið án þess að hafa orkunýtinguna trygga. Við höfum reist stórar og dýrar virkjanir. Tímaritið Vísbending birti þær upplýsingar nú fyrir nokkrum vikum síðan að vegna þess að Blönduvirkjun er komin í rekstur og kostnaður af henni farinn að leggjast ofan á raforkuverð til landsmanna, þá væri það 15% hærra hér í Reykjavík en annars þyrfti að vera og 12--13% hærra ef ég man rétt annars staðar á landinu þar sem dreifingarkostnaður er meiri. Af þessu eigum við náttúrlega að reyna að læra og flýta okkur með gát. Ég er ekki að draga úr því að menn athugi alla kosti og fylgist með en ég held að það sé mjög mikilvægt að menn rasi ekki um ráð fram í þessu efni.
    Við verðum að reyna að nýta þessa umframorku sem til er í kerfinu. Gripið hefur verið til þess ráðs að loka virkjunum og það er ekki besta ráðið. Það eru hugmyndir uppi, sem hæstv. iðnrh. hefur kynnt, sem mér finnst sjálfsagt að skoða, t.d. að reyna að gera það aðlaðandi fyrir skipin að tengjast landrafmagni þegar þau eru í höfnum. Það má e.t.v. hugsa sér upphitun sundlauga. Ég minni á fiskeldi, jafnvel þótt það hafi kollsiglt sig í bili vegna óhóflegrar bjartsýni og drauma sem menn ólu í brjósti á sínum tíma og allt of mikillar fjárfestingar. Samt sem áður er ég þeirrar trúar að fiskeldi eigi eftir að verða ein af stoðunum í atvinnulífi Íslendinga og enn er stundað fiskeldi á Íslandi. Þar er möguleiki á því að selja meiri raforku ef rétt er á haldið. Þetta held ég að við þurfum allt að athuga. Það væri líka tilraun að reyna að gera rafmagn meira aðlaðandi til húshitunar. Svona mætti lengi telja. Ég held að við verðum að vaka yfir þeim möguleikum til raforkunotkunar sem kunna að vera hér í þjóðfélaginu.
    Ég held að vetnisframleiðsla verði tvímælalaust raunhæfur kostur. Ég skal ekki spá hvort það verður eftir 20, 30 eða 40 ár. Vetni er enn þá hættulegt í meðförum. Kannski verða menn búnir að finna góðar aðferðir til þess að meðhöndla það. Ég held að þetta sé verkefni framtíðarinnar en ekki beinlínis verkefni morgundagsins og ég vil vara við því að fólk sé að vekja falskar væntingar um orkunotkun. Við höfum haft dæmi af því og þau sorgleg. Ég held að ekki sé tímabært að rjúka upp til handa og fóta og fara að fjárfesta mjög í undirbúningi að þessu hjá okkur Íslendingum og ég tel að það liggi ekki á að samþykkja þessa tillögu.