Framleiðsla vetnis

76. fundur
Fimmtudaginn 06. febrúar 1992, kl. 13:39:00 (3310)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að elta ólar við þennan málflutning. Mér finnst gott að hv. flm. las þetta nál. og skilur þá væntanlega hvað í því stendur. Það sannar að óþarfi er að ræða þetta mál miklu meira hér eða að Alþingi taki afstöðu til þessarar tillögu.
    Það er alveg rétt varðandi skipavélarnar að mjög mikilsvert væri ef hægt væri að nota vetni til að knýja skip. Hins vegar ef menn komast á annað borð til ráðs við það með eðlilegum og hagfelldum hætti að knýja mótora þá er skipsvél ekki mjög frábrugðin í eðli sínu öðrum vélum. Ef þessi orkugjafi verður á annað borð brúklegur í vélar þá er tiltölulega mjög einfalt og fljótlegt að gera hann nothæfan um borð í skipum líka.